Danir í netstríði – hvað gerum við?
Þegar varnarmálaráðherra lands kveður svo fast að orði leiðir það óhjákvæmilega til þess að varnir séu hertar á viðkomandi sviði.
Í norrænni skýrslu minni um utanríkis- og öryggismál er tvisvar minnst á fjölþátta stríð (e. hybrid warfare) en ekki fjölþátta ógn (e. hybrid threat). Í umræðum um skýrsluna er ég gjarnan spurður hvers vegna sé kveðið svo fast að orði að tala um stríð í þessu samhengi. Svar mitt er einfaldlega að gerði ég það ekki gæfi ég ranga mynd af því sem við mig var sagt á fjölmörgum fundum í upphafi árs í norrænu höfuðborgunum.
Í dag (10. des.) birtir leyniþjónusta danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE), ársskýrslu sína. Þar segir Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, að stöðugar og alvarlegar netárásir á Danmörku frá tölvuþrjótum í þjónustu opinberra aðila og frá erlendum ríkjum eins og Rússlandi, Kína, Íran og Norður-Kóreu séu „stríð“ og þeim megi líkja við sprengjuvélar sem ráðist á dönsk fyrirtæki eða mikilvæg grunnvirki, t.d. brýr eða orkumannvirki.
Þegar varnarmálaráðherra lands kveður svo fast að orði leiðir það óhjákvæmilega til þess að varnir séu hertar á viðkomandi sviði. Eitt af því sem Trine Bramsen hefur í bígerð er að flytja frumvarp til nýrra laga sem miða meðal annars að því að útiloka að kínverska fyrirtækið Huawei leggi til búnaði í 5G-væðinguna í Danmörku. Sett verður sem skilyrði að aðeins verði keyptur búnaður frá fyrirtækjum í löndum í nánu bandalagi með Danmörku.
„Það er enginn vafi á því að við höfum verið allt of barnaleg allt of lengi gagnvart mikilvægum og lífsnauðsynlegum grunnvirkjum. Nýju lögunum er ætlað að vernda Danmörku enn frekar gegn árás,“ segir danski varnarmálaráðherrann.
Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur.
Fyrir alþingi liggur frumvarp frá samgönguráðherra með loðnu orðalagi sem ef til vill verður túlkað gegn ítökum Huawei á Íslandi. Hafi dönsk yfirvöld of lengi nálgast þessi mál af barnalegu gáleysi á það tvímælalaust við um íslensk yfirvöld eins og oft hefur verið nefnt hér á síðunni. Að nokkru rofar þó til í tillögu meirihluta fjárlaganefndar vegna fjárlaga 2021 þar sem segir:
„Gerð er tillaga um 197 millj. kr. tímabundna hækkun til öryggis- og varnarmála. Brýnt er að grípa til ráðstafana til þess að auka netvarnir og varnir gegn fjölþáttaógnum á Íslandi. Yfirstandandi heimsfaraldur hefur leitt til margvíslegra breytinga á starfsháttum og samskiptum stjórnvalda, fyrirtækja og einstaklinga um allan heim. Hraði þróunar stafrænna lausna hefur aukist og mikilvægi öruggra fjarskipta og verndunar mikilvægra innviða er meira en nokkru sinni.
Í þessu samhengi er lagt til að Ísland gerist aðili að öndvegissetri Atlantshafsbandalagsins um netvarnir í Tallinn í Eistlandi og evrópska öndvegissetrinu [um varnir gegn fjölþáttaógnum] sem staðsett er í Helsinki í Finnlandi. Ísland er nú eina ríki Atlantshafsbandalagsins sem ekki tekur þátt í starfsemi öndvegissetursins, en virk þátttaka í starfsemi þess er skilyrði fyrir aðild. Öll hin norrænu ríkin eru aðilar, auk 26 annarra ríkja. Aðild felur í sér ótvíræðan ávinning fyrir Ísland enda eykst aðgengi að ráðgjöf, fræðslu og þjálfun í netöryggi og netvörnum auk aðgengis að sterku tengslaneti bandalagsríkjanna um málefnið. Þátttaka í starfi öndvegissetursins myndi efla þekkingu hér á landi á málaflokknum en þjálfun og fræðslu á þessu sviði hér á landi hefur til þessa verið ábótavant. Kostnaður vegna þátttöku hefur verið áætlaður 97 millj. kr. á ári.“
Þetta eru löngu tímabær skref – en betur má ef duga skal.