25.6.2024 10:31

Frá Running Tide til Carbfix

Þarna verða markaðsöflin að ráða ferð innan viðurkenndra vísindalegra marka. Óvissan er hins vegar mikil og auðvelt að skapa tortryggni og jafnvel ótta.

Nokkrar umræður hafa orðið um starfsemi bandaríska fyrirtækisins Running Tide á Akranesi. Fyrirtækið er bandarískt frá Maine-ríki og er eitt fjölmargra sem gert hefur tilraunir til að binda kolefni á hafi úti.

Running-tide-kelp

Hjá Running Tide hefur tilraunin falist í ræktun þörunga. Fréttir hér beinast þó einkum að innflutningi þess á trjákurli. Fyrirtækið hefur nú lagt upp laupana. Í stórum dráttum er lokað vegna þess að ekki liggur fyrir nein staðfest vottun á því að tilraunin leiði til þess að til verði markaðshæfar kolefniseiningar sem fyrirtæki geti keypt til að eignast grænt andlit.

Hér á landi starfar sprotafyrirtækið ICR (International Carbon Registry) sem hefur þróað vottunarkerfi, kröfusett og kolefnisskrá fyrir vottaðar kolefniseiningar. Kerfi fyrirtækisins er reist á alþjóðlegum kröfum og eru verkefni og kolefniseiningar skráðar í miðlæga skrá sem bæði framleiðendur og seljendur vottaðra kolefniseininga geta notað.

Í umræðum á Facebook um ICR í tengslum við lokun Running Tide birtist hve skammt við erum á veg komin í almennum umræðum um leiðir til að binda kolefni í jörðinni. Meðal þeirra sem taka til máls er Andrés Arnalds, fyrrverandi fagmálastjóri Landgræðslu ríkisins. Hann segir að það vanti heildrænt bókhald sem taki til allra þátta. Nefnir hann í því sambandi áhrif barrskóga á náttúru Íslands, tap á kolefni vegna jarðvinnslu, tap úr sverði og jarðvegi vegna umbreytinga á vistkerfum, bindingu sem hefði orðið hvort eð væri á viðkomandi svæðum með verndun án skógræktar auk margs annars. Þá segir Andrés: „Þetta er galin staða. Án slíkra þátta er unnið með gölluð gögn sem batna ekki, sama hvaða reiknikúnstir eru viðhafðar.“

Tekið skal undir þetta sjónarmið. Fyrirtæki eins og ICR leggur sitt af mörkum til að gerðar séu vottaðar kröfur á þessum nýja markaði, að ekki sé ráðist í umbreytingar á vistkerfum til kolefnisbindingar og jöfnunar án þess að vitað sé að raunveruleg verðmæti skapist og skref séu stigin til að minnka koltvísýring.

Þarna verða markaðsöflin að ráða ferð innan viðurkenndra vísindalegra marka. Óvissan er hins vegar mikil og auðvelt að skapa tortryggni og jafnvel ótta.

Umræður í þá veru einkenna það sem sagt er um mikla mannvirkjagerð við Straumsvík. Þar er ætlunin að skapa sex hundruð ný störf í kolefnisförgunarmiðstöð Carbfix, dótturfyrirtækis Orku náttúrunnar. Miðstöðin á að taka við og farga allt að þremur milljónum tonna af koltvísýringi á ári frá Norður-Evrópu. Tækni Carbfix til kolefnisbindingar felur í sér að koltvísýringur er leystur upp í vatni og honum svo dælt djúpt niður í berglög þar sem hann steinrennur á innan við tveimur árum.

Hafnarfjarðarbær hefur nýlega tilkynnt að hann ætli ekki að koma á fjármögnun hafnarmannvirkja í Straumsvík til að taka á móti öllum þessum koltvísýringi. Glatað verkefni Running Tide er smáræði við áform Carbfix. Nú er kvartað undan að ekki hafi verið rætt nóg um Running Tide vegna eftirágagnrýni í fjölmiðlum. Hefur Carbfix verið rætt til hlítar? Skilar verkefnið vottuðum, verðmætum kolefniseiningum? Eða er um „galna stöðu“ að ræða?