18.12.2023 9:30

Gervigreind ógnar flugumferðarstjórum

Það semur sig enginn frá hátæknilegum breytingum. Flugumferðarstjórar búa við þann veruleika eins og aðrir.

Flugumferðarstjórar völdu jólaföstuna til að ögra samgöngum og samfélaginu með verkföllum. Atvinnustarfsemi sem varð mjög illa úti vegna heimsfaraldursins glímir nú við fjárhagsvanda að nýju vegna aðgerða sem einkennast meira af óbilgirni en vilja til friðsamlegrar niðurstöðu með samningum. Að þessu leyti minna aðgerðirnar á dæmigerða gíslatöku þar sem ekki verði neitt gefið eftir nema í fulla hnefana.

Það er sérkennilegt að alþingismenn hafi ekki áttað sig á þessu eðli deilunnar núna áður en hlé var gert á störfum alþingis til 22. janúar 2024. Við aðstæður sem þessar hvílir sú skylda á herðum þingmanna að taka af skarið með lagasetningu.

Því má velta fyrir sér hvað valdi þessari óvenjulegu hörku flugumferðarstjóra. Ein skýring kann að vera að þeir telji þetta síðasta tækifæri sitt til valdbeitingar af þessu tagi í ljósi tæknibreytinga sem gerast nú mjög hratt og ógna sjálfum starfsgrundvelli þeirra og er þá vísað til þess að gervigreindin veldur örum umskiptum í flugheiminum og nær að sjálfsögðu einnig til flugumferðarstjóra. Áhrifum tækninnar á störf þeirra er lýst bæði sem jákvæðum og neikvæðum.

Gervigreind mun sinna til dæmis fylgjast með ferðum flugvéla og senda boð til flugmanna sem nú eru grunnverkefni flugumferðarstjóra. Þá mun gervigreindin einnig greina gífurlegt magn af upplýsingum til að finna veika punkta og láta að sér kveða skapist hætta.

Gervigreindin auðveldar flugumferðarstjórum að taka upplýstar ákvarðanir sem eru reistar á rauntíma mati á flugumferð, veðri og váboðum. Hún styrkir einnig flugstjórnarkerfin sjálf.

Was_career_atco_07

Vinnuálag á flugumferðarstjóra minnkar og þeim mun fækka. Inntak starfsins breytist stig af stigi og gervigreindin dregur úr hæfni flugumferðarstjóra til að bregðast við hættulegum tilvikum. Spurningar hafa þegar vaknað um hvort og hvernig eigi að þjálfa flugumgerðarstjóra til að þeir viðhaldi nægri þekkingu til að bregðast við þegar hætta skapast.

Lítið hefur frést af ágreiningsefnum í kjaradeilu íslensku flugumferðarstjóranna. Sögusagnir komust á kreik um að þeir krefðust 25% launahækkunar. Ef til vill vilja þeir einnig ákvæði í væntanlegan samning sem vernda störf þeirra gegn innreið gervigreindarinnar?

Það semur sig enginn frá hátæknilegum breytingum. Flugumferðarstjórar búa við þann veruleika eins og aðrir.

Flugumferðarstjórar á Íslandi hafa ekki sérstöðu þegar litið er til aðferða þeirra sem sinna þessum lykilstörfum til að tryggja starfskjör sín og laun. Vegna þess hve flugumferðarstjórar sýna oft mikla óbilgirni með verkfallsaðgerðum er líklegt að markvisst verði unnið að því að minnka tækifæri hópsins til að trufla samgöngur og hraða innleiðingu gervigreindar í þeirra stað.