5.1.2018 10:56

Deilan vegna dómaranna

Löggjafarvaldinu mistókst að finna skynsamlega leið til að skapa hæfilegt jafnvægi milli þriggja arma ríkisvaldsins.

Lára Ómarsdóttir, nýr stjórnandi Kastljóss ríkissjónvarpsins, ræddi við Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipan dómara í Landsrétt og dóm Hæstaréttar vegna þess að kvöldi fimmtudags 4. janúar. Til málaferlanna kom vegna skipunar í Landsrétt þar sem ágreiningur var um ákvörðun ráðherrans og varð málstaður ráðherrans undir að nokkru leyti í dómsmálinu. Eðlilegt er að ráðherrann sé ekki sammála því. Tapi menn dómsmáli eru þeir sjaldan sammála dómurunum þótt þeir uni niðurstöðunni. Raunar lýsir dómsmálaráðherra niðurstöðu Hæstaréttar sem „áfalli“ fyrir sig.

Ráðherrann skýrði frá því að hún hefði eftir að tillaga dómnefndar um umsækjendur barst kannað hug þingmanna til hennar á óformlegan hátt og heyrt að óbreytt næði tillagan ekki fram að ganga. Lögum samkvæmt hefur ráðherrann tvær vikur til að skoða tillögu um dómara áður en hann leggur hana fyrir alþingi. Úr því að Sigríður dómsmálaráðherra taldi sig verða að víkja frá tillögu nefndarinnar til að fá samþykki þingmanna nýtti hún sér þessar tvær vikur til að undirbúa nýja tillögu um fjóra dómara fyrir alþingi í stað fjögurra frá nefndinni.

Aðsetur Landsréttar.  Myndin er af mbl .is

Í dómi Hæstaréttar felst að ráðherrann hafi ekki notað þessar tvær vikur nægilega vel til rannsókna samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og þess vegna beri brottvísuðum umsækjendum að fá miskabætur. Nú hafa tveir þeirra einnig óskað eftir skaðabótum.

Viðbrögðin við þessum dómi eru „út úr öllu korti“ hjá pólitískum andstæðingum ráðherrans. Háskólakennari kallar ráðherrann meira að segja „glæpon“ á Facebook vegna dómsins. Menn dæma sig úr leik á ýmsan hátt.

Vegna mismunandi túlkunar á lögum skera dómstóla úr þrætum. Falli dómur á annan veg í áfrýjunarrétti en í undirrétti má rekja það til mismunandi lagatúlkunar – dettur nokkrum í hug að kalla undirréttardómarann „glæpon“ vegna þess eða krefjast afsagnar hans.

Settur dómsmálaráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson situr nú yfir tillögu nefndar um skipan átta héraðsdómara. Hann sinnir rannsóknarskyldu sinni með hliðsjón af nýföllnum dómi hæstaréttar og leitar eftir skýringum frá nefndinni. Jakob R. Möller hrl., formaður nefndarinnar, svarar ráðherranum á þann veg að jaðrar við skæting.

Í báðum tilvikum gera þessar nefndir tillögu um jafnmarga menn og skipa ber. Þetta er greinilega gert til að binda hendur ráðherrans eins og sannast í dómi hæstaréttar vegna landsréttardómaranna – unnt er að teygja og toga 10. gr. stjórnsýslulaganna í allar áttir. Fari umsækjendur í mál eiga dómarar lokaorðið í þessum átökum milli dómsvalds og framkvæmdavalds.

Alþingi vildi hvorki afsala sér né framkvæmdavaldinu öllum tökum á skipan dómara. Þeir eiga lokaorð um hvort lög samræmist stjórnarskránni og kalla einnig eftir pólitísku valdi með „skapandi túlkun“ laga. Löggjafarvaldinu mistókst þó að finna skynsamlega leið til að skapa hæfilegt jafnvægi milli þriggja arma ríkisvaldsins. Alþingi verður því enn að endurskoða dómstólalögin.