17.1.2020 11:28

Heilbrigðisráðherra ákveður víglínuna

Hvarvetna þar sem sósíalísk miðstýringarsjónarmið ráða verða til biðraðir og þegar þær eru á bráðamóttökum er meira í húfi en til dæmis í pósthúsum.

Það sýnir mikið traust í garð landhelgisgæslunnar og þyrluflugmanna hennar að formenn stjórnarflokkanna þriggja skyldu fara saman fljúgandi til Flateyrar fimmtudaginn 16. janúar til að kynna sér aðstæður á snjóflóðasvæðunum fyrir vestan. Björgunarsveitarmenn með starfsmenn, skip og þyrlu gæslunnar að baki njóta trausts og virðingar landsmanna. Sjá verður til þess að staðið sé vel að þessum grunnþáttum, aldrei verður unnt að koma í veg fyrir slys, ávallt verður þörf fyrir þá sem veita hjálp, líkn í neyð.

Með þetta í huga er dapurlegt að fylgjast með umræðunum um Landspítalann og kreppuna sem þar ríkir. Vandinn hefur magnast við ríkisforsjárstefnuna sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fylgir. Það leiðir aðeins til vandræða að herða ríkistökin á þessu sviði eins og öllum öðrum. Af því að ráðherrann fylgir þessari stefnu beinast öll spjót að henni í stað þess að leitað sé annarra lausna.

Um miðjan tíunda áratuginn var staðan þannig að á háskólastigi að Háskóli Íslands sat um menntamálaráðherrann á svipaðan hátt og Landspítalinn gerir um heilbrigðisráðherrann núna. Í stað þess að sitja með allan þunga háskólanáms á herðum menntamálaráðuneytisins var losað um tök ríkisvaldsins á háskólamenntun. Staðan breyttist á örfáum árum. Þeir sem vilja í raun létta á spennunni vegna Landspítalans og auðvelda honum að sinna hlutverki sínu sem bráða- og háskólasjúkrahúsi verða að létta af honum verkefnum með því að heimila öðrum að sinna þeim.

590456Svigrúm af þessu tagi er eitur í beinum núverandi heilbrigðisráðherra vegna hollustu við úrelt stjórnmálaleg viðhorf um hlutverk ríkisins. Hvarvetna þar sem sósíalísk miðstýringarsjónarmið ráða verða til biðraðir og þegar þær eru á bráðamóttökum er meira í húfi en til dæmis í pósthúsum.

Reynir Arngrímsson, formaður Læknafélags Íslands, segir í Morgunblaðinu í dag (17. janúar):

„Hægt er að minnka álag á starfsemi Landspítala með því að endurskoða hvar þjónusta vegna átaks- og sérverkefna er veitt í heilbrigðiskerfinu sem ekki krefst hátækni inngripa og gjörgæslu lækna. [...]

Með stefnubreytingu heilbrigðisyfirvalda sem miðar að því að minnka aðflæði á Landspítala í þjónustu sem hægt er að veita utan sjúkrahússins, á fleiri stöðum en í heilsugæslunni og á hjúkrunarheimilum, er hægt að skapa nauðsynlegt svigrúm til að minnka álag á Landspítalann og starfsfólk hans. Slík breyting myndi auka öryggi sjúklinga, bæta skilvirkni þjónustu og leiða til hagkvæmari rekstrarniðurstöðu fyrir samfélagið allt.

Engin önnur skynsamlegri lausn er í augsýn. Bráðaveikindum verður ekki afstýrt en aðflæði og skipulag annarra heilbrigðisþjónustu má hæglega endurskoða og veita víðar en á Landspítala.“

Það er óskiljanlegt að heilbrigðisráðherra VG skuli velja núverandi víglínu í átökum um þjónustu Landspítalans. Hjá ráðherranum ráða úreltar pólitískar kreddur sem vinna gegn þeim markmiðum sem sett eru með opinberum fjárveitingum til heilbrigðisþjónustu.