16.8.2019 10:14

Furðusjónarmið orkupakkaandstæðinga

Hvað þarf til að blása þessa vitleysu út af borðinu er vandséð þegar til þess er litið að andstæðingar þriðja orkupakkans hafa staðreyndir að engu.

Fræðimennirnir Margrét Einarsdóttir og Bjarni Már Magnússon, kennarar við lagadeild Háskólans í Reykjavík, birta grein í Fréttablaðinu í dag (16. ágúst) undir fyrirsögninni: Óþarfar áhyggjur af þriðja orkupakkanum. Henni lýkur á þessum orðum:

„Samkvæmt framansögðu er ljóst að í þriðja orkupakkanum er ekki að finna nein lagaákvæði sem leggja þá skyldu á herðar íslenska ríkinu að heimila einstaklingum eða lögaðilum að leggja sæstreng frá Íslandi til annars aðildarríkis EES. Af fullveldisrétti ríkja leiðir að þau ráða hvort lagður er sæstrengur inn fyrir landhelgi þeirra eða ekki. Ákvörðunin um hvort leggja megi eða leggja eigi sæstreng frá Íslandi til aðildarríkis EES mun því áfram verða á forræði Alþingis Íslendinga þó að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt. Áhyggjur af öðru eru óþarfar.“

Skýrar verður þetta varla orðað.

Þegar lesin er greinargerð með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um innleiðingu þriðja orkupakkans sem greidd verða atkvæði um á alþingi 2. september sést að henni fylgja fimm álitsgerðir vegna stjórnskipulegra álitaefna við innleiðingu og upptöku þriðja orkupakkans í íslenskan rétt, einkum varðandi valdheimildir ESA og ACER.

Þrjár álitsgerðir voru unnar að beiðni utanríkisráðuneytisins og eru eftir Davíð Þór Björgvinsson, Friðrik Árna Friðriksson Hirst, Skúla Magnússon og Stefán Má Stefánsson. Þá óskaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið álitsgerða frá Birgi Tjörva Péturssyni og Ólafi Jóhannesi Einarssyni.

Electricity-clipart-electrocution-9Umfjöllunarefni álitsgerðanna fimm er í megindráttum hið sama og þær eru samhljóða um flest atriði, hins vegar sker álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más úr að því leyti að þar er það talið vafa undirorpið hvort valdframsalið til ESA sem felst í 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 gangi lengra en rúmist innan ákvæða stjórnarskrárinnar. Þar eru því settar fram tvær tillögur að mögulegum lausnum í álitsgerðinni og var önnur þeirra lögð til grundvallar í fyrrnefndri þingsályktunartillögu.

Í framhaldi af því að stjórnskipulegi þátturinn hafði verið afgreiddur formlega af sex lögfræðingum á þann hátt sem að ofan er lýst, tóku nokkrir lögfræðingar og nú síðast Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari og fyrrverandi kennari við lagadeild Háskólans í Reykjavík, að efast um að þessi niðurstaða væri rétt. Í krafti EES-samningsins gætu stórfyrirtæki ráðist hingað inn með sæstreng og fengju þau hann ekki tengdan yrði ríkið að borga himinháar skaðabætur.

Verkfræðingar hafa með kostnaðardæmum sýnt hve fráleit þessi sviðsmynd er. Lögfræðilega stenst hún ekki heldur eins og ofangreind tilvitnun í Margréti og Bjarna Má sýnir.

Hvað þarf til að blása þessa vitleysu út af borðinu er vandséð þegar til þess er litið að andstæðingar þriðja orkupakkans hafa staðreyndir að engu en magna með sér ótta með eigin ímyndunum. Það hefur til dæmis aldrei fengist svar við því í hverju valdaframsalið með þriðja orkupakkanum felst.

Sérkennilegt er að sjá hvernig rangfærslunum um þriðja orkupakkann er sérstaklega beint gegn Sjálfstæðisflokknum, formanni hans, forystumönnum og flokksmönnum. Gengur þetta svo langt að nú er það talið til brota á lýðræðisreglum að ágreiningsmáli á fundi sé vísað til meðferðar stjórnar af meirihluta fundarmanna. Og vísindamaður segir í blaðagrein: „Ég væri hins vegar reiðubúinn til þess að leggja mikið á mig til þess að þróa lyf sem hjálpaði mönnum að ná áttum og ganga úr [Sjálfstæðis-]flokknum.“ Falla yfirlýsingar af þessu tagi undir siðareglur þeirra sem þróa lyf?