13.9.2017 15:09

Gjaldtaka en ekki kerfisuppskurður

Frásagnir af fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 benda ekki til að fast hafi verið tekið á útgjaldaliðum. Leiðin sem farin er felst að meginatriðum í hækkun gjalda á neytendur og enn á ný bíleigendur.

Á alþingi vorið 2017 var fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 afgreidd í fyrsta sinn. Fjárlaganefnd undir forystu Haralds Benediktssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, fór yfir áætlunina og skiluðu nefndarmenn áliti um hana. Álitin eru ólík eftir flokkum en stjórnarþingmenn í nefndinni mynduðu meirihluta sem benti á ýmislegt sem betur ætti að fara við gerð fjárlaga ársins 2018.

Frumvarp að þessum fjárlögum hefur verið lagt fram en við kynningu á því hefur ekkert komið fram um hvernig fjármálaráðherrann hefur staðið að úrvinnslu á einstökum tillögum meirihluta fjárlaganefndar. Þar sagði til dæmis að breyting á virðisaukaskatti á miðju ári væri ekki æskileg og við undirbúning næsta fjárlagafrumvarps þyrfti að leita leiða til að endurskoða þær áætlanir. Þetta hefur verið gert því að ekki er ráðgert að breyta virðisaukaskattinum fyrr en 1. janúar 2019.

Meirihlutinn taldi ástæðu til að greina ítarlega kosti og galla þess að leggja komugjöld á farþega til landsins. Ef til vill hefur þetta verið kannað í kyrrþey en Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segist standa fast á því að hækka skuli virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Hann hlustar ekki á rök þeirra sem segja að þetta sé alröng og skaðvænleg stefna og segir að ferðamenn eigi að greiða sama virðisaukaskatt og Íslendingar. Í þeirri kenningu er sú rökvilla að allir hér á landi greiða jafnháan virðisaukaskatt hvort sem þeir eru Íslendingar, útlendingar eða ferðamenn. Eða heldur fjármálaráðherrann að lagður sé hærri virðisaukaskattur á Íslendinga gisti þeir á hóteli á Íslandi?

Í áliti meirihlutans segir: „Bregðast þarf tímanlega við kostnaðarauka vegna nýrrar Evrópureglugerðar um persónuvernd sem kemur til framkvæmda í maí 2018.“ Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir auknu fé til persónuverndar.

Einnig segir:

„Bent er á að enn er óleystur ágreiningur ríkis og þjóðkirkjunnar um fjárhagsleg samskipti. Miðað var við að samningaviðræðum yrði lokið fyrir lok febrúar 2016. Meiri hlutinn telur mikilvægt að niðurstaða fáist fyrir gerð fjárlaga fyrir árið 2018.

Meiri hlutinn telur ástæðu til að endurskoða aðhaldskröfu á framhaldsskóla þar sem hagræðing vegna styttingar náms hefur ekki enn komið fram að fullu.

Meiri hlutinn leggur áherslu á að það viðbótarfé sem háskólastiginu var úthlutað við fjárlagagerð fyrir árið 2017 haldist áfram í fjárlögum fyrir árið 2018.“

Hefur þetta gengið eftir? Eða þetta:

 „Stefnumörkun um gjaldtöku á vegum þarf að liggja fyrir sem fyrst og í tengslum við gerð næstu fjármálaáætlunar er mikilvægt að komin verði mynd á framtíðarfyrirkomulag fjármögnunar samgöngumannvirkja sem ætlunin er að byggja með notendagjöldum ef ákveðið verður að fara þá leið.“

Þá segir einnig í álitinu:

„Mikilvægt er að við endurskoðun á samningum við sjálfstætt starfandi lækna verði að vera sterkari stýritæki en verið hafa til að ná markmiðum um hagkvæmni og skilvirkni.

Meiri hlutinn hvetur heilbrigðisráðherra til að skoða kosti þess að setja á laggirnar stjórn yfir starfsemi Landspítalans.“

Allir stjórnmálamenn sem hafa látið í ljós álit á nýju ferli við gerð fjárlaga hafa lýst ánægju með formið og talið að það leiði til opnari og betri opinberrar fjármálastjórnar. Eitt er að ræða rammann eins og gert var sl. vor annað að líta til framkvæmdarinnar í fjárlögunum sjálfum eins og nú skal gert.

Frásagnir af fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 benda ekki til að fast hafi verið tekið á útgjaldaliðum. Leiðin sem farin er felst að meginatriðum í hækkun gjalda á neytendur og enn á ný bíleigendur. Sagt er að hækka verði gjald á bensíni til að verð á því haldi í við hækkun á gjaldi á dísilolíu (!) – þetta sé gert til að auka notkun á rafmagnsbílum. Þeir nýtast helst á höfuðborgarsvæðinu þar sem stefnt er að útrýmingu einkabílsins, meirihlutinn í Reykjavík blæs á allt tal um ágæti rafmagnsbíla – borgarlínan bjargi öllu.

Hvergi er vikið að kerfisuppskurði. Gjöld eru hækkuð til að standa undir auknum útgjöldum en áfram látið ógert að hrófla við opinberum hlutafélögum eða boða tekjuöflun og minni ríkisumsvif með sölu þeirra.

Í kvöld flytur forsætisráðherra stefnuræðu sína. Stjórnin hefur nú setið í átta mánuði. Hagvöxtur hefur verið mikill, atvinnuleysi er ekkert og staða ríkissjóðs sterk en það vantar enn punktinn yfir i-ið – pólitíska eldmóðinn að baki skýrum markmiðum í anda borgaralegra sjónarmiða. Hvarvetna í Evrópu sést að þeir sem missa sjónar á slíkum markmiðum missa fylgi meðal kjósenda.