Hrakspárvilla Sigmundar Davíðs
Sigmundur Davíð vill einmitt letja og hræða almenning á kostnað andstæðinga sinna í stjórnmálum. Það er alls ekki óhjákvæmilegt að íslenskur landbúnaður minnki vegna grænna lausna.
Loftslagsmálin ber hátt núna vegna nýrrar svartrar skýrslu í nafni Sameinuðu þjóðanna. The Wall Street Journal segir að skýrslan sé þó ekki eins svört og sú næsta á undan. Loftslagsvandinn hverfur ekki sem viðfangsefni og í haust verður mikil ráðstefna um hann í Glasgow sem gefur enn tilefni til umræðna.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skrifar grein í tilefni nýju skýrslunnar í Morgunblaðið í dag (12. ágúst). Hann segir að hér liggi fyrir loftslagsstefna sem feli í sér „mestu frelsisskerðingu um áratuga skeið“ án þess að skila nokkrum árangri í loftslagsmálum. Markmiðið sé að draga úr framleiðslu innanlands, hækka skatta og gjöld á almenning og leggja á nýja til að stýra neysluhegðun og hefta ferðafrelsi. „Minnka landbúnað, draga úr fjölda ferðamanna og fækka ferðum Íslendinga til útlanda,“ segir flokksformaðurinn að sé markmið stjórnvalda. Umhverfismál séu líklega „stærsta fórnarlamb hinna stórskaðlegu nýaldar stjórnmála þar sem allt snýst um umbúðir og yfirlýst markmið fremur en innihald og raunveruleg áhrif“.
Í sama tölublaði Morgunblaðsins er rætt við Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóra fyrirtækisins Klappa – grænna lausna sem vinnur með fjölda fyrirtækja að því að lágmarka kolefnisspor þeirra og losun gróðurhúsalofttegunda. Telur Jón Ágúst að í ljósi niðurstöðu skýrslu Sameinuðu þjóðanna sé loftslagsvandinn „gríðarlegur“.
Jón Ágúst segir Ísland hins vegar í kjörstöðu til að snúa vörn í sókn með fjárfestingum og þróun grænna tæknilausna og hugbúnaðar. Þetta sé kannski eitt stærsta atvinnutækifæri landsmanna og „stærsta tækifærið til að styrkja Ísland“.
Jón Ágúst segir íslenska bændur í lykilstöðu í þessari baráttu, sérstaklega hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda frá landi. Nefnir hann sérstaklega endurheimt votlendis og skógrækt en minnist ekki á kolefnisbúskap (e. carbon farming) sem sækir nú mjög í sig veðrið í Bandaríkjunum og innan Evrópusambandsins auk Ástralíu.
Forstjóri Klappar segir mikil verðmæti fólgin í því að binda kolefni í jörðu en þörf sé á viðskiptalíkani sem segi til um hvernig bændur geti selt bindingu til þeirra sem þurfi á henni að halda. Með þeim hætti geti bændur „virkilega breytt atvinnuháttum og tekjumöguleikum býlanna“.
Jón Ágúst lætur þess ógetið að hvort sem litið er til skógræktar eða votlendisbindingar hér á landi liggur ekki fyrir nein vísindaleg staðfest vitneskja um verðmætið. Þar skortir mat á kolefniseiningum reist á alþjóðlegri vottun og gegnsæjan markað fyrir einingarnar. Brýnt er að þeirri heimavinnu ljúki, með opinberum stuðningi sé hans þörf til að brúa bilið yfir í markaðslausnir.
Jón Ágúst segir mikilvægt að fjölmiðlar og ráðamenn hvetji almenning til dáða í þessum efnum frekar en halda uppi hræðsluáróðri. Við græðum lítið á því að gera fólk óttaslegið án þess að veita því von um framhaldið.
Sigmundur Davíð vill einmitt letja og hræða almenning á kostnað andstæðinga sinna í stjórnmálum. Það er alls ekki óhjákvæmilegt að íslenskur landbúnaður minnki vegna grænna lausna. Hrakspá Sigmundar Davíðs rætist komist hann til valda til að vinna að henni. Þeim ósköpum má þó forða.