21.5.2017 18:26

Fjármálaáætlun kallar á breytingar á starfi alþingis

Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvað þetta fræðsluferli allt vegna fjármálaáætlunarinnar leiðir af sér. Vonandi verður það til þess að meiri sátt ríki um meginmarkmið og áherslur.

Meirihluti fjárlaganefndar alþingis hefur birt ítarlegt álit sitt á fjármálaáætlun ríkisins fyrir árin 2018 til 2022. Þegar rennt er yfir álitið sem er að verulegu leyti reist á umsögnum fagnefnda þingsins er augljóst að vinnubrögðin við gerð áætlunarinnar fela í raun í sér byltingu í fjárlagagerðinni og stjórn ríkisfjármála.

Forstöðumenn ríkisstofnana og aðrir hafa fengið tækifæri til að koma fyrir nefndir þingsins og ræða við þær með vísan til þess sem í áætluninni segir. Er ekki að efa að þetta hafa verið sannkallaðir fræðslufundir fyrir þingmenn þar sem þeim hefur gefist færi á að kynnast því sem efst er á baugi hjá hverjum og einum, líklega hefur höfuðáherslan verið á það sem ekki er unnt að sinna sem skyldi vegna skorts á fjármunum.

Þá sýnir álitið einnig að ráðherrar hafa komið fyrir þingnefndir og rætt við þær um málaflokka sína, áherslur og markmið. Allt eru þetta nýmæli fyrir mig þótt ekki sé liðin áratugur frá því að ég hvarf af þingi.

Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvað þetta fræðsluferli allt leiðir af sér. Vonandi verður það til þess að meiri sátt ríki um meginmarkmið og áherslur. Því má ekki gleyma að hér er um áætlun að ræða, ramma sem fyllt er út í með fjárlögum hvers árs. Hugsanlega verður litið á áætlunina sem óskalista eins og reyndin er með samgönguáætlun. Framkvæmd hennar ræðst af fjárveitingu ár hvert.

Þessi nýskipan við mótun fjármálastefnunnar kallar á ný vinnubrögð eins og segir í áliti meirihluta fjárlaganefndar:

„Fjárlaganefnd telur m.a. að við gerð næstu starfsáætlunar Alþingis verði að endurskoða tímasetningar með tilliti til hinna nýju laga [um opinber fjármál] til að meiri tími gefist til umfjöllunar um fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp.
    Þá er fjárlaganefnd, og sömuleiðis allflestar fagnefndir þingsins í sínum umsögnum, sammála um að hlutverk Alþingis og geta til að takast á við breytta umgjörð hafi ekki verið útfærð að fullu. Þekkt er að í flestum ráðuneytum hefur starfsfólki verið sérstaklega fjölgað vegna hinna nýju laga og starf ráðuneyta endurskipulagt í einhverjum tilfellum. Að sama skapi er nauðsynlegt að Alþingi endurskipuleggi verulega þær stoðir sem geta tekist á við þetta nýja verklag. Þingmenn hafa lýst áhyggjum af því að nýju lögin verði til þess að áhrif þingsins á fjárlagagerð verði fjarlægari en áður þar sem þingmenn hafi ekki þau tæki sem nauðsynleg eru til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og leggja eigið mat á framsetningu upplýsinga og úrvinnslu þingmála sem tengjast fjárlagagerð. Þá verður form og festa í þeim samþykktum sem Alþingi gerir að vera hafið yfir vafa svo að ekki sé um að villast að Alþingi eitt hefur hið formlega fjárstjórnarvald. Allt er þetta athugunarefni sem eðlilegt er að komi upp þegar svo umfangsmikil breyting verður á starfsháttum.
    Sjálfstæði Alþingis og þingmanna við fjármálastjórnina verður að treysta. Alþingismenn og fagnefndir þingsins verða að hafa aðgang að öflugu stoðkerfi. Í umsögn meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er t.d. fjallað um nauðsyn þess að efla hagrænar greiningar. Meiri hluti fjárlaganefndar tekur undir það og telur að verulega skorti á að fjárlaganefnd geti að óbreyttu rækt hlutverk sitt fyllilega í breyttu umhverfi opinberra fjármála. Þar er ekki síst brýnt að huga að verkefnum á sviði eftirlitshlutverks nefndarinnar og sjálfstæði hennar til að vinna að greiningum og eftirliti með hvernig og hvort samþykkt markmið og aðgerðir ná tilgangi sínum á einstökum málefnasviðum.
    Meiri hlutinn leggur til að við endurskoðun þingskapalaga verði hugað að breyttum tímasetningum starfsáætlunar og verklagi. Leitast þarf við að flýta framlagningu og afgreiðslu þingmála og er í því sambandi bent á þann möguleika að samþykkja fjárlagafrumvarp 20. nóvember. Þannig mundi skapast rými til að koma fjármálaáætlun mun fyrr til Alþingis og þar með gæfist betri tími til afgreiðslu hennar að vori.“

Þess ber að vænta að tekið verði mið af þessum sjónarmiðum við skipulag vinnubragða í ljósi reynslunnar nú. Því miður einkennast þingstörfin of mikið af upphlaupum, oftast út af engu, þar sem til dæmis er stofnað til ágreinings við forseta þingsins um hvers vegna þingmenn einhverra flokka hafi ekki tekið til máls um einhver mál.