2.2.2019 10:19

Einkavæðing banka og regluverk

Þegar slegið er fram skoðun eins og þeirri sem ritstjórinn gerir verður að hann líta til fleira en þess að bankarnir voru einkavæddir. Hann verður að greina starfsumhverfi þeirra.

Menn geta endalaust deilt um hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna fyrir um 20 árum. Um það hafa verið skrifaðar skýrslur og greinargerðir. Í grein sem Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifar á vefsíðuna föstudaginn 1. febrúar segir meðal annars:

„Þegar fjármálakerfið hrundi 2008 voru liðin einungis rúm fimm ár frá því að það var að fullu einkavætt. Það tók ekki lengri tíma en það fyrir íslenska banka- og viðskiptamenn að búa til vítisvél úr kerfinu, þar sem örgjaldmiðillinn krónan varð að lykilbreytu. Í ljósi reynslunnar má þar af leiðandi færa sterk rök fyrir því að áhætta ríkisins, og samfélagsins alls, sé mun meiri af því að einkavæða bankanna en að gera það ekki.“

Þetta er stórundarlegur texti í ljósi þess að höfundurinn lætur alveg hjá líða að fjalla um breytingarnar sem orðið hafa á regluverkinu um starfsemi fjármálastofnana frá 2008. Þegar slegið er fram skoðun eins og þeirri sem ritstjórinn gerir verður að hann líta til fleira en þess að bankarnir voru einkavæddir. Hann verður að greina starfsumhverfi þeirra.

Banksa-kqGC-621x414atLiveMintÍ mörg þúsund blaðsíðna skýrslu rannsóknarnefndar alþingis er rauður þráður að reglur og eftirlit hafi skort. Úr þessu hefur verið bætt núna með gífurlega umfangsmiklu regluverki á EES-svæðinu sem innleitt er stig af stigi.

Nýju reglurnar komu til sögunnar árið 2010. Í grófum dráttum má segja að það hafi ekki verið fyrr en árið 2014 sem íslensk stjórnvöld töldu sér fært að fallast á þær eftir að deilt hafði verið um hvort þær féllu að stjórnarskrá Íslands. Það var leyst með vísan til tveggja stoða kerfis EES-samningsins og árið 2016 var hafist handa við innleiðinguna.

Ríki sem bjó við bankahrun árið 2008 taldi það hugsanlega brjóta í bága við stjórnarskrá sína að innleiða reglur sem eiga að hindra að leikurinn endurtaki sig vegna skorts á regluverki og eftirliti!

Það væri nær að ritstjóri Kjarnans beindi athygli sinni að þessu þegar hann ræðir hvort selja eigi ríkisbanka árið 2019 en því sem gerðist fyrir tæpum 20 árum.