Stórvirki um einn meginþátt Íslandssögunnar
Umsögn í Morgunblaðinu 29. desember 2017.
Líftaug landsins
Ritstjóri: Sumarliði R. Ísleifsson.
982 bls. í tveimur bindum, innb. Sagnfræðistofnun HÍ, Skrudda 2017.
Með ritverkinu Líftaug landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010 bætist mikill og vel unninn efniviður við sögu atvinnuvega landsins. Ritið skipar sess við hlið verka sem snúast um sögu íslensks sjávarútvegs, iðnaðar og landbúnaðar. Þá á það einnig heima við hlið Sögu Íslands og Sögu stjórnarráðins. Er mikill fengur að fá verslunarsögu þjóðarinnar skráða á svo skilmerkilegan hátt af nokkrum fremstu sagnfræðingum þjóðarinnar.
Sumarliði R. Ísleifsson, lektor við sagnfræði- og heimspekideild HÍ, er ritstjóri nýja verksins sem er 982 bls. að lengd í tveimur stórum, myndskreyttum bindum sem eru gefin út í boxi af Sagnfræðistofnun Íslands og Skruddu.
Helgi Þorláksson prófessor segir í inngangi að upphaf ritsins megi rekja til umræðna árið 1998. Mest af efninu í ritverkinu er tekið sérstaklega saman fyrir það. Heildarsaga utanlandsverslunar þjóðarinnar hefur ekki fyrr verið samin.
Sagan skiptist í fimm meginkafla.
Helgi Þorláksson, prófessor emeritus, skrifar fyrsta kaflann Frá landnámi til einokunar (bls. 21-206). Lýst er samskiptum íslenskra stórgoða og norskra kaupmanna sem leiddu til þess árið 1220 að ráðamenn í Noregi áformuðu að senda herskip til Íslands. Snorra Sturlusyni tókst að koma í veg fyrir það. Telur Helgi að friður sem ríkti vegna verslunar út þjóðveldistímann hafi varla merkt annað en að stórgoðar hafi hætt harðri verðstýringu. Allt frá upphafi hefur utanlandsverslunin snúist um verðlagningu. Í Konungsskuggsjá kemur fram að kaupmaður skuli gæta hófs í verðlagningu til að kallast ekki „mangari“.
Helgi lýsir vel þróun kaupmennsku frá Björgvin og hvernig Hansakaupmenn ná þar undirtökunum og koma sér fyrir í Bryggjuhúsunum í Björgvin. Þau eru nú á heimsminjaskrá UNESCO og lúta forsjá sérstakrar stjórnar þar sem Kim F. Lingjærde, ræðismaður Íslands, er formaður. Hann er einnig formaður í félaginu Snorres Venner sem var nýlega stofnað til að leggja rækt við minninguna um Snorra Sturluson.
Þótt aldir séu liðnar er oft stutt á milli þess sem sagt er frá í ritverkinu og samtímans. Viðfangsefnin eru enn þau sömu: að tryggja landsmönnum viðunandi lífskjör.
Helgi segir um Íslandssiglingar Englendinga á 15. öld að þær hafi verið fyrstu skipulegu úthafssiglingar þeirra og þar með lagt grunn að mikla breska siglingaveldinu sem náði að lokum til allra heimshafa. Á fyrri hluta 16. aldar verður Ísland síðan átakasvæði milli Þjóðverja og Englendinga.
Eftir að Helgi hefur sagt söguna frá 900 til 1602 tekur Gísli Gunnarsson, prófessor emeritus, við og skrifar um einokunartímann frá 1602 til 1787 (bls. 285-343). Ber kaflinn heitið: Undarlegt er Ísland, örvasa og lasið. Einokunarverslun á Íslandi. Þetta var hörmungatími vegna náttúruhamfara, kuldaskeiðs undir lok 17. aldar og síðan móðuharðindanna 1783-1785. Telur Gísli að þau hafi sennilega lamað þjóðina langt fram eftir 19. öld.
