16.10.2017 13:54

Galopin útlendingastefna VG

Vegna ofstækis þingmanns VG er ástæða að óska eftir upplýsingum um stefnu flokks hans í útlendingamálunum sem vega sífellt þyngra í stjórnmálaumræðum hér og meðal nágrannaþjóða.

Það er til marks um kosningabaráttu vinstri grænna (VG) hve fljótt frambjóðendir flokksins hlupu til í því skyni að sverta Sjálfstæðisflokkinn vegna stefnu hans í útlendingamálum eftir að Ásmundur Friðriksson, þingmaður flokksins, lýsti sjónarmiðum sínum í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 14. október. Greinin er skoðun Ásmundar og endurspeglar viðhorf hóps kjósenda en lýsir ekki stefnu Sjálfstæðisflokksins eins og Ásmundur hefur sjálfur áréttað.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, sakaði Ásmund um það sem hann kallar „fátækrarasisma“. Að gripið sé til rasistastimpilsins sýnir hve þráðurinn er stuttur í þessum málaflokki. Ofstækið spillir umræðunum og fælir þá frá þátttöku sem vilja taka málið öðrum tökum, svipuðum þeim sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Vegna ofstækis þingmanns VG er ástæða að óska eftir upplýsingum um stefnu flokks hans í útlendingamálunum sem vega sífellt þyngra í stjórnmálaumræðum hér og meðal nágrannaþjóða. Á vefsíðu VG má sjá fyrirsagnir um ýmsa stefnuflokka en engin þeirra snýst um útlendingamál. Þar eins og í öðrum málaflokkum kaupa kjósendur köttinn í sekknum ákveði þeir að veita VG stuðning sinn.

Í kafla sem ber fyrirsögnina Friðsamleg alþjóðasamskipti segir VG aðeins:

„Sífellt fleiri eru á flótta í heiminum undan stríðsátökum og afleiðingum loftslagsbreytinga. Ísland þarf að axla ábyrgð í þessum efnum. Þess vegna eigum við að taka á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum og tryggja til þess fjármuni og aðstöðu. Jafna þarf aðstæður hælisleitenda og svokallaðra kvótaflóttamanna og tryggja fullnægjandi framkvæmd nýrra útlendingalaga með fjármagni og mannafla þannig að hún sé í takt við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.“

Þetta er svo almennt orðað að ógjörningur er að átta sig á hvað fyrir VG vakir. Hvað felst í því að „jafna ... aðstæður hælisleitenda og svokallaðra kvótaflóttamanna“? Veit það í raun nokkur? Er ætlunin að opna hér landamæri á sama tíma og nágrannaþjóðir loka sínum landamærum? Óljós áform VG verða dýrkeypt í framkvæmd hvernig sem á málið er litið.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mótað skýra stefnu sem hann kynnir undir fyrirsögninni Málefni útlendinga á vefsíðu sinni. Þar segir meðal annars:

„Mikill árangur hefur náðst við styttingu málsmeðferðartíma við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd að undanförnu og við að hraða brottför þeirra sem sækja um vernd að tilhæfulausu. Margt er þó enn ógert og því er mikilvægt að hrinda í framkvæmd boðaðri vinnu dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins um þverpólitísks samráðsvettvang um útlendingalöggjöfina.“

Þarna er vikið að því sem sem er brýnast í útlendingamálum á líðandi stundu. Það er að fækka sem mest tilhæfulausum umsóknum um hæli. Það verður gert með skilvirkri landamæragæslu og skjótri framkvæmd sem fælir þá frá að koma hingað sem eiga það erindi eitt að nýta sér félagslega kerfið. Að sporna gegn slíkum heimsóknum kallar Kolbeinn Óttarsson Proppé einfaldlega „fátækrarasisma“. Flokkur hans ætlar greinilega allt aðra leið.