Capacent segir RÚV að stunda leynimakk
Skattgreiðendur greiða árlega um 5.000 milljónir til RÚV. Capacent vill leyna þá hverjir sækja um starf útvarpsstjóra – stjórn RÚV hlýðir.
Skattgreiðendur leggja um 5.000 milljónir króna til ríkisútvarpsins (RÚV) ár hvert. Nú er auglýst eftir nýjum útvarpsstjóra. Þá ákveður stjórn þessa opinbera hlutafélags að ekki eigi að greina frá því hverjir sækja um starfið, þetta sé gert að ráði Capacent á Íslandi sem er hluti af Capacent Holding AB í Svíþjóð sem var upphaflega stofnað árið 1983 og hefur verið skráð á Nasdaq First North markaðnum í Stokkhólmi frá árinu 2015.
Auglýsing um laust starf útvarpsstjóra birtist á vefsíðu Capacent og rennur umsóknarfrestur út 2. desember, það er á mánudag. Það er því ekki seinna vænna að fá úr því skorið hvort það stenst lög, reglur eða almennt tillit til þeirra sem standa straum af kostnaði við rekstur ríkisútvarpsins, skattgreiðenda, að leyna þá því hverjir vilja stjórna opinbera hlutafélaginu.
Í nýlegri skýrslu ríkisendurskoðunar um ríkisútvarpið segir að það veiki aðhald stjórnar RÚV að rekstri félagsins að í stjórnina sé ekki valið af fjármálaráðherra, forsvarsmanns eigenda félagsins, heldur mennta- og menningarmálaráðherra. Vegna þessarar athugasemdir segir stjórn RÚV á vefsíðu félagsins:
„Núverandi fyrirkomulag við skipan í stjórn RÚV, með sérstöku kjöri á Alþingi, er bundið í lög um RÚV frá árinu 2013. Það fyrirkomulag tekur mið af sérstöðu RÚV sem almannaþjónustumiðils og er sambærilegt við stjórnarkjör ríkismiðla í löndunum í kringum okkur. RÚV telur jákvætt að skipan í stjórn endurspegli vilja þjóðar og þings.“
Fyrirkomulagi stjórnarhátta ríkisfjölmiðla er háttað á ýmsan veg. Í Danmörku gaf ríkisstjórnin til dæmis stjórn DR (Danmarks Radio) fyrirmæli um að spara 20% og hefur áformum í þá veru verið hrundið í framkvæmd. Menn ættu að ímynda sér ramakveinið sem yrði hér vegna slíkra fyrirmæla. Telji stjórnendur RÚV jákvætt að þeir endurspegli vilja þjóðar og þings stingur enn frekar í augu að þeir hafi falið Capacent að vinna með leynd að því að ráða nýjan útvarpsstjóra.
Stjórn RÚV telur ekki einu sinni sjálfgefið að henni beri að fara að lögum. Ákvæði voru hert í lögum til að knýja RÚV til að stofna dótturfélag. Engu að síður leyfir stjórn RÚV sér að segja vegna athugasemdar ríkisendurskoðunar um brot RÚV á þessum lögum:
„Bæði RÚV og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa vakið athygli á því að þau markmið sem slík dótturfélög eiga að þjóna náist með fjárhagslegum aðskilnaði í innra bókhaldi. Sú leið sé bæði einfaldari og ódýrari í framkvæmd. RÚV hefur lengi haft samráð við mennta- og menningarmálaráðuneytið um þetta. Í ljósi niðurstöðu Ríkisendurskoðunar mun RÚV á ný óska eftir afstöðu eigandans til þess hvort vilji sé til að RÚV stofni dótturfélög eða hvort umræddur áskilnaður verði felldur á brott með lagabreytingu.“
Þessi viðbrögð stjórnar RÚV eru forkastanleg og taki mennta- og menningarmálaráðuneytið þátt í þessum leik með RÚV sannar það réttmæti þess að eignarhaldið verði fært til fjármálaráðuneytisins og skipað verði í stjórnina eins og í stjórnir annarra opinberra hlutafélaga þar sem sett eru skilyrði um hæfni stjórnarmanna.
Hér skal að lokum áréttað að framkvæmd laga um opinber hlutafélög sýnir að það voru mistök að velja þá leið í von um bætta stjórnarhætti.