27.10.2020 10:45

Hvatning vegna stafrænnar tækni

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vakin er athygli á að hér á landi hefur alls ekki tekist að halda í við þróunina annars staðar í þessu efni.

Þegar litið er hve mikil áhersla er lögð á að tryggja aðgengi Íslendinga að netinu með skipulegri ljósleiðaravæðingu er undarlegt hve illa gengur að nýta stafræna tækni almennt hér á landi miðað við í nágrannalöndunum.

Á vegum fjármálaráðuneytisins er unnið að átaki undir heitinu Stafrænt Ísland,

Í dag (27. október) er kynnt hvatning og tillögur Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) og Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) til stjórnvalda um stefnumótun og aðgerðir í stafrænum málum. Í kynningu á framtakinu segir:

„Í hvatningunni lýsa SVÞ og VR miklum áhyggjum af stöðu stafrænnar þróunar í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði og skorti á stafrænni hæfni. Í greinargerð með tillögunum er m.a. vitnað í alþjóðlegar rannsóknir sem sýna að Ísland er að dragast verulega aftur úr þeim þjóðum sem við berum okkur helst saman við, ekki síst Norðurlandaþjóðunum, sem allar eru í fararbroddi í stafrænni þróun á heimsvísu. Þá er einnig bent á að mikil tækifæri séu til norræns samstarfs á þessu sviði og eru SVÞ og VR til að mynda þegar búin að koma á samstarfi við öfluga norræna aðila, m.a. um samstarf við Stafrænt hæfnisetur, sem er einn hluti af tillögum þeirra.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vakin er athygli á að hér á landi hefur alls ekki tekist að halda í við þróunina annars staðar í þessu efni.

4-digital-transformation-challenges-that-everyone-ignores-featuredFlest bendir til að innan íslenska stjórnkerfisins sé einhver flöskuháls úr því að einkaaðilum finnst ástæða til að beina erindi sínu sérstaklega til ráðuneyta í þessu efni. Þróun á stafrænu sviði er dæmigert samstarfsverkefni opinberra og einkaaðila. Ríkisvaldið leiðir ekki tækniþróunina og breytir ekki tæknilausnum í tæki. Það skapar hins vegar starfsrammann og á að tryggja notendum tækninnar öryggi.

SVÞ og VR leggja fram fimm tillögur til að hraða stafrænni þróun hjá íslenskum fyrirtækjum og starfsfólki:

„Komið verði á samstarfsvettvangi stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífs, vinnumarkaðar og háskólasamfélags til að vinna að öflugri stafrænni framþróun í íslensku samfélagi og atvinnulífi,

Mótuð verði heildstæð stefna í stafrænum málum fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf og farið í markvissar aðgerðir til að stuðla að stafrænni framþróun,

Sett verði á fót Stafrænt hæfnisetur til eflingar stafrænni hæfni í íslensku atvinnulífi og á vinnumarkaði,

Skattfrádráttur rannsóknar- og þróunarverkefna verði útvíkkaður til að ná til stafrænna umbreytingaverkefna,

Áhersla verði lögð á það í menntastefnu og aðgerðum að efla stafræna færni á öllum skólastigum.“

Ekki er einleikið að skortur á opinberri stefnu standi þessum þætti stafrænna mála fyrir þrifum. Þarna er ekkert minnst á þann þátt sem hér hefur oft verið gerður að umtalsefni, öryggisþáttinn. Þar er pottur brotinn hér á landi og ábyrgðarlaust að hvetja til aukinnar starfrænnar vinnslu án þess að hugað sé að honum á allt annan hátt en gert hefur verið til þessa.