Efla ber löggæslu
Reynslan hefur sannað réttmæti þess að efla sérsveitina. Nú er vísað til styrks hennar þegar sagt er að ekki eigi að vopna lögreglumenn við almenn störf þeirra.
Við útskrift úr lögregluskólanum 11. desember 2003 lét ég þess getið að efla yrði sérsveit lögreglunnar til að treysta öryggi hins almenna lögreglumanns og þar með almennt öryggi í landinu.
Breyting á stöðu sérsveitarinnar varð frá og með 1. mars 2004. Þá færðust 16 sérsveitarmenn úr lögreglunni í Reykjavík til ríkislögreglustjóra. Þetta var gert innan ramma lögreglulaga en sérsveitin hafði þá starfað síðan 1979 og frá 1999 var yfirstjórn hennar hjá ríkislögreglustjóra þótt mennirnir 16 störfuðu í lögreglunni í Reykjavík.
Sérsveitarmenn á vettvangi (mynd: mbl.is).
Samhliða þessari ákvörðun var kynnt stefna í málefnum sérsveitarinnar og hún rökstudd með nýjum verkefnum og talið að fjölga þyrfti í sveitinni í 50 manns meðal annars með því að efla hana sérstaklega á Keflavíkurflugvelli og Akureyri.
Vegna þessarar ákvörðunar varð dálítið pólitískt uppnám á vinstri væng stjórnmálanna, einkum innan Samfylkingarinnar, og í fjölmiðlum Baugsveldisins sem þá var og hét.
Flissumræðurnar gengu út á að ég væri að stofna íslenskan her eða breyta Íslandi í lögregluríki. Sannaðist þá enn hve erfitt er fyrir marga að ræða mál af þessum toga með málefnalegum rökum þótt þeir séu gjarnan fyrstir til að ráðast á stjórnvöld og gagnrýna þau fyrir að vera ekki í stakk búin til að takast á við vandasöm verkefni og tryggja öryggi borgaranna.
Að baki eflingu sérsveitarinnar bjó mat á afbrotaþróun. Nú eru miklar umræður eins og 2004 um nauðsynleg viðbrögð á sviði löggæslu vegna vísbendinga um hættulega þróun sem ógnar öryggi lögreglumanna og þar með alls almennings.
Reynslan hefur sannað réttmæti þess að efla sérsveitina. Nú er vísað til styrks hennar þegar sagt er að ekki eigi að vopna lögreglumenn við almenn störf þeirra.
Enn á ný verða umræður um rannsóknarheimildir lögreglu og hvort þær dugi. Ég hef lengi talið að svo sé ekki. Á sínum tíma varð uppi fótur og fit þegar ég vakti máls á að lögreglan fengi rafbyssur. Það verður spennandi að sjá hver verður niðurstaða umræðna um það mál nú. Hverjir stofna til pólitískrar andstöðu við það? Dómsmálaráðherra kemst ekki lengra en pólitískt umboð hans leyfir. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lýst skoðun sinni, hann vísar til góðrar norrænnar reynslu af rafbyssum.
Á sama hátt og sérsveitin var gerð að stoðdeild undir stjórn ríkislögreglustjóra á sínum tíma ætti nú að stofna eigi stoðdeild landamæralögreglu undir stjórn ríkislögreglustjóra. Skil verði á milli lögreglunnar á Suðurnesjum og landamæralöggæslu.
Oftar en einu sinni hef ég reifað þessa skoðun og geri það enn á ný þegar litið er á innra skipulag lögreglunnar og aðferðir eða aðgerðir til að efla almennt öryggi vegna áhuga sem vaknar að gefnu tilefni.
Matskýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra hafa oft falið í sér viðvaranir um það sem síðar hefur orðið. Atkvik vekja hins vegar athygli og við þeim verður að bregðast til að viðhalda trausti og trúverðugleika.