26.8.2017 10:20

Hneykslissagan endalausa vegna OR-hússins

Monthúsið var í raun táknmynd þess að menn skyldu ekki vega að fyrirtækinu það gæti varist í virki sínu. Nú kemur í ljós að sá hluti virkisins sem trónir hæst er í raun ónýtur auk þess sem húsið er alltof stórt eins og við blasti frá upphafi.

Á opinberum vettvangi hef ég oft átt í orðaskiptum við menn vegna margra ólíkra málefna. Deilurnar sem urðu vegna gagnrýni minnar á höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á árinu 2002 eftir að ég settist í borgarstjórn Reykjavíkur eru minnisstæðar vegna þess hve þær urðu hatrammar. Gífurlega mikið var í húfi hjá þeim sem stóðu að þessari framkvæmd. Þeir komust upp með alls konar blekkingar. Fjölmiðlar gengu aldrei nógu hart fram í málinu. Fjölmiðlamenn létu einfaldlega blekkjast.

7946187752_2a39af9b47_bÉg sat í fáein misseri í stjórn OR og fékk þá vantrú á opinberum hlutafélögum, OHF. Meirihlutinn var rammpólitískur og neitaði okkur í minnihlutanum um aðgang að upplýsingum. Þegar mál OR voru tekin upp í borgarstjórn var sagt að um málefni hlutafélags væri að ræða, á því hvíldi ekki sama upplýsingaskylda og stofnunum á vegum borgarinnar.

Monthúsið var í raun táknmynd þess að menn skyldu ekki vega að fyrirtækinu það gæti varist í virki sínu. Nú kemur í ljós að sá hluti virkisins sem trónir hæst er í raun ónýtur auk þess sem húsið er alltof stórt eins og við blasti frá upphafi. Þegar að bruðlinu var vikið var því svarað með ásökunum um óvild í garð starfsmanna OR. Raunin er að vegið var að heilsu þessa fólks með því að láta það vinna í húsinu.

Það er eftir öðru að núverandi stjórnendur OR seldu húsið til fjárfesta og leigðu það af þeim með þeim skilmálum að OR stæði undir öllum kostnaði við viðgerðir á húsinu, yrði þeirra þörf. Leigusalinn reynist í raun lánveitandi. OR situr bæði uppi með leigugreiðslur og allan kostnað af viðgerðum á eigninni.

Í gær, föstudaginn 25. ágúst, voru fluttar fréttir um ónýta hluta mannvirkisins. Jafnframt var þess getið að enn hefðu ekki verið teknar ákvarðanir um framhaldið. Þetta er áfangameðferð fyrir þá sem borga brúsann, viðskiptavini OR. Skilja má fréttir þannig að stjórn OR sé í sameiginlegu áfalli og nú sem fyrr er látið eins og fara eigi með það sem gerist á fundum OR eins og mannsmorð af því að það sé OHF.

Til að minna á hve fráleitt er að algjör þagnarskylda eigi að gilda um það sem gerist í stjórnum opinberra hlutafélaga birti ég ræðu sem ég flutti í borgarstjórn Reykjavíkur 21. nóvember 2002:

„Ég kveð mér hljóðs vegna tillögu, sem við sjálfstæðismenn lögðum fram í borgarráði 19. nóvember vegna höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur.

Tillagan er svohljóðandi:

 „Nú dregur að því, að nýjar höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur (OR) verði teknar í notkun. Deilur hafa verið um kostnað við gerð þeirra og flutning OR í hið nýja húsnæði auk þess sem ekki er með öllu ljóst, hvernig fyrirtækið ætlar að nýta það.  Reykvíkingar eiga hér mikilla hagsmuna að gæta sem 92.22% eigendur Orkuveitu Reykjavíkur.

Mikilvægt er, að allar staðreyndir um fjárútlát vegna þessa mikla mannvirkis og um nýtingu þess liggi fyrir, svo að unnt sé að meta réttmæti fjárfestingarinnar á hlutlægum forsendum. Þess vegna er lagt til að borgarendurskoðanda, Deloitte & Touche og Fasteignastofu Reykjavíkur verði falið að tilnefna einn fulltrúa hver í starfshóp, sem skili borgarráði skýrslu um öll útgjöld vegna smíði höfuðstöðva OR og flutnings þangað auk yfirlits yfir nýtingu hins nýja húss í þágu OR.”

Samkvæmt „síðustu áætlun“ er kostnaður við OR-húsið 2,485 milljónir króna. Fleiri áætlanir eru væntanlega, því að ekki eru öll kurl enn komin til grafar, til dæmis er ekki í þessari  síðustu áætlun gert ráð fyrir kostnaði við að leggja hita í bílastæði við höfuðstöðvarnar.

Inn í heildardæmið vegna höfuðstöðvanna vantar einnig kostnað við kaup á húsi fyrir framkvæmdasvið OR undir verkstæði, skrifstofur og vinnuflokka, það er 4/5 hluta af Réttarhálsi 4 fyrir 395 milljónir króna, en starfsmannaaðstaða í nýju höfuðstöðvunum á að nýtast fyrir þá, sem vinna að Réttarhálsi 4. Ekki hefur verið lokið við að innrétta húsnæðið að Réttarhálsi 4 eða tengja húsin, en kostnaður við þær framkvæmdir hefur að sögn forstjóra OR einungis verið gróflega áætlaður um 150 milljónir króna.

Séu þessar tölur, sem allar eru opinberar frá OR, lagðar saman kemur í ljós, að kostnaður við nýjar höfuðstöðvar er að minnsta kosti kominn í 3030 milljónir króna.

Ástæðulaust er að menn séu að togast á um þessar tölur. Einfaldasta leiðin til að eyða ágreiningi um þær er að fela hlutlausum aðilum að taka saman skýrslu með þeim hætti, sem lýst er framangreindri tillögu. Ég tel víst, að borgarráð samþykki hana.“

Óþarft er að taka fram að tillagan var felld og talin til marks um ómaklega gagnrýni á OR og aðför að starfsfólki fyrirtækisins.