27.3.2020 10:34

Harðari reglur gegn sjúkdómum í dýrum en mönnum

Enginn Íslendingur hefur krafist jafnstrangra reglna til að hafa stjórn á ferðum mannfólks til og frá landinu og á ferðum dýra.

Það hriktir í mörgum gamalgrónum alþjóðastofnunum um þessar mundir vegna kórónaveirunnar. Spurningar vakna um hvernig þær koma frá eldrauninni þegar frá líður, hvort allt fari í sama farið eða haldið verði inn á nýjar brautir. Þetta á ekki aðeins við um alþjóðasamstarf og stofnanir til að framfylgja því heldur einnig stjórnarhætti innan einstakra ríkja.

Í Evrópu beinist athygli að sjálfsögðu einkum að Evrópusambandinu (ESB). Þegar er orðið ljóst að Schengen-samstarfið breytist í framkvæmd. Heimildir ríkja til gæslu á landamærum sínum hafa verið fyrir hendi. Þær verða nú nýttar í ríkari mæli en áður. Þá hlýtur að verða raunveruleg gæsla á ytri Schengen-landamærum. Haldleysi stefnunnar um að gera eigi landamæri að engu hefur endanlega sannað sig. Landamæri hafa aldrei horfið úr sögunni frekar en fullveldi ríkja til að gæta öryggis borgara sinna.

Á vettvangi Evrópusambandsins höfnuðu ríki því í upphafi aldarinnar að láta samstarf sitt ná til viðbúnaðar gegn heilbrigðisvá gegn mönnum. Ákveðið var að safna tölfræðilegum upplýsingum sem nota mætti til ráðgjafar en allar aðgerðir eru á valdi heilbrigðisyfirvalda í einstökum ríkjum. Nú er bent á að Evrópureglur til að verjast dýrasjúkdómum séu öflugar en engar sambærilegar reglur séu fyrir hendi vegna sjúkdóma sem herja á mannfólkið.

65410Rauði krossinn hefur reist neyðarsjúkrahús í Brussel.

Kynni menn sér sögu aðildar Íslands að EES sjá þeir fljótt hve mikil áhrif þessar dýraheilbrigðisreglur hafa haft til dæmis fyrir fiskvinnslu og útflutning á sjávarafurðum. Það skipti höfuðmáli um aldamótin að innleiða þessar reglur hér til að tryggja frjálst flæði fisks til kaupenda á sameiginlega EES-markaðnum í stað þess að hafa aðeins útflutningsheimild um tilgreindar hafnir.

Bannað er að flytja lifandi dýr til landsins og áralangar deilur hafa verið um innflutning kjötafurða en hann lýtur nú ströngum samevrópskum heilbrigðiskröfum. Komi upp pest í svínum í einu ESB-landi er gripið til strangra lögbundinna ESB-aðgerða en ekki ef faraldur herjar á menn.

Enginn Íslendingur hefur krafist jafnstrangra reglna til að hafa stjórn á ferðum mannfólks til og frá landinu og á ferðum dýra. Háværustu kröfurnar eru oftast um að auka ferðafrelsi manna og um að slaka á kröfum til að taka á móti þeim sem eru veikir.

Nú er sagt að ESB hefði getað átt birgðir af lungnavélum. Neyðarreglur hefðu getað mælt fyrir um hvernig staðið yrði að framleiðslu á grímum. Þá hefði mátt skipuleggja neyðarhóp lækna og hjúkrunarfólks sem sendur yrði á viðkvæma staði eins og til dæmis Norður-Ítalíu.

Bent er á að við aðstæður sem þessar komi ekkert í stað ákvarðana á heimavelli en þær megi sín oft lítils án alþjóðlegs samstarfs t.d. um mótefni, birgðir, fjarskipti og flutninga til að halda flugvöllum, höfnum og landamærum opnum svo að lífsnauðsynjar berist.

Haft er eftir Claus Haugaard Sørensen, gamalreyndum dönskum stjórnanda innan ESB, á vefsíðunni altinget.dk : „Við eigum að verja mannfólkið jafnvel og grísir.“