Jarðstrengur fyrir 220kV úr leik
Miðað við fyrirheit forsætisráðherra eftir ofsaveðrið 10.
desember hlýtur ríkisstjórnin að bretta um ermarnar og ráðast í endurbætur á flutnings- og dreifikerfi raforku.
Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu að morgni mánudags 16, desember þar sem sagði:
„Í þingsályktun 26/148, frá júní 2018, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku, kemur fram að sérfróður aðili skuli fenginn til að gera sjálfstæða rannsókn á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína og á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð, með tilliti til áhrifa á raforkuverð, afhendingaröryggis, hagkvæmni, byggðaþróunar, tæknilegra lausna og umhverfiskostnaðar. Er það í samræmi við þær áherslur sem er að finna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að treysta þurfi betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði, tryggja afhendingaröryggi um land allt og skoða að hve miklu leyti megi nýta jarðstrengi í slíkar tengingar með hagkvæmum hætti.
Til að fylgja því verkefni eftir fengu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti, á síðasta ári, óháðan sérfróðan aðila, dr. Hjört Jóhannsson, til að vinna skýrslu um jarðstrengi í flutningskerfi raforku út frá framangreindum efnisatriðum. Skýrsla hins sérfróða aðila liggur nú fyrir og hefur hún verið sett í opið umsagnarferli á samráðsgátt stjórnvalda.“
RARIK lauk í október 2019 lagningu tæplega 67 km.
jarðstrengs frá Geldingafelli á Bláfellshálsi til ferðaþjónustuaðila á
Kjalvegi en þar með tengdust meðal annars bæði Hveravellir og
Kerlingafjöll raforkukerfinu. Vegna þess að spenna er lægri á dreifikerfi raforku en flutningskerfi nýtast jarðstrengir í dreifikerfinu. Myndin er af vefsíðu RARIK.
Dr. Hjörtur Jóhannsson segir aðeins tæknilegt mögulegt að leggja um 5% nýrra 220kV flutningslína í jörðu. Hann segir einnig:
„Hvað varðar ferðamennsku og möguleg neikvæð áhrif loftlína á ásýnd náttúru, má ljóst vera að hinar miklu lengdatakmarkanir jarðstrengja leiða af sér að takmörkuðu máli skiptir hvort styrking flutningskerfisins fari fram með loftlínum eingöngu, eða hvort nýttir séu jarðstrengskaflar við slíka styrkingu. Þar sem að jafnaði er aðeins hægt að leggja um 5% nýrra flutningslína í jörðu, er ekki hægt að notast við jarðstrengi til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif nýrra 220kV flutningslína á ásýnd náttúru.
Meginniðurstaða þessa verkefnis er að hinar miklu lengdatakmarkanir jarðstrengja á hæstu spennustigum flutningskerfa raforku leiðir af sér að notkun svo stuttra jarðstrengskafla mun ekki hafa veruleg áhrif á afhendingaröryggi, raforkuverð, umhverfiskostnað eða byggðaþróun.“
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir um byggðamál:
„Flutnings- og dreifikerfi raforku verður að mæta betur þörfum atvinnulífs og almennings alls staðar á landinu. Uppbygging kerfisins getur stutt við áætlanir um orkuskipti sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, t.d. með því að hraða þrífösun rafmagns, með varmadæluvæðingu á köldum svæðum, innviðum fyrir rafbíla og rafvæðingu hafna.“
Í kafla stefnuyfirlýsingarinnar um umhverfis- og auðlindamál segir:
„Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar verður að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð. Í þeim tilgangi þarf að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skoðað verði að hve miklu leyti má nýta jarðstrengi í þessar tengingar með hagkvæmum hætti. Ekki verður ráðist í línulagnir yfir hálendið.“
Nú liggur sem sagt fyrir skýrsla óháðs sérfræðings um að ekki sé unnt að leggja nema 5% af 220kV flutningslínu í jörðu. Niðurstaðan er til umsagnar í samráðsgátt stjórnarráðsins. Ólíklegt er að önnur niðurstaða birtist þar þótt ekki sé það útilokað.
Miðað við fyrirheit forsætisráðherra eftir ofsaveðrið 10. desember hlýtur ríkisstjórnin að bretta um ermarnar og fara að tillögum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, atvinnu- og nýsköpunarráðherra, og alþingis í ályktunum þess um stórátak til orkuöryggis með því að styrkja loftlínur til flutnings raforku. Varaformaður VG, umhverfis- og auðlindamálaráðherrann, verður að standa að framkvæmd stjórnarsáttmálans eins og aðrir.