14.3.2020 14:06

Fullveldið styrkist af veirunni

Við aðstæður vegna kórónaveirunnar blasir við að ríki eru fullvalda, stjórnvöld þeirra hafa rétt til að gera ráðstafanir í þágu eigin borgara og grípa til þeirra.

Umræður um fullveldi ríkja taka á sig ýmsar myndir. Fyrir ári var til dæmis deilt hart um það hér á landi hvort í því fælist afsal á fullveldi kæmi til þess að íslenskt raforkukerfi tengdist evrópska kerfinu um sæstreng og sérfræðingar í rekstri flutningskerfa í ACER-fagstofnun ESB í Lublíjana í Slóvakíu hefðu eitthvað að segja um flutning á raforku til og frá Íslandi.

Ledersidetegning-loerdag-14-03-20-rgbNiels Bo Bojesen, teiknari Jyllands-Posten, birti þessa mynd 14.03,20. Þar lýsir hann viðhorfi Donalds Trumps til Evrópubúa vegna kórónaveirunnar. Bannað var flug frá Schengen-löndum til Bandaríkjanna (slæm veira) en heimilað frá Bretlandi (góð veira). Engin haldbær skýring hefur komið fram á þessari mismunun.

Deilan var dæmigerður skrifborðságreiningur fyrir okkur Íslendinga. Við erum ótengd evrópska raforkukerfinu og verðum áfram um ófyrirsjáanlega framtíð. Úrlausn þessa mál skipti Norðmenn hins vegar miklu vegna þess að sæstrengir frá vatnsaflsstöðvum þeirra skapa Dönum, sem treysta mjög á vindorku, orkuöryggi. Norðmenn reka einskonar vararafstöðvar fyrir Dani auk þess sem þeir fá ódýra vindorku frá Danmörku þegar vindar blása þannig þar að orkan er meiri en Danir nýta. Eitthvert hagkvæmasta orkusamstarf í Evrópu er einmitt þarna og njóta þjóðirnar góðs af hagstæðu orkuverði vegna þess.

Miðað við umræðurnar um þriðja orkupakkann og pólitíska og lögfræðilega hættu af að innleiða hann hefði mátt ætla að þjóðirnar sem gerðu það hefðu afsalað sér fullveldi sínu og hefðu ekki lengur stjórn eigin mála í sínum höndum.

Fullyrðingar um fullveldisafsal áttu ekki við nein rök að styðjast hér vegna þriðja orkupakkans og sama gildir um aðrar þjóðir. Sama gildir raunar einnig um margar aðrar stóryrtar yfirlýsingar um fullveldishættuna þegar rætt er um aðild þjóða að alþjóðasamstarfi. Í því efni verða menn að greina og skýra hvert tilvik fyrir sig og síðan leggja mat á söguleg fordæmi og ákvarðanir einstakra stjórnvalda.

Umræður um brexit og viðræður fulltrúa Breta og ESB um framtíðarsamskipti sýna til dæmis að réttmætt er að halda því fram að stjórn fiskveiða innan 200 mílna lögsögu umhverfis Ísland yrði flutt til Brussel yrðu Íslendingar aðilar að ESB. Eitt af því sem Brusselmenn leggja þyngsta áherslu á gagnvart Bretum er að halda í rétt ESB-fiskiskipa til veiða innan breskrar lögsögu. Í aðild að ESB fælist því afsal á fullveldi íslenskra stjórnvalda yfir fiskimiðunum.

Andmælendur Schengen-samstarfsins, sem ræður mestu um greiðan aðgang ferðamanna að Íslandi, telja aðildina að því takmarka fullveldið til að stjórna umferð um landamærin. Hér hefur þeirri skoðun hvað eftir annað verið mótmælt. Enn sannast nú vegna kórónaveirunnar að ríki hafa ekki afsalað sér fullveldi yfir landamærum sínum með Schenhgen-aðildinni. Hvert á fætur öðru taka þau ákvörðun um að loka landamærum sínum.

Við aðstæður vegna kórónaveirunnar blasir við að ríki eru fullvalda, stjórnvöld þeirra hafa rétt til að gera ráðstafanir í þágu eigin borgara og grípa til þeirra. Þá skýrist einnig að fullveldið þjónar hagsmunum borgaranna, í krafti þess taka stjórnmálamenn sér meira vald á neyðartímum en þolað yrði við venjulegar aðstæður. Síðan er undir borgurum hvers ríkis komið hve mikla skerðingu á eigin frelsi þeir þola í þágu heildarinnar og hve lengi þeir líða eigin ráðamönnum að setja á sig slíkar hömlur.