17.1.2018 11:33

Einstaklingur í ljósi sögunnar

Til þessara atburða verður vitnað eins og til bréfsins sem Magnús Stephensen ritaði Sir Joseph Banks fyrir rúmum 200 árum.

Efnt var til málþings í Háskóla Íslands í gær (16. janúar) um ritverkið Líftaug landsins eftir sagnfræðiprófessora um utanlandsverslun Íslands frá landnámi til 2010. Hér má sjá það sem ég hafði um þetta stórvirki að segja í Morgunblaðinu fyrir jólin.

Á tveggja tíma málþinginu ræddu fræðimenn af ólíkum sviðum um einstaka kafla bókarinnar og lögðu spurningar fyrir höfunda.

Anna Agnarsdóttir skrifar um fyrstu þrjá áratugi 19. aldar. Þar undir falla Napóleonsstyrjaldarinnar. Hún sagði örlög Íslendinga þá hafa ráðist af samskiptum tveggja manna, Magnúar Stephensens landshöfðingja og Sir Josephs Banks á Bretlandi. Þegar Magnús áttaði sig á hve illa var komið vegna hafnbanns Breta á Dani minntist hann þess að hafa hitt Sir Joseph sem barn að aldri á Íslandi, sendi Magnús honum bréf og Sir Joseph beitti sér fyrir viðskiptum Breta við Íslendinga.

Gylfi Zoëga, próefssor í hagfræði, ræddi við Guðmund Jónsson prófessor um lokakafla ritverksins frá 1914 til 2010. Rakti Gylfi meginþróun efnahags- og viðskiptamála og velti fyrir sér ástæðum þess að Ísland hvarf úr hópi fátækustu ríkja heims í toppsæti meðal þeirra ríkustu.  Nefndi hann meðal annars dr. Benjamín Eiríksson til sögunnar og áhrif hagfræðikenninganna sem hann boðaði.  Nýlega nefndi glöggur maður, sem þekkti alla sem hlut áttu að máli og lagði sjálfur mikið af mörkum til efnahags- og viðskiptafrelsis á Íslandi, við mig að rekja mætti upphaf beinna afskipta dr. Benjamíns af íslenskum efnahagsmálum til þess að þeir hefðu kynnst í Harvard dr. Benjamín og Hans G. Andersen, þjóðréttarfræðingur og sendiherra. Hans G. hefði verið með föður mínum í Washington undir lok fimmta áratugarins eða við upphaf þess sjötta í tengslum við aðild Íslands að NATO eða gerð varnarsamningsins. Þá hefði Hans G. komið á hádegisverði með dr. Benjamín. Þar væri upphaf þáttaskilanna sem settu mark sitt á stefnu Viðreisnarstjórnar Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1959 til 1971 um afnám hafta og frjálsræði sem leiddi Ísland síðan inn í EFTA, Fríverslunarsamtök Evrópu.

Fyrir aldarfjórðungi beitti ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sér fyrir aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu. Frjálsræðið á fjármagnsmarkaði reyndist of mikið fyrir þá sem hösluðu sér völl í bankakerfinu og varnaðarorð eða beiting opinberra stjórntækja Seðlabanka Íslands eða annarra dugði ekki til að koma í veg fyrir stórslys.

Verði slys skiptir mestu að gripið sé til réttra viðbragða.

Í tilefni af 70 ára afmæli Davíðs Oddssonar í dag ritar Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor fróðlega grein í Morgunblaðið um viðhorf og viðbrögð Davíðs í aðdraganda og vegna gjaldþrots bankanna haustið 2008. Þessi saga mun ekki liggja í þagnargildi. Til þessara atburða verður vitnað eins og til bréfsins sem Magnús Stephensen ritaði Sir Joseph Banks fyrir rúmum 200 árum.

Oft hef ég velt fyrir mér hvers vegna Davíð sóttist eftir að verða seðlabankastjóri. Þá og enn frekar nú er niðurstaða mín að hann hafi áttað sig á að bæði fólust mikil tækifæri og hættur í aðildinni að EES og frjálsræðinu sem einkavæðingunni fylgdi. Sjónarmið hans um dreifða eignaraðild að bönkum varð ekki að lögum og honum hugnaðist ekki þróunin í bankaheiminum. Hann óttaðist að allt færi á versta veg og þegar það gerðist þrátt fyrir viðvaranir hans var hann réttur maður á réttum stað.

Uppfært 18. janúar 2018: Heimildarmaður minn um hádegisverðinn í Washington er Einar Benediktsson, fyrrv. sendiherra. Hann var mikill vinur Hans G. Andersens sem sagði honum að á árum sínum í laganámi í Harvard-háskóla hefðu þeir hist á laugardagskvöldum þrír íslenskir námsmenn í ólíkum deildum skólans: Hans G., Benjamín og Gunnar Norland, síðar enskukennari. Þar hefði Benjamín útlistað hagfræðikenningar um gildi frjálsrar verslunar og hefði Hans G. sannfærst um gildi þeirra og þess vegna haft áhuga á að þeir hittust í Washington Benjamín og faðir minn.