11.4.2022 10:07

Dreifð eign – ekki kjölfestueign

Nú ræður stefnan um dreifða eignaraðild ferðinni við söluna á eign ríkisins í Íslandsbanka en ekki kjölfestustefnan eins og í upphafi aldarinnar undir forystu framsóknarmanna.

Forsíðufrétt Morgunblaðsins í dag (11. apríl) er viðtal við Lilju D. Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra sem skapar sér stöðu vegna sölunnar á Íslandsbanka.

Ráðherrann segist ekki hafa verið hlynnt aðferðafræðinni sem fylgt var, hefði viljað almennt útboð en segir síðar án þess að skýra nánar: „Evróputilskipun fylgir hins vegar sú kvöð að ekki var hægt að fara í annað almennt útboð eins og sakir standa.“

Óljóst er af orðum ráðherrans hvort þetta hefði verið hægt síðar. Hitt er vitað að eftir bankahrunið 2008 breyttist allt umhverfi fjármálafyrirtækja á EES-svæðinu og við hönnun nýs kerfis var meðal annars tekið mið af reynslunni hér á landi og bankahruninu.

Peningar_1649671619711Þegar bankar voru einkavæddir hér á sínum tíma var lögð áhersla á að í þeim yrðu svonefndir kjölfestufjárfestar. Þar má meðal annars vitna til yfirlýsingar sem þáverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir gaf í byrjun júní 2001 um sölu á a.m.k. þriðjungs hlut í Landsbankanum, helst til erlends fjárfestis.

Margir mæltu þá gegn stefnunni um kjölfestufjárfesti. Það var meðal annars gert í leiðurum Morgunblaðsins þar sem talið var rétt að einkavæða banka en dreifa ætti eignarhaldinu. Áður en stjórnvöld ákváðu kjölfestustefnuna var rætt um að eignarhald eins aðila í banka mætti ekki verða meira en 3%, það er að eignaraðildin yrði dreifð.

Nú ræður stefnan um dreifða eignaraðild ferðinni við söluna á eign ríkisins í Íslandsbanka en ekki kjölfestustefnan eins og í upphafi aldarinnar undir forystu framsóknarmanna.

Í eigendahópnum núna eru aðeins 14 aðilar með meira en 1%. Hinir 15.000 hluthafarnir eiga minna. Eignarhaldið er því fjölbreytt og dreift. Enginn eigandi hefur tryggt sér „virkan“ hlut það er yfir 10% nema ríkið sem á 42,5%. Sé litið á skráð verð í bankanum er það nú hæst frá skráningu sem sýnir að vel hefur til tekist við sölu á bréfum í honum. Ríkið sem stærsti eigandinn hagnast verulega á að verð á bréfum í bankanum hækka.

Hafi viðskiptaráðherra sem fer með markaðs- og neytendamál í ríkisstjórninni haft áhyggjur af því að verðfall yrði á eignarhlut í bankanum vegna sölunnar með þessari aðferð og á þessum tíma mat hún ástandið ekki rétt. Hafi hún viljað fara kjölfestuleiðina eins og flokkssystir hennar árið 2001 og líta á „gæði framtíðareigenda“ eins og hún orðar það í viðtalinu í dag hafa umræður um það farið fram á lokuðum ráðherrafundum sem hún sat um málið. Eðlilegt er að þar skiptist ráðherrar á skoðunum en regla góðra stjórnarhátta er taki ríkisstjórn ákvörðun standi allir ráðherrar að henni. Ákvörðunin um söluna nú og aðferðina er því tekin með ábyrgð Lilju D. Alfreðsdóttur eins og annarra ráðherra enda segir hún sig ekki frá henni í Morgunblaðinu.

Samstarfsmenn Framsóknarflokksins á alþingi voru örugglega í góðri trú um afstöðu flokksins í málinu því að undir álitum meirihlutans í efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd eru nöfn framsóknarþingmanna.

„Gæði framtíðareiganda“ banka verða ekki ákveðin af stjórnmálamönnum nú eins og á fyrstu árum aldarinnar þegar framsóknarmenn fóru með bankamálin.