29.5.2017 10:15

Fjármálaáætlun splundrar stjórnarandstöðunni

Haraldur Benediktsson lýsir sundraðri stjórnarandstöðu í umræðum um fjármálaáætlun 2018 til 2022.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fiormaður fjárlaganefndar alþingis. Hann leiddi starf nefndarinnar við meðferðina á fjármálaáætlunarinnar 2018 til 2022 sem rædd er á lokadögum þingsins. Hann lýsir afstöðu stjórnarandstöðunnar á FB-síðu sinni og segir:

„En hvað leggur svo stjórnarandstaðan til?

VG hefur gengur lengst. Þeirra tilboð er hækka skatta á hvern íbúa Íslands um 1 milljón. Til viðbótar þeim sköttum sem þegar eru teknir. Hvernig á að verja þessum tekjum? Jú það á að stofna nýtt málefnasvið í ríkisrekstrinum – en þau eru 34 nú þegar og skiptast í menntamál, heilbrigðismál og framvegis.

Nýja málefnasviðið, málefnasvið 35 verður þá sérstakt ráðstöfunarfé VG. Hvorki meira né minna. Samt er hamast við að ræða ógagnsæi og litlar útskýringar um hvernig á verja fjármunum í þingmálinu sem til umræðu. En auðvitað eiga þær reglur ekki við VG.

Það á sem sagt að innheimta af skattgreiðendum um 330 þúsund milljónir og eyða um 300 þúsund milljónum í eitthvað sem VG á eftir að ákveða. Í eitthvað sem við fáum ekki að vita hvað er. En þau eyða ekki öllu nýju sköttunum - því þau vilja auka aðhald.

Um hvert á sækja þessa fjármuni er litið um svör, nema þetta með breiðu bökin og arðræningjana sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Sem sagt að nú á að taka af heimilum landsins nánast allt það viðbótarfé sem launahækkanir hafa skilað og taka síðan til við að hækka veiðigjöldin. Hækka eignarskatta og framvegis.

Það blasir við að ekki hefur náðst nein samstaða um áherslur í tekjuöflun og ráðstöfun innan þingflokks VG sem er klofin i herðar niður. Á milli þeirra fylkinga þar, sem vilja sýna ábyrgð og taka þátt í landsstjórninni og hinna sem getur ekki hugsað sér að taka ábyrgð og þurfa að standa frammi fyrir eigin félögum þegar ekki er hægt að uppfylla allar óskir.

Samfylkingin er aðeins hóflegri. Þar stendur allur þingflokkurinn saman, sem einn maður, þá að því að svipta fjölskyldur landsins þeim viðbótar kaupmætti sem áunnist hefur undanfarið. Nálgun Samfylkingarinnar er langtum skýrari en hjá VG – Í tillögum Samfylkingarinnar kemur fram hreinræktaður sósíalismi í sinni tærustu mynd. Leggjum á ofurskatta og við ein vitum best hvernig á að ráðstafa fjármunum sem fólkið vinnur fyrir.

Píratar bregðast ekki og vilja vísa málinu frá þinginu. Það er vel í takt við alla þeirra pólitík, þar næst engin samstaða um nokkurn skapaðan hlut. Nema tala í drep um ónýtt kerfi og allt sem er vonlaust, siðlaust og spillt. Taka síðan nokkrar ræður um að allir séu vanhæfir og geti því ekki tjáð sig eða gert nokkurn skapaðan hlut. Nema þau ein. Sem er afar sérstök nálgun þar sem allir alþingismenn sækja umboð sitt í lýðræðislegum kosningum.

Þeim hefur kannski ekki unnist tími til ræða um neinar tillögur á krísufundum sínum Enda nóg að gera við að reka þingflokksformenn og rusla til í eigin röðum. Þeirra lausn er því ekki óvænt – vísa málinu og leggja ekkert til í staðinn.

Framsóknarflokkurinn er ekki með flugeldasýningar, er hófstilltur í allri sinni nálgun. Veit ekki alveg hvort hann er að koma eða fara. Framsóknarflokkurinn hamast við að verða gjaldgengur í samfélagi stjórnarandstöðunar.

Við munum öll hvernig vinstri flokkarnir kepptust við útiloka Framsóknarflokkinn frá öllu samstarfi við landstjórnina í vetur. Þannig virðist það vera ennþá og framsóknarmenn reyna núna að ganga í augun á stjórnarandstöðunni með þvi að hamast í fundarstjórn og passa að fylla öll andsvör við ræðumenn. Andsvaraliðið þarf ekki einu sinni að heyra hvað ræðumenn hafa að segja þegar þau óska eftir að veita andsvör.“

Þetta er skýr greining hjá Haraldi:

VG er klofin í herðar niður.

Þriggja manna þingflokkur Samfylkingar stendur saman.

Píratar þora ekki að taka afstöðu eða geta það ekki vegna sundrungar.

Framsóknarflokkurinn er klofinn og á báðum áttum þótt hann reyni að ganga í augun á þeim sem höfnuðu honum í stjórnarmyndunarviðræðunum.