13.12.2017 10:05

Hæfi ráðherra vegna fyrri starfa

Líklegt er að fleiri spurningar kunni að vakna um hæfi nýja umhverfisráðherrans til að taka afstöðu í álitamálum en nýja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans.

 

Umræða um hæfi ráðherra fer nú fram og snýst í ríkisútvarpinu, á vefsíðunni Stundinni og líklega á fleiri vinstrisinnuðum miðlum ekki síst um Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann sat fyrir svörum í ríkissjónvarpinu þriðjudaginn 12. desember og svífur sá andi í Efstaleiti að nauðsynlegt sé að hafa varann á sér gagnvart Kristjáni Þór þar sem hann hafi starfað sem stýrimaður hjá Samherja og setið í stjórn fyrirtækisins auk þess sem það hafi styrkt hann í stjórnmálabaráttunni.

Í þessu tilliti er staða Kristjáns Þórs ekki önnur en margra annarra stjórnmálamanna sem hafa verið virkir í atvinnulífi þjóðarinnar og verða í störfum sínum að meta eigið hæfi til töku ákvarðana af tilliti til margra annarra þátta en þeirra sem snerta fyrri störf þeirra. Ástæðan fyrir því að sótt er sérstaklega að Kristjáni Þór er ekki málefnaleg, þótt leitast sé við að færa málflutninginn í þann búning, heldur hluti af viðleitni til að skapa tortryggni í garð öflugra sjávarútvegsfyrirtækja.  Hann er auk þess þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem gerir hann sjálfkrafa að bráð þeirra fjölmiðlamanna sem vilja veg flokksins sem minnstan.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson tekur við lyklavöldum af Björt Ólafsdóttur umhverfisráðherra.

Til að hafa fleiri þingmenn til setu í nefndum alþingis ákvað Katrín Jakobsdóttir að fá mann utan þingflokks VG til að setjast í embætti umhverfisráðherra. Valdi hún Guðmund Inga Guðbrandsson. Hann var  framkvæmdastjóri Landverndar 2011-2017 en starfaði áður við rannsóknir í vist- og umhverfisfræðum við Háskóla Íslands og við alþjóðamál og rannsóknir hjá Landgræðslu ríkisins. Þá starfaði hann á Veiðimálastofnun á Hólum í Hjaltadal á námsárum sínum. Guðmundur Ingi hefur verið stundakennari á námskeiðum við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólasetur Vestfjarða síðan 2006. Guðmundur Ingi hefur einnig starfað sem landvörður á Þingvöllum og í Vatnajökulsþjóðgarði.

Nýi umhverfisráðherrann var í sex ár framkvæmdastjóri Landverndar, samtaka almennings sem telja sig hafa sérstöðu af því að félagsmenn séu um 5.000 og Ísland sé aðili að svonefndum Árósasamningi sem geri ráð fyrir slíkum samtökum. Brást Landvernd illa við þegar fjölmiðlamenn töldu að efast mætti um hæfi nýja umhverfisráðherrans til að fjalla um álitamál á verksviði sínu. Sendu samtökin frá sér yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars:

„Frá fyrstu fréttum af vali nýs umhverfisráðherra hafa fleiri en einn og fleiri en tveir fréttamenn RÚV vísað til Landverndar sem hagsmunasamtaka. Í umræðum í kjölfarið hafa þingmenn úr öllum flokkum látið þetta átölulaust og jafnvel líkt Landvernd við samtök atvinnurekenda, sem sannarlega er hefð fyrir  að kalla hagsmunasamtök, enda eru þau það. Má þar m.a. nefna SFS og Bændasamtökin. Jafnvel hefur þingmaður og fyrrverandi ráðherra gengið svo langt í umræðum að kalla Landvernd sérhagsmunasamtök. Stjórn Landverndar bendir á að í hinu mikilvæga hlutverki fréttamanna felst að til þeirra er gerð rík krafa um rétta og hlutlæga nálgun. Landvernd gerir þá kröfu til þeirra að þeir þekki og geri mun á eðli samtaka almennings og samtaka atvinnufyrirtækja.“

Þetta er sérkennilegur texti að því leyti að hann breytir engu um hæfi umhverfisráðherra. Hvernig sem stjórnendur Landverndar líta á eigin samtök ber umhverfisráðherra að virða hæfisreglur stjórnsýslulaga. Líklegt er að fleiri spurningar kunni að vakna um hæfi nýja umhverfisráðherrans til að taka afstöðu í álitamálum en nýja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans.

Í nýjum fréttum af þorskstofninum segir að hann hafi aldrei mælst sterkari. Þær sýna að útgerðarmenn og sjómenn hafa ásamt stjórnvöldum og vísindamönnum náð frábærum árangri á sviði umhverfisverndar. Fréttin um þorskstofninn er í hróplegri andstöðu við neikvæðnina í garð sjávarútvegsins sem birtist nú í gagnrýni á Kristján Þór Júlíusson fyrir að hafa starfað við greinina.