Gísli segir að innleiðing einokunarverslunarinnar árið 1602 hafi fyrst og fremst falist í því að kaupmenn sem voru búsettir utan ríkis Danakonungs voru reknir frá Íslandsversluninni, það er Englendingar og Þjóðverjar. Aðeins þegnar Danakonungs fengu að taka þátt í þessari verslun og frá 1619 aðeins kaupmenn búsettir í Kaupmannahöfn.
Leiga var greidd fyrir aðgang að höfnum og í bókinni eru birt kort sem sýna hvar þessi aðgangur var veittur og til urðu kauphafnir eða kaupstaðir, orðið merkti staði þar sem kaupmenn máttu athafna sig. Síðar var það notað um stjórnsýslueiningu.
Kaupmenn máttu aðeins dveljast í landinu yfir sumartímann, veturseta var þeim bönnuð af því að íslenskir bændur óttuðust samkeppni við þá um vinnuafl.
Anna Agnarsdóttir, prófessor emeritus, skrifar þriðja hluta fyrra bindis og ber hann heitið: Utanlandsverslun Íslands 1788-1830 (bls. 285-343). Konungur gaf út tilskipun um fríhöndlun árið 1787 sem hafði þann mikla kost að Íslendingum var nú leyft að stunda verslun sem þeim var stranglega bannað á tímum einokunarinnar. Má því segja að nú séu 230 ár frá fyrsta vísi að stétt innlendra kaupmanna.
Anna segir ítarlega frá miklum áhrifum átaka Dana og Breta í Napóleonsstyrjöldunum 1807 til 1814 á utanlandsviðskipti Íslendinga. Sambandið við Dani rofnaði og óttast var að þjóðin yrði bjargarlaus en fyrir tilstuðlan Sir Josephs Banks tókst að koma á sambandi milli Breta og Íslendinga og kaupskipasiglingar hófust að nýju milli Englands og Íslands. Færir Anna skýr rök fyrir því að verslunarhagsmunir réðu því sumarið 1809 að Jörundur hundadagakonungur tók að sér stjórn landsins og lét handtaka Trampe greifa sem átti persónulegra verslunarhagsmuna að gæta gegn enskum umbjóðanda Jörundar.
Hver lestur um Jörund og það sem gerðist hér á þessum árum vekur undrun yfir hve veikbyggt íslenska stjórnkerfið var og þjóðin illa á sig komin. Bretar vildu ekki seilast til valda á Íslandi en þegar Kílarfriðurinn var gerður árið 1814 sáu þeir til þess að Svíar fengu ekki ráð yfir Færeyjum og Íslandi þótt þeir fengju Noreg frá Dönum vegna stuðnings þeirra við Napóleon.
Strax árið 1830 birtist fyrirboði breyttra tíma á Norður-Atlantshafi. Þá æfðu þrjú rússnesk herskip á Íslandsmiðum og bárust fyrirmæli frá Kaupmannahöfn um að vel skyldi tekið á móti þeim leituðu þau hafnar.
Síðara bindi ritverksins geymir tvo meginkafla eftir þrjá höfunda. Helgi Skúli Kjartansson, prófessor við menntavísindasvið HÍ, tók að sér árið 2013 ljúka verki sem Halldór Bjarnason hóf að skrifa áður en hann andaðist langt um aldur fram. Þessi kafli heitir: Fríhöndlun og frelsi. Tímabilið 1830-1914 (bls. 11-109).
Fullt verslunarfrelsi fengu Íslendingar árið 1855 og skipaði Jón Sigurðsson sér í forystu fyrir því. „Virðist verslunarfrelsið hafa verið það sem umfram allt annað aflaði honum hylli og viðurkenningar landa sinna,“ segir Helgi Skúli. Á þessum árum runnu upp nýir tímar í verslunarsögu Evrópu. Helstu siglingaþjóðirnar aðhylltust frjálsari verslun og frjálsa samkeppni í siglingum.
