10.2.2024 10:27

Forsetaframbjóðandi misréttis

Í málinu núna er tekist á um hvort réttmætt sé að íslensk lög um fæðingarorlof takmarki rétt sem Anna Bryndís Einarsdóttir nýtur samkvæmt EES-reglum.

Í frétt Morgunblaðsins fimmtudaginn 8. febrúar sagði að daginn áður hefði verið þéttsetið í hæstarétti þegar mál Önnu Bryndísar Einarsdóttur gegn íslenska ríkinu var flutt fyrir dóminum. Málið snýst um ágreining á túlkun 3. gr. laga um evrópska efnahagssvæðið og þar með útfærslu á þjóðréttarskuldbindingunni sem felst í bókun 35 við EES-samninginn sem gilt hefur hér í 30 ár.

Utanríkisráðherra lagði skýrslu um framkvæmdina á bókun 35 fyrir alþingi miðvikudaginn 30. janúar 2024. Í skýrslunni segir að um nokkurt skeið hafi verið áhöld um hvort bókun 35 hafi verið innleidd í íslenskan rétt með fullnægjandi hætti. Þetta hafi til dæmis komið fram í niðurstöðum fræðimanna á sviði EES-réttar og í samningsbrotamáli Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gegn íslenska ríkinu.

ESA telur að þeir sem lúti íslenskri lögsögu njóti ekki þess réttar sem bókun 35 og EES-samningurinn veitir þeim. Til að bregðast við þessu flutti þáv. utanríkisráðherra frumvarp til breytinga á EES-lögunum sem felur í sér nýja lögskýringarreglu. Þáv. formaður utanríkismálanefndar alþingis, VG-þingmaðurinn Bjarni Jónsson, kom í veg fyrir afgreiðslu nefndarinnar á frumvarpinu. Nær allir umsagnaraðilar mæltu með samþykkt frumvarpsins og er það á þingmálaskrá núverandi utanríkisráðherra.

Í fyrrnefndri skýrslu utanríkisráðherra frá 30. janúar segir að ekki hafi reynt á innleiðingu bókunar 35 hér á landi fyrir dómstólum fyrr en upp úr aldamótum. Fljótlega hafi orðið ljóst að dómstólar teldu sér ekki heimilt að beita reglunni sem löggjafinn hafði mótað með þeim hætti sem hann hafði ætlast til að teknu tilliti til lögskýringargagna.

Screenshot-2024-02-10-at-09.29.46

Í málinu núna er tekist á um hvort réttmætt sé að íslensk lög um fæðingarorlof takmarki rétt sem Anna Bryndís Einarsdóttir nýtur samkvæmt EES-reglum. Héraðsdómari leitaði álits EFTA-dómstólsins sem taldi brotið á rétti Önnu Bryndísar. Héraðsdómarinn taldi sig hins vegar bundinn af fordæmi hæstaréttar um túlkunina á 3. gr. laganna um EES-samninginn og hafnaði kröfunni um fullan fæðingarorlofsrétt samkv. EES-reglum.

Hæstiréttur samþykkti að taka málið fyrir án þess að það færi fyrir landsrétt. Rétturinn er fullskipaður í málinu. Dómararnir sjö ætla að dæma í því, almennt sitja fimm í dómi.

Með hliðsjón af því að fram er komið lagafrumvarp og sérstök skýrsla utanríkisráðherra sem rökstyður nauðsyn þess að breyta túlkun á 3. gr. EES-laganna borgurunum í vil kann að þykja undarlegt að íslenska ríkið grípi til varna í þessu máli. Það er þó nauðsynlegt til að fá niðurstöðu í því fyrir hæstarétti sem kynni að hverfa til upphaflegrar túlkunar réttarins á 3. gr. EES-laganna og þar með greiða úr flækjunni sem leiddi til afskipta ESA.

Undarlegasta hlið þessa máls er þó að Arnar Þór Jónsson forsetaframbjóðandi segir í grein í Morgunblaðinu í dag (10. febrúar) að framboð sitt til forseta snúist um að koma í veg fyrir að ný lögskýringarregla um framkvæmd bókunar 35 verði lögfest. Honum er með öðrum orðum sérstakt kappsmál að viðhalda misréttinu sem birtist í málinu sem nú er fyrir hæstarétti.