28.6.2018 13:03

EES og stjórnarskráin

Átökin á alþingi á fyrstu árum 10. áratugarins snerust að verulegu leyti um stöðu samningsins gagnvart stjórnarskránni, þá eins og nú greindi lögfræðinga á um þetta mál.

Erna Ýr Öldudóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, birtir í dag viðtal við Alexöndru Björk Adebyi sem skrifaði lokaritgerð í lögfræði við Háskólann í Reykjavík (HR), um fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins. Niðurstaða ritgerðarinnar er að EES-samningurinn hafi á aldarfjórðungi þróast til nánara samstarfs aðildarríkjanna og nú sé álitamál hvort hann standist þær forsendur sem byggt var á þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast íslensku stjórnarskránni.

Kortið sýnir EES-löndin.

Alexöndru Björk finnst þetta „sérstaklega merkilegt efni“, þar sem enginn alþjóðasamningur hafi haft jafn mikil áhrif á íslenskt réttarfar og EES-samningurinn. Hún segir réttilega að samningnum hafi ekki verið „ætlað að vera yfirþjóðlegs eðlis með sama hætti og ESB“. Vildi hún „draga skýrt fram hvort fyrri forsendur stæðust, en það skiptir máli að svona stór og mikilvægur samningur byggi á traustum stoðum“.

Þegar Erna Ýr spyr um helstu niðurstöður lokaritgerðarinnar. Svarar Alexandra Björk:

„Helst þær að samningurinn ber í dag mörg einkenni þess að vera yfirþjóðlegs eðlis. Þær forsendur og þau sjónarmið sem byggt var á þegar valdframsal vegna EES-samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni verða að teljast matskennd og mörkin á túlkun stjórnarskrárinnar óljós. Þegar skoðað er hvernig fyrirkomulag valdframsals vegna EES-samningsins hefur þróast verður hann ekki talinn standast þær forsendur sem byggt var á þegar valdframsal vegna samningsins var talið samrýmast stjórnarskránni. Fræðimenn hafa m.a. haft uppi varúðarorð um þróunina og hefur þeim fjölgað í gegnum tíðina.“

Allt er þetta í samræmi við það sem rætt hefur verið á undanförnum árum ekki aðeins varðandi aðildina að EES heldur einnig að Schengen-samstarfinu. Stjórnvöld hafa fengið álitsgerðir fræðimanna við töku ákvarðana sem tengjast aðildinni að Schengen og EES.

Átökin á alþingi á fyrstu árum 10. áratugarins snerust að verulegu leyti um stöðu samningsins gagnvart stjórnarskránni, þá eins og nú greindi lögfræðinga á um þetta mál. Engu að síður samþykkti meirihluti alþingismanna aðildina.

Í norsku stjórnarskránni er að finna ákvæði sem leyfa aðild að ESB og þar með um framsal valds. Ekkert slíkt ákvæði er í íslensku stjórnarskránni og þess vegna hefur orðið til grátt svæði eins og lýst er í þessari nýju ritgerð. Hvort sú „pragmatíska“ leið sem alþingi hefur valið í EES-málum skapar nýja stjórnlagareglu hér með hefð og venju er eitt af álitamálunum sem hljóta að koma til skoðunar.