6.10.2019 10:51

EES-andstæðingar draga víglínu

EES-andstæðingar fara mikinn gegn okkur sem sömdum EES-skýrsluna. „Tóran“ verður „plokkuð úr“ skýrslubirninum segir einn. Annað er eftir því.

Í skýrslu starfshópsins um EES-samstarfið er lögð rík áhersla á að íslenskra hagsmuna sé gætt í hvívetna. Það geta allir kynnt sér sem áhuga hafa. Útleggingar andstæðinga EES eru á annan veg. Þar fer Páll Vilhjálmsson bloggari framarlega í flokki og segir til dæmis laugardaginn 5. október:

„Ísland var hjálenda erlendra konunga, norskra og danskra, frá Gamla sáttmála á 13. öld og fram á 20. öld. Á þeim tíma urðu Íslendingar ópólitísk þjóð, sinnulaus um landsstjórnina enda valdið í útlöndum.

Skýrsla Björns Bjarnasonar um EES-samstarfið boðar að Íslendingum sé farsælast að líta á sig sem hjálendu Evrópusambandsins þar sem EES-samningurinn kemur í stað Gamla sáttmála.“

Páll neitar að viðurkenna þá staðreynd að EES-aðildin móti allt þjóðlífið og ekki beri að skilgreina hana sem ásælni heldur tækifæri til að gæta íslenskra hagsmuna á samningsbundnum grunni. Það var til dæmis gert í Icesave-málinu með góðum árangri eins og rakið er í skýrslunni.

Í stað þess að líta til tillagna okkar gerir Páll mér og öðrum upp þá skoðun að við viljum „að náttúruauðlindir okkar skuli lúta Brusselvaldinu, er efnislegi boðskapurinn“. Þetta er í einu orði sagt lygi.

Þá segir hann okkur boða EES „yfirráðuneyti“ þegar við leggjum til að í forsetaúrskurði verði ákveðið hvaða ráðherra fari með EES-málefni eins og nú er ákveðið um Norðurlandamálefni. Er eitthvert norrænt yfirráðuneyti í stjórnarráðinu?

„Samviskuspurningin sem hver og einn þarf að svara er þessi: hvort vil ég líta á Ísland sem hjálendu eða fullvalda þjóðríki?“ segir Páll í lok þessarar dæmalausu úttektar sinnar á skýrslunni.

Black-Vulture-s68-1-032Meðal þeirra sem bregðast við blogginu er Gunnar Rögnvaldsson. Hann segir:

„Vel að orði komist Páll.

Þjóðin er að læra að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki sjálfstæðisflokkur. Það er ný staða sem tekur smá tíma að renna upp fyrir henni. Skýrslubjörninn sá mun varla þurfa að kemba hærurnar, því hann er þegar að hálfu fallinn fyrir eigin hendi. Nýtt mun koma í hans stað og plokka úr honum tóruna.“

Að kenna þessa skýrslu við Sjálfstæðisflokkinn er enn ein lygi þessara manna. Þarna er svo hótað gjöreyðingu með einstaklega smekklegu orðalagi.

Telji lesendur síðunnar sig kannast við nöfn þessara manna er það kannski vegna þess að oft er vitnað til þeirra af velþóknun í Staksteinum Morgunblaðsins.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, gagnrýnir EES-skýrsluna. Sami Ólafur sagði meðal annars á ársþingi ASÍ 23. október 2008:

„Í nafni efnahagslegs fullveldis og í nafni íslensks launafólks eigum við að leita eftir því á grundvelli umsóknar um aðild að Evrópusambandinu að fá aðild að evrópska myntsamstarfinu svo fljótt sem verða má og eignast um leið bakhjarl í Evrópska seðlabankanum. Þessi skipan yrði tímabundin þangað til við fáum fulla aðild að evrópska myntbandalaginu og Evrópusambandinu.“

Vildi Ólafur að við skýrsluhöfundar tækjum undir þessa skoðun hans? Án aðildar að EES er aðild að ESB augljós kostur.