Fréttamenn án fagmennsku
Óvönduð vinnubrögðin og bullið vegna fáviskunnar um hvernig staðið er að svona málum á alþingi gátu af sér falsfrétt.
Hversdagsleg þingstörf hófust í dag (16. september). Í þingsal flutti Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, ræðu og sagði:
„Sem 1. flutningsmaður þessa máls [ skýrsubeiðni um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið] vil ég nota tækifærið til að árétta að þessi skýrslubeiðni er endurflutt öðru sinni með það að markmiði að halda málinu í réttum þinglegum farvegi. Skýrslubeiðnin var samþykkt 10. apríl í fyrra og aftur 9. október. Utanríkisráðherra skipaði starfshóp 30. ágúst sama ár til að vinna skýrsluna. Skýrslubeiðnin er gerð að norskri fyrirmynd en þar í landi var gerð ítarleg og vönduð skýrsla í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá gildistöku EES-samningsins. Það er vel við hæfi að gera ítarlega og vandaða úttekt á aðild Íslands að samningnum þegar 25 ár eru liðin frá gildistöku hans. Ég geri mér vonir um að skýrslan verði góður grundvöllur að umræðum og stefnumörkun á því mikilvæga sviði sem aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu er.“
Þetta mál stendur mér
nærri því að í rúmt ár hef ég unnið að þessari skýrslu ásamt lögfræðingunum
Kristúnu Heimisdóttur og Bergþóru Halldórsdóttur. Við fengum ár til að semja skýrsluna
en tókum okkur aðeins lengri tíma þar sem það dróst til 2. september 2019 að
afgreiða þriðja orkupakkann. Nú er okkur ekkert að vanbúnaði að reka
smiðshöggið og afhenda ráðuneytinu meistaraverkið til frekari úrvinnslu.
Fánar aðila að EES-samstarfinu.
Á leið minni á milli staða í morgun heyrði ég tvo fréttamenn spjalla saman á rás 1. Þeir höfðu dagskrá þingsins fyrir framan sig og sáu þessa skýrslubeiðni á dagskrá. Hér segir ekki orðrétt frá orðaskiptum þeirra en kjarninn var sá að Ólafur Ísleifsson bæði um skýrslu um kosti og galla EES-samstarfsins af því að Björn Bjarnason veitti formennsku starfshópi sem semdi almenna skýrslu um EES-aðildina. Venjulegur hlustandi telur vafalaust að tvær EES-skýrslur verði í smíðum eins og fréttamennirnir boðuðu. Óvönduð vinnubrögðin og bullið vegna fáviskunnar um hvernig staðið er að svona málum á alþingi gátu af sér falsfrétt. Frá Stöð 2 var þó hringt og spurt hvernig málum væri háttað. Á rás 1 fullyrða menn hvað gerist á alþingi án þess að hafa fyrir að spyrja.