Enn fundið að stjórnsýslu Dags B.
Sá sem ber lokaábyrgð á þessu lögbroti er yfirmaður stjórnsýslu borgarinnar, kjörinn af borgarbúum, borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson.
Stjórnarhættir Reykjavíkurborgar undir forystu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra hafa hvað eftir annað sætt gagnrýni eftirlitsaðila.
Í þann stóra sarp bætist nú eitt mál. Í lítilli frétt Morgunblaðsins í dag (21. janúar) segir að Reykjavíkurborg hafi verið óheimilt „að gera að skilyrði við úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis í borginni og með vísan til húsaleigulaga að leigjendur tækju reglulega á móti starfsmanni borgarinnar á heimili sínu gegn þeirra vilja“.
Þetta kemur fram í áliti umboðsmanni alþingis (UA) sem birtist fimmtudaginn 20. janúar. Leigjendur kvörtuðu til UA eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála hafði staðfest að borgarfyrirtækið Félagsbústaðir hf. mætti setja það skilyrði í leigusamning húsnæðisins að leigjendurnir skyldu taka á móti starfsmanni sveitarfélagsins á heimili sínu tvisvar sinnum í mánuði með svonefndri eftirfylgd við leigutakann.
UA fellst ekki á að þetta skilyrði í leigusamningnum „hafi talist löglegt og málefnalegt“ enda verði auk ákvæða í húsaleigulögum að líta til grunnreglna um friðhelgi einkalífs og heimilis. „Þar sem viðhlítandi lagaheimild skorti til þess að setja téð skilyrði í leigusamninginn var samningurinn að þessu leyti ólögmætur,“ segir UA og því hafi „úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála frá 19. mars 2020 hafi ekki verið í samræmi við lög“.
Þetta verður ekki sagt með skýrari hætti af hálfu UA. Sá sem ber lokaábyrgð á þessu lögbroti er yfirmaður stjórnsýslu borgarinnar, kjörinn af borgarbúum, borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, sem setið hefur á stóli borgarstjóra í átta ár og býður sig nú fram að nýju eftir 20 ára setu í borgarstjórn.
Dagur B. er fulltrúi Samfylkingarinnar en þar á bæ er jafnan krafist afsagnar ráðherra þótt álit um hvernig staðið er að framkvæmd laga hafi verið loðnara en þetta eða málsástæður snúist um léttvægari þætti en brot gegn friðhelgi einkalífs og heimilis. Öll sólarmerki benda til þess að hvað sem líður ítrekuðum stjórnsýslulögbrotum á ábyrgð Dags B. fljúgi hann í fyrsta sætið á lista Samfylkingarinnar nú.
Bensínstöðin á Ægisíðu (mynd:mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson).
Annað mál, stjórnsýslulega grátt, ber hátt hjá borgarstjóra núna. Það er ráðstöfun bensínstöðvarlóðar við Ægisíðu. Af frétt Morgunblaðsins í dag má ráða að borgarstjóri hafi afhent Festi, eiganda N1, lóðina á silfurfati. Í þágu Festar hefur borgin svo breytt aðalskipulagi og liðkað fyrir enn meira byggingarmagni á lóðinni og hærri byggingum en nágrönnum líkar.
Dagur B. telur 1-2 milljarða króna verðmæti á byggingarréttinum úr lausu lofti gripið. Blaðið leitar til aðila í fasteignaþróun og byggingariðnaði, sem segja að 1-2 milljarðar króna séu ekki fráleitt mat fyrir 13-15.000 m² á þessum stað.
Pólitískur vilji borgarstjóra ræður miklu um efni „uppbyggingarsamninga“ við byggingarverktaka. Ræðst efni þeirra af hvar byggt er í borgarlandinu eða í hvaða tilgangi. Þarna er ekki um gagnsæjar eða skýrar reglur að ræða heldur ráða duttlungar borgarstjórans. Samningarnir hafa verið dæmdir löglegir en leiðin að þeim er sérkennileg eins og sannast nú við Ægisíðu.