25.4.2019 7:18

Heitar orkuumræður um það sem ekki verður

Nauðsyn þess að bæta flutningskerfi raforku innan lands blasir við öllum sem leiða hugann að raforkumálum en láta ekki stjórnast af einhverju öðru.

Þegar hluti þriðja orkupakkans var lögfestur hér með hraði í maí 2105, án þess að pakkinn hefði verið samþykktur sem hluti af EES-samningnum, það gerðist ekki fyrr en 2017, vildi meirihluti þingmanna standa þannig að málum í von um að bæta flutningskerfi raforku í landinu auk þess að staðfesta réttmæti athugana á flutningi raforku til annarra landa.

Nauðsyn þess að bæta flutningskerfi raforku innan lands blasir við öllum sem leiða hugann að raforkumálum en láta ekki stjórnast af einhverju öðru, t.d. óvild í garð EES-samstarfsins, þegar þeir ræða orkumál.

RafmagnNú í vikunni sagði Fréttablaðið að um 400 gígavattstundir töpuðust á árinu 2018 við flutning raforku frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda. Er það aukning um 6,7 prósent á milli ára. Í fyrra nam framleiðsla raforku tæpum 20 þúsund gígavattstundum og jókst um 3,1 prósent frá fyrra ári. Til samanburðar er aukningin jafn mikil og öll notkun raforku á Suðurlandi.

Sverrir Jan Norðfjörð, formaður raforkuhóps orkuspárnefndar og framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir í blaðinu að þarna sé miklum verðmætum sóað. „Við höfum verið að auka framleiðsluna jafnt og þétt síðustu ár en höfum ekki staðið okkur nægilega vel að byggja upp flutningskerfið. Mikið hefur verið rætt um matarsóun og annað í þeim dúr þar sem keppst er við að nýta matvæli og vekja fólk til umhugsunar um þau verðmæti sem fara til spillis. Því þurfum við kannski að fara að horfa til raforkunnar einnig.“

Í fréttinni segir að ástæða þess að orkan tapast sé sú að flutningskerfi raforku er ekki nógu vel í stakk búið til að takast á við flutningana, að sögn Sverris. „Vitaskuld munum við alltaf horfa upp á einhver flutningstöp í kerfinu, hjá því verður ekki komist,“ segir hann. „Hins vegar er flutningstapið núna jafn mikið og aflið úr Svartsengi svo þetta eru nokkuð stórar tölur.“

Þetta er viðfangsefni líðandi stundar í raforkumálum, að draga sem mest úr því að orkan fjúki út í veður og vind vegna lélegs flutningskerfis. Umræðurnar í orkumálum snúast þó ekki um það heldur um eitthvað sem aldrei verður. Þær eru kannski þess vegna svona heitar?