Aukið frelsi gerði nýjar kröfur til Íslendinga sjálfra vildu þeir láta að sér kveða í viðskiptum. Undir lok 19. aldar lærðu þeir síldveiðar af Norðmönnum og líkja má hvalveiðum Norðmanna við stóriðju samtímans. Þeir reistu fyrstu hvalveiðistöð sína á Vestfjörðum árið 1883 og um aldamótin stóðu þessar norsku stöðvar fyrir um fimmtungi útflutningsins.
Alþingi fékk fjárveitingarvald árið 1874 og árið 1878 var fyrsti vitinn tekinn í notkun á strönd Íslands, Reykjanesviti. Breyttir atvinnuhættir kölluðu á bankastarfsemi, 3 sparisjóðir voru starfræktir árið 1875 en 24 um aldamótin. Helgi Skúli segir að iðnbylting á Íslandi hafi ekki lagt grunn að hagvexti í landinu alla 19. öld heldur iðnbyltingin erlendis, millilandaverslunin hafi verið farvegur þeirra áhrifa.
Þessi þróun skýrist enn betur í lokakafla ritverksins eftir Guðmund Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ. Kaflinn heitir: Smáþjóð á heimsmarkaði. Tímabilið 1914-2010 (bls. 111-439). Í inngangi segir Guðmundur að sé leitað að ritsmíðum sem fjalli um þróun utanríkisverslunarinnar almennt yfir lengri eða skemmri tíma megi aðeins nefna þrjár: Sögu viðskiptaráðuneytisins 1939-1994 eftir Hugrúnu Aspar Reynisdóttur, Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson og stuttan bókarkafli eftir Gylfa Zoëga.
Ritsmíð Guðmundar er brautryðjendaverk sem fyllir tómarúm. Þar er brugðið ljósi á þróun sem mótast af tveimur heimsstyrjöldum, fullveldi þjóðarinnar 1918 og stofnun lýðveldis 1944 og gjörbyltingu í atvinnu- og lífsháttum. Lýst er hlutverki „utanríkisverslunarinnar í umbreytingunni úr fátæku bændasamfélagi í iðnvætt markaðsþjóðfélag“. Verslunin hafi verið „einn helsti aflvakinn í hagþróun landsins á þessum mesta umbrotatíma Íslandssögunnar,“ segir Guðmundur réttilega í upphafi og færir sönnur á það með rannsóknum sínum og texta.
Í fyrri heimsstyrjöldinni reyndi enn á sérstök tengsl Íslendinga og Breta eins og í Napóleonsstyrjöldunum. Árið 1916 gerðu Íslendingar fyrsta tvíhliða viðskiptasamning sinn án aðildar danska ríkisins og var hann við Breta. Lífskjör rýrnuðu mjög í fyrri heimsstyrjöldinni vegna stopulla aðflutninga þar til sæmileg tengsl mynduðust við Breta og Bandaríkjamenn. Sama gerðist í síðari heimsstyrjöldinni og undir lok hennar hafði myndast víðtækt hagsmunanet milli Íslands og Bandaríkjanna sem haldist hefur síðan og blómstrar nú í flugi og ferðaþjónustu.
Fyrsta áfallið vegna samdráttar í síldarafla varð árið 1928, síldarkrakkið, og var við því brugðist í anda þess tíma með ríkiseinkasölu á síld. Í kreppunni þróast innflutningur í hendur ríkisfyrirtækja, gjaldeyrishafta, leyfa og skömmtunar. Rótgróna hugmyndin um frjálsa verslun, hvatinn í sjálfstæðisbaráttunni, vék fyrir ríkisafskiptum. Á fyrstu 15 árunum eftir síðari heimsstyrjöldina var þróunin hér á móti straumum í viðskiptamálum V-Evrópu. Árið 1960 beitti Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sér fyrir „einum róttækustu aðgerðum í efnahagsmálum sem um getur í sögu lýðveldisins,“ segir Guðmundur um upphaf nýs frjálsræðis.
