8.9.2017 11:18

Fullskipaður hæstiréttur fjallar um mannréttindasáttmálann

Það verður forvitnilegt að sjá hver niðurstaða fullsetins hæstaréttar verður í ofangreindu skattamáli, hvort mannréttindadómstóllinn valdi stefnubreytingu hjá dómurunum.

Mánudaginn 3. september voru 64 ár liðin frá gildistöku mannréttindasáttmála Evrópu. Hæstiréttur Íslands hlýddi 4. september árið 2017 á málflutning þar sem verjandi bar mannréttindasáttmálann fyrir sig. Um er að ræða skattalagabrot. Vildi verjandinn að máli skjólstæðings síns yrði vísað frá á grundvelli sáttmálans þar sem segði að enginn skyldi sæta lögsókn eða refsingu að nýju fyrir sama brot. Þar sem skjólstæðingurinn hefði sætt endanlegum úrskurði skattyfirvalda um álag á skattstofn væri búið að refsa honum.  

Fullskipaður hæstiréttur hlýddi á málflutninginn sem er óvenjulegt. Talið er að rétturinn búi sig undir að fella „stefnumarkandi dóm“ um hvernig túlka beri ákvæði mannréttindasáttmálans meðal annars í ljósi niðurstöðu mannréttindadómstólsins í Strassborg frá maí 2017 í skattamáli gegn Baugsmanninum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni o.fl.

Í 2. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu frá 1994 segir: „Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“ Í þessu felst að hæstiréttur er ekki bundinn af niðurstöðu mannréttindadómstólsins heldur fellir dóma sína með vísan til íslenskra laga.

Með athöfn hér á landi 26. september 2003 var þess minnst að 50 ár voru liðin frá gildistöku mannréttindasáttmála Evrópu. Forseti Mannréttindadómstóls Evrópu kom til landsins af þessu tilefni en aldrei fyrr hafði dómstóllinn sýnt Íslendingum, sem gengu í Evrópuráðið 1950, þá virðingu að senda hingað dómsforsetans.

Ég gegndi embætti dómsmálaráðherra á þessum tíma og flutti ræðu á athöfninni og sagði meðal annars:

„Um leið og þessi rök eru áréttuð [að mannréttindasáttmálinn sé ekki ígildi stjórnarskrár], er gjarnan einnig vakin athygli á því, að dómarar í mannréttindadómstólnum geti ekki túlkað mannréttindasáttmálann eftir því, sem þeir meta vindáttina hverju sinni, og borið fyrir sig, „lifandi“ eðli sáttmálans. Fulltrúar fullvalda ríkja hafi ritað undir sáttmálann á sínum tíma og skuldbundið þar með ríkin til að virða að þjóðarétti þann texta, sem í sáttmálanum er að finna.  Þess vegna sé full ástæða til að spyrja: Nær hin þjóðréttarlega skuldbinding til annars en þessa texta? Eða er textinn aðeins leir, sem dómarar geta hnoðað að eigin vild, og skapað ríkjum þannig nýjar þjóðréttarlegar skyldur?“

Mín skoðun er að mannréttindasáttmálinn gefi dómurum í Strassborg eða annars staðar ekki heimild til að setja aðildarríkjum Evrópuráðsins lög með því sem gjarnan er kallað „skapandi lögskýring“. Þeim ber að dæma í samræmi gildandi lög.

Ræða mín varð umdeild. Það átti ef til vill rætur í allt öðru en umræðum um þetta mál. Í ágúst 2003 skipaði ég Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara í óþökk ýmissa sem töldu fram hjá sér gengið og gagnrýndu nú ummæli mín um mannréttindadómstólinn. Gott ef þau voru ekki talin móðgun við dómsforsetann. Þá gerði Fréttablaðið þetta að sérstöku viðfangsefni en á þessum tíma lögðu Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi Fréttablaðsins, og lögfræðilegir ráðgjafar hans drög að þeirri málsvörn hans í Baugsmálinu að um pólitískar ofsóknir væri að ræða.

Það verður forvitnilegt að sjá hver niðurstaða fullsetins hæstaréttar verður í ofangreindu skattamáli, hvort mannréttindadómstóllinn valdi stefnubreytingu hjá dómurunum.

Í Danmörku hefur mannréttindadómstólinn gengið svo fram af almenningi með niðurstöðum sínum að komið er á dagskrá danskra stjórnmála að segja Dani frá mannréttindasáttmálanum verði honum ekki breytt meðal annars vegna óánægju með skapandi lögskýringu dómaranna, sjá hér .