9.9.2017 11:11

Brotalöm í sauðfjártillögum

Viðreisnarráðherrann Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nálgast málið á þann veg að úrlausnir í landbúnaðarmálum hafi verið gamaldags og hún sé að boða nýja tíma og menn vita ekki nákvæmlega við hvað er átt með því.

Afstaðan til sauðfjárbænda og framtíðar þeirra mótast að nokkru af því að stjórnarandstæðingar gera sér vonir um að reka fleyg á milli stjórnarflokkanna í málinu. Ástæðan er augljós. Viðreisnarráðherrann Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nálgast málið á þann veg að úrlausnir í landbúnaðarmálum hafi verið gamaldags og hún sé að boða nýja tíma og menn vita ekki nákvæmlega við hvað er átt með því.

Við úrlausn landbúnaðarmála þurfa menn að vera mjög hugmyndaríkir vilji þeir hanna leið sem ekki hefur verið reynd áður. Aðstæður eru ekki alltaf þær sömu og þess vegna geta ráðin sem notuð eru til að leysa aðsteðjandi vanda verið ólík frá einum tíma til annars. Flest eða öll hafa þau verið reynd áður og þess vegna er næsta „ódýrt“ að slá um sig með því að segjast vera að fara inn á einhverjar brautir sem ekki eru gamaldags.

Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður fjárlaganefndar alþingis, er fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands. Rætt er við Harald í Bændablaðinu sem kom út fimmtudaginn 7. september og segir hann meðal annars:

„Ég sakna þess að sláturleyfishafar séu ekki á einhvern hátt dregnir að þessu borði með markvissum hætti. Búinn verði til eðlilegur grunnur fyrir þá til að starfa saman á erlendum mörkuðum. Einnig að stuðla að áframhaldandi hagræðingu í sláturhúsageiranum ásamt rannsókna- og þróunarstarfi sem eykur virði sauðfjárafurða. Ekkert skiptir meira máli en að takist að hækka aftur afurðaverð í haust.  Ég verð að segja að mér finnst sú gríðarlega lækkun á afurðaverði sem hefur verið kynnt ekki hafa verið útskýrð. Hefði tíminn verið nýttur hefði verið hægt að ná mikilli hagræðingu strax á þessu ári.

Alþingismenn hafa fengið margar ályktanir sveitarstjórna úti um allt land. Þær hafa áhyggjur af þróun byggðar vegna ástandsins í sauðfjárræktinni. Ég óttast þessa fækkunarumræðu sem komin er í gang. Það verður mikið vandaverk að útfæra þetta tilboð sem fram kemur í tillögum ráðherra um starfslok sauðfjárbænda. Ég hefði mun frekar viljað sjá tilboð um tímabundna fækkun fjár.

Í sjálfu sér skiptir samfélögin ekki öllu máli hvort menn búa með sauðfé á jörðunum eða stunda þar annan verðmætaskapandi rekstur.  Ég vil ekki meiri eyðibýlastefnu.  Það var ekki það sem sveitarstjórnir voru að kalla eftir með ályktunum sínum.“

Haraldur flytur þarna rökstudda gagnrýni á tillögur ráðherrans. Í þeim er greinilega brotalöm þegar litið er til þess að ráðherrann sleppir því að virkja sláturleyfishafa til samstarfs. Andstaða ráðherrans við það ræðst líklega af því að það sé gamaldags að veita aðstoð við að minnka birgðir lambakjöts með því að styrkja markaðsátak í samvinnu við sláturleyfishafana.

Stjórnmálamenn sem halda að þeir slái sér upp í nútímanum með því að vega að bændum og ala á tortryggni í þeirra garð ættu að kynna sér sögu Alþýðuflokksins og síðan Samfylkingarinnar.