Hér verður þessi saga eða einstaka þættir hennar ekki frekar rakin. Guðmundur skrifar sig inn í samtímann með miðlun mikilla upplýsinga um þróun alþjóðaviðskipta og aðild Íslendinga að þeim. Sjálf vöruverslunin fær mikið rými, rætt er um verslunarstéttina og viðhorfið til kaupmanna og þróun fyrirtækja á þessu sviði.
Að baki ákvarðana um utanríkisviðskiptin ríkir jafnan tillitið til sjávarútvegs og landbúnaðar. Það hefði til dæmis ekki fengist þingmeirihluti fyrir aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu nema vegna þess að sátt náðist við fulltrúa bænda innan þingflokks Sjálfstæðismanna. Á þessa þætti reynir enn þann dag í dag eins og nýfallinn dómur EFTA-dómstólsins um innflutning á kjöti sýnir.
Í yfirliti Guðmundar Jónssonar yfir samantekt sína segir hann: „Samanburður á árunum 1913 og 2010 leiðir í ljós að í nokkrum grundvallatriðum hefur útflutningsverslunin lítið breyst. Matvörur og hráefni eru enn allsráðandi í útflutningsframleiðslu Íslands. Fábreytni er líka ennþá mjög mikil...“
Þarna nefnir Guðmundur þann tíma sem fellur undir hann í þessu mikla ritverki en í raun lýsir hann fábreytninni sem ríkt hefur í útflutningi Íslendinga allt frá því að þeir hófu að selja vaðmál á söguöld. Innflutningurinn er fjölbreyttari og kröfurnar aðrar.
Árið 1237 skipaði páfi svo fyrir að vín í sakramentum skyldi einungis gert úr vínberjum. Var þá lögð rík áhersla á að fá vín með skipum og árið 1326 varð að fella niður messusöng á sumum stöðum í Skálholtsbiskupsdæmi vegna þess að skip kom ekki með vín. Þegar þrengdi að árið 1808 vegna hafnbanns í Napóleonsstríðunum hafði Danakonungur áhyggjur af messuvínsskorti en fannst skárri kostur að blanda fáanlegt vín með vatni en að Íslendingar færu að brugga messuvín úr berjum að tillögu Magnúsar Stephensens.
Annað yrði sett í forgang núna en messuvín þrengdi að utanríkisversluninni en þetta dæmið sýnir að höfundar Líftaugar landsins líta til allra átta í rannsóknum sínum og ritsmíðum.
Báðum bindum verksins fylgir kynning á höfundum, töfluviðauki, skrár yfir tilvísanir, heimildir, myndir og kort, mannanöfn, staðarnöfn og atriðisorð. Allt auðveldar þetta lesendum að nota ritið sem uppflettirit. Að lesa það í heild gefur fróðleiknum aukið gildi og dýpkar skilning á þessum mikilvæga þætti Íslandssögunnar.
Bækurnar eru prentaðar á glansandi pappír svo að myndir og kort njóti sín sem best. Umbrot er einfalt en meginmál er brotið upp með yfirskyggðum innskotsköflum sem draga athygli að þáttum á ítarlegri hátt en gert er í meginmáli. Myndefnið er hefðbundið fyrir safnrit. Kort Guðmundar Ó. Ingvarssonar auka fróðleiksgildi verksins og sýna glöggt breytingar á verslunarstöðum.
Ritstjóra hefur tekist vel að láta verkið mynda eina heild. Efnistök höfunda eru mismunandi en falla þó öll í einn farveg og heildarmyndin verður góð.
Líftaug landsins er stórvirki um einn af meginþáttum Íslandssögunnar. Þjóðlífsþátt sem við nútímamenn lítum á sem sjálfsagðan hlut. Hann gagnast þó ekki þjóðinni nema lögð sé við hann rækt, meðal annars af skilningi og virðingu fyrir sögu hans eins og hér er gert.