23.4.2017 11:27

Gagnsæi í stað baktjaldamakks um fjárlagastefnu

Gagnsæi í stað baktjaldamakks um fjárlagastefnu

Upphrópanir um að þingmenn lýsi skoðun á áætluninni og þar með sé líf ríkisstjórnarinnar í hættu benda til vanþekkingar eða vantrausts á nýjum, opnum vinnubrögðum við fjárlagagerðina

Í gær, 22. apríl, minntist ég aðeins á nýmælið sem felst í að ríkisstjórnin leggur fram, nýjum lögum samkvæmt, fimm ára fjármálaáætlun. Í umræðum um áætlunina á þingi 6.apríl sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra:

Nú er fjármálaáætlun lögð fram í annað sinn. Þetta er töluvert viðamikið rit sem segir mikla sögu um umsvifamikinn opinberan rekstur hér á landi. Þetta er áætlun til fimm ára á öllum sviðum ríkisrekstrar, stefnur, markmið og viðmið. Jafnframt eru sett fram fjárhagsleg markmið um afgang af opinberum rekstri og lækkun skulda. […]

[T]el ég alveg ótvírætt að sá nýi rammi sem við störfum núna eftir á grundvelli laga um opinber fjármál hafi markað mikil tímamót í umræðu um þessi mál í þinginu. Þá er ég fyrst og fremst að vísa til þess að þingið er orðið beinn þátttakandi í umræðunni á mótunarstigi stefnumörkunar til næstu ára. Við erum hér á vormánuðum að leggja upp með fjárlagagerðina fyrir næsta ár en líka að draga línuna fyrir árin þar á eftir. Þetta munum við gera árlega á komandi árum. Þegar horft er til baka í þingsögunni er alveg ótvírætt að það hefði svo miklu fyrr átt að stíga þau skref sem við höfum stigið með þessari breytingu.“

Forsætisráðherra taldi töluvert mikla hugarfarsbreytingu hafa orðið á alþingi við afgreiðslu fjárlaga en sagði þingmenn enn vera „að slíta barnsskónum á þessari leið“ . Þetta verkferli allt mundi „halda áfram að þroskast á næstu árum“.  Sagði hann í ræðu sinni vilja „fagna því þroskaskrefi í þingsögunni að við höfum nú fært okkur inn á alveg nýjar lendur í umræðu um opinber fjármál, að við séum hér að vori til að ræða fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár […] við erum að finna taktinn okkar“.

Umræðurnar utan alþingis hafa ekki snúist um þessa miklu og sögulegu breytingu á umræðunum um fjármál ríkisins heldur um einstök atriði í fjármálaáætluninni. Viðbrögðin hafa að nokkru einkennst af upphrópunum og yfirlýsingum um að allt stefni á versta veg verði ekki gerðar breytingar í þágu þeirra sem kvarta hverju sinni.

Látið er eins og um það sé að ræða að rígbinda ríkissjóð til fimm ára með áætlun sem hefur í raun sama gildi og samgönguáætlun – stefna er mótuð og sett í ramma en framkvæmdin ræðst af ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni innan rammans. Þingið ályktar árlega um rammann og innan hans eru fjárlögin síðan útfærð. Svigrúm þings og ríkisstjórnar til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um fjárlög eykst sem ætti að leiða til skynsamlegri niðurstöðu.

Upphrópanir um að þingmenn lýsi skoðun á áætluninni og þar með sé líf ríkisstjórnarinnar í hættu benda til vanþekkingar eða vantrausts á nýjum, opnum vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Gagnsæi kallar á meiri umræður en samtöl í bakherbergjum.