26.9.2023 10:08

Framhaldsskólaklúður

Ráðherrakynningin í Hofi 5. september var um annað en talað er um núna eftir að sameining MA og VMA er runnin út í sandinn.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, endurtók í ræðumn á alþingi í gær (25. september) að hann hefði ekki lagt til að sameina Menntaskólann á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) sameiningarinnar vegna heldur til að skapa fjárhagslegt svigrúm innan framhaldsskólakerfisins til auka mætti starfsnám og taka við stórauknum fjölda „nemenda af erlendum uppruna, með erlendan menningar- og tungumálabakgrunn“ sem þyrftu aukna stoðþjónustu.

Þorsteinn Gunnarsson, fyrrv. rektor Háskólans á Akureyri, tók þátt í að leiða stýrihóp mennta- og barnamálaráðherra um eflingu framhaldsskólans. Hann birti grein í Morgunblaðinu 8. september þar sem hann lýsti hugmyndafræðinni að baki sameiningu MA og VMA. Hann sagði stýrihópinn hafa rætt við skólana og þeir hefðu ákveðið að „leggja saman krafta sína og skoða sameiningu í einn öflugan framhaldsskóla“. Ef úr sameiningu yrði gæti orðið til 1.800 nemenda skóli með mjög fjölbreyttu og öflugu námsbrauta- og námsvali fyrir nemendur á öllum aldri. „Þannig fengju mun fleiri nemendur en áður tækifæri til að takast á við margs konar samsett nám, t.d. bóknám, iðn- og starfsnám og listnám á jafnréttisgrundvelli. Möguleikar gæfust á því að byggja upp öflugra stoðkerfi sem styðji við störf kennara og nám nemenda í hinum sameinaða skóla,“ sagði Þorsteinn.

MA-VMA-HofiRáðherrakynningin í Hofi 5. september var um annað en talað er um núna eftir að sameining MA og VMA er runnin út í sandinn.

Þegar sameiningin var rædd nánar tók að glitta í það sjónarmið sem síðan hefur orðið ofan á í málflutningi ráðherrans, að framhaldsskólakerfið sé undirfjármagnað og þess vegna verði að grípa til hagræðingar. Af viðbrögðum meðal ráðamanna, kennara og nemenda MA og VMA má ráða að þeir telja sig hafa verið blekkta með áformunum sem voru upphaflega kynnt.

Í ræðunni á alþingi í gær sagði ráðherrann nú lægi fyrir mat á að fjárfesta þyrfti fyrir 3-4 milljarða í framhaldsskólakerfinu til að mæta ólíkum þáttum þess og væri „það hluti af menntastefnu til 2030 að vinna þessum aðgerðum brautargengi“. Jafnframt taldi ráherrann að farið yrði „í ákveðna naflaskoðun í kerfinu“. Hvað gera þyrfti til næstu ára.

Af lestri greinar Þorsteins Gunnarssonar má ráða að „naflaskoðunin“ hafi einmitt verið verkefni stýrihópsins.

Engu er líkara en að alla samhæfingu hafi skort í mennta- og barnamálaráðuneytinu áður en skyndilega var efnt til sameiningarfundarins í Hofi 5. september. Þar var lögð áhersla á tillögur stýrihópsins en þegar á hólminn var komið snerist málið um fjárskort. Þá hafa ábendingar komið fram um að við undirbúninginn hafi ekki verið farið að lögum um sjálfstæði framhaldsskóla. Augljóst er að allt samráð við skjólastjórnendur reyndist á sandi reist.

Á þingi sagði píratinn Andrés Ingi Jónsson að Ásgrímur Einar Daðason hefði „sennilega aldrei“ ætlað að sameina MA og VMA heldur hefði hann þyrlað upp moldviðri vegna óánægju með hlut sinn í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Hafi það verið undirrótin er uppákoman ráðherranum örugglega dýrkeyptari en hann ætlaði.