18.5.2023 10:23

Framkvæmd bókunar 35

Þeir sem vilja leggja bókun 35 við EES-samninginn „til hliðar“ eins og það er orðað í umsögn Heimssýnar vilja í raun rifta þessu farsæla samstarfi.

Utanríkismálanefnd alþingis fjallar nú um frumvarp utanríkisráðherra um breytingu á EES-lögunum svo að tryggja megi snurðulausa framkvæmd EES-samningsins hér á landi.

Umsagnir til nefndarinnar um frumvarpið má lesa á vef alþingis. Leitað var til mín um umsögn og birtist hún hér:

„Í skýrslu starfshóps sem út kom í september 2019 um EES-samstarfið segjum við sem sátum í hópnum að markmið samstarfsins um einsleitni við framkvæmd fjórfrelsisins náist ekki nema túlkun og beiting reglnanna um frelsið þjóni sama markmiði. Tveggja stoða kerfið eigi að tryggja EES/EFTA-ríkjunum aðild að eftirlitskerfi til að framfylgja þessu. Þá sé almennt talið að íslenskir dómarar skuli hafa þetta meginsjónarmið í heiðri. 

Frumvarpið sem hér er til umsagnar má rekja til misbrests á þessu hér á landi. Íslenskir dómarar telja 3. gr. laga um EES-samninginn setja sér skorður við að framfylgja bókun 35 við samninginn sem mælir fyrir um einsleitni við framkvæmd fjórfrelsisins. 

Þegar EES-lögin voru sett fyrir 30 árum sáum við sem þá fjölluðum um málið í utanríkismálanefnd alþingis ekki fyrir að dómarar mundu túlka 3. gr. EES-laganna á þennan veg. Afstaða okkar birtist í greinargerð með frumvarpinu en í áranna rás hafa dómarar talið texta lagagreinarinnar stangast á við orðalagið í greinargerðinni. Hafa þeir eðlilega sett lagatextann skör ofar en það sem í greinargerðinni segir. Frumvarpinu sem hér er til umsagnar er ætlað að leiðrétta þetta. 

Mér sýnist frumvarpstextinn ná þessu markmiði. Er það þó sagt með fyrirvara um að dómarar eigi síðasta orðið um túlkunina. 

Það er mikilvægt að leiðrétta þessa skerðingu á rétti þeirra sem leita til íslenskra dómstóla í fullvissu þess að þeir eigi að standa jafnfætis öðrum við framkvæmd EES-samningsins. 

Með aðild að evrópska efnahagssvæðinu urðu til ný réttindi sem hafa gjörbreytt samfélaginu til hins betra fyrir íslenska ríkisborgara. Það er skylda löggjafarvaldsins að sjá til þess að unnt sé að njóta þessara réttinda til fulls hér á landi. Með samþykkt þessa frumvarps er stuðlað að því og er hvatt til þess að það verði afgreitt áður en þingstörfum lýkur á þessu vori.“

IMG_6624-1-Þríhyrningur í Fljótshlíð.

Í meirihluta 19 umsagna sem birtar eru á vefsíðu þingsins er mælt með samþykkt frumvarpsins. Lilja Ólafsdóttir lögfræðingur var samningamaður um laga- og stofnanamál fyrir Ísland við gerð EES-samningsins. Hún mælir með samþykkt frumvarps utanríkisráðherra og segir meðal annars í umsögn sinni:

„Hvað sem hverjum finnst um EES-samstarfið og Evrópusamstarfið almennt er það grundvallarregla íslenskum rétti að íslensk lög séu túlkuð í samræmi við þær þjóðaréttarskuldbindingar sem íslenska ríkið undirgengst, nema þegar vilji löggjafans er skýr um annað. Ísland er fullgildur aðili að EES samningnum samkvæmt ákvörðun Alþingis og á þessi regla því við um skuldbindingar samkvæmt honum. Það verður líka að vanda til lagasetningar þegar skuldbindingar þjóðaréttar eru innleiddar í íslenskan rétt. Það er mikið hagsmunamál fyrir lítið land að traust ríki um þjóðaréttarskuldbindingar.“


Þeir sem vilja leggja bókun 35 við EES-samninginn „til hliðar“ eins og það er orðað í umsögn Heimssýnar vilja í raun rifta þessu farsæla samstarfi. Að Heimssýn taki upp þá stefnu grefur undan samtökunum en ekki EES-samningnum.