20.12.2017 11:44

Deilt um hvort mál sé „nægjanlega upplýst“

Dómsmálið snýst um túlkun á því hvenær mál er „nægjanlega upplýst“ áður en ákvörðun er tekin.

Hæstiréttur felldi þriðjudaginn 19. desember dóm í máli sem Ástráður Haraldsson hrl. höfðaði gegn íslenska ríkinu af því að hann fékk ekki embætti dómara í landsrétti.

Í niðurstöðu dómsins segir að „málsmeðferð dómsmálaráðherra við skipun í embætti dómara við Landsrétt í júní 2017 hafi verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga“. Í greininni er að finna svonefnda rannsóknarskyldu stjórnvalds áður en ákvörðun er tekin. Greinin er stutt: „Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“

Allir sjá af lestri greinarinnar að þarna ber stjórnvaldi að meta hvenær mál er „nægjanlega upplýst“. Auðvelt er að teygja og toga rannsóknarskylduna. Í þessu máli hefur það verið gert á þann veg að ráðherrann telur að dómararnir gangi of langt. Með vísan til þessarar rúmu túlkunar taka þeir afstöðu til kröfu Ástráðs um skaðabótaskyldu ríkisins.

Til að átta sig á réttmæti skaðabótakröfunnar vildu dómarar í hæstarétti eins og héraðsdómarinn fá vitneskju um tekjur Ástráðs og var skorað á hann „að leggja fram staðfest skattframtöl sín til síðustu þriggja ára, það er vegna tekjuáranna 2016, 2015 og 2014 og útprentun úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir fyrstu sjö mánuði árs 2017“. Ástráður varð ekki við þessari áskorun.

Hefði þarna verið um mál innan stjórnsýslunnar að ræða hefði neitun Ástráðs komið í veg fyrir að stjórnvald gæti sinnt rannsóknarskyldu sinni á fullnægjandi hátt. Ekki þarf að teygja neitt og toga til að átta sig á því. Dómarar töldu neitun Ástráðs réttilega leiða til þess að sýkna bæri ríkið af kröfunni um skaðabótaskyldu.

Loks gerði Ástráður kröfu um miskabætur sér til handa vegna þess að dómsmálaráðherra hefði með „háttsemi sinni vegið að starfsheiðri hans, orðspori, reynslu og hæfni“

Dómararnir segja að dómsmálaráðherra hafi ekki sinnt rannsóknarskyldunni en taka fram að ráðherrann hafi ekki „hagað gerðum sínum sérstaklega til að beina meingerð að æru eða persónu“ Ástráðs. Dómararnir telja að ákvörðun ráðherrans hafi eigi að síður haft „þær afleiðingar að bættur var hlutur einhvers úr hópi fjögurra annarra umsækjenda sem dómnefnd hafði raðað lægra en áfrýjanda. Þótt ráðherrann hafi ekki í tengslum við þetta látið orð falla til að vega að persónu eða æru áfrýjanda verður ekki fram hjá því litið að henni mátti vera ljóst að þessar gerðir gætu að ófyrirsynju bitnað á orðspori áfrýjanda og orðið honum þannig að meini. Þrátt fyrir þetta gekk ráðherrann fram án þess að skeyta nokkuð um þessa augljósu hættu“.

Vegna þessa telja dómararnir hæfilegt að Ástráður fái 700.000 kr. í miskabætur og ríkið greiði málskostnað í héraði og fyrir hæstarétti.

Hefði ráðherrann sinnt stjórnsýslulegu rannsóknarskyldunni á þann veg að fallið hefði að kröfum dómaranna fimm hefði hún ekki vegið að orðspori Ástráðs „að ófyrirsynju“ með því að fella nafn hans af listanum til alþingis.

Ég hef engar forsendur til að leggja mat á ágæti umsækjenda um þessi dómarastörf. Matið var flókið því að mönnum var raðað með þremur aukastöfum til að gera upp á milli þeirra.

Dómsmálið snýst um túlkun á því hvenær mál er „nægjanlega upplýst“ áður en ákvörðun er tekin. Í þessu máli var það þó ekki ráðherrann sem átti síðasta orðið heldur þingnefnd og alþingi sjálft. Hlýtur að vera sérstakt rannsóknarefni hvernig þingmenn stóðu að ákvörðun sinni.

Þetta er forvitnilegt stjórnsýslu- og lögfræðilegt álitaefni. Krafa um afsögn dómsmálaráðherra vegna þess er af öðrum toga og sett fram með haldlitlum pólitískum rökum.