27.9.2018 9:38

ESA gefur Landsvirkjun grænt ljós

Mótmæli gegn 3. orkupakkanum hafa meðal annars verið reist á því að með honum yrði litið á raforku sem markaðsvöru!

Umræður um 3. orkupakkann svonefnda sem bíður innleiðingar hér á landi innan ramma EES-samningsins hafa farið út um holt og hæðir. Því hefur til dæmis verið haldið fram að vegna hans yrði Landsvirkjun sett undir evrópskt eftirlit af einhverju tagi og þar með yrði vegið að fullveldi þjóðarinnar.

11.06.2015-burfellsvirkjunBúrfellsvirkjun (vefsíða Landsvirkjunar).

Í gær (26. september) var enn einu sinni minnt á að slíkt eftirlit er þegar stundað. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, sendi frá sér tilkynningu um að hún hefði lokið rannsókn á ríkisábyrgðum á afleiðusamningum Landsvirkjunar, samningarnir fælu ekki í sér ríkisaðstoð. Í tilkynningunni segir:

„Landsvirkjun er stærsti raforkuframleiðandi á Íslandi og einn stærsti framleiðandi endurnýjanlegrar raforku í Evrópu. Í samningum um stóriðju er fyrirtækið í samkeppni við aðra framleiðendur í Evrópu. Til að verjast gengis- og vaxtaáhættu í skuldasafni sínu gerði Landsvirkjun ýmiss konar afleiðusamninga sem íslenska ríkið gekk í ábyrgð fyrir.“

ESA hóf rannsókn á ríkisábyrgðunum í maí árið 2017 til að kanna hvort þær væru í samræmi við EES-reglur um ríkisstyrki. Ábyrgðirnar á afleiðusamningum Landsvirkjunar leiða ekki til efnahagslegs ávinnings fyrir fyrirtækið og er málinu því lokið að hálfu ESA.

Eins og af þessu sést er litið á raforku á Íslandi sem markaðsvöru sem bannað er að niðurgreiða með ríkisstyrkjum. Mótmæli gegn 3. orkupakkanum hafa meðal annars verið reist á því að með honum yrði litið á raforku sem markaðsvöru!

Snúist baráttan gegn 3. orkupakkanum um að Landsvirkjun skuli heimilað að stunda undirboð í samningum um stóriðju og keppa þannig við raforkuframleiðendur í Evrópu eiga andstæðingar aðildar að honum að segja það. Þeir vilja þá snúa aftur til þess tíma þegar ekki bar að hlíta hlutlægum, gegnsæjum reglum við ákvörðun orkuverðs og þriðji aðili hafði ekki heimild til að kanna að þannig væri staðið að málum.