Bretar glíma við eigin fisk
Fiskveiðihluti breska ESB-samningsins er mjög viðkvæmur og ekki öll kurl komin til grafar um inntak hans og framkvæmd.
Enn er óljóst hverjar eru afleiðingar úrsagnar Breta úr ESB. Dag eftir dag berast fréttir um að framkvæmd viðskiptasamningsins sem gerður var fyrir áramót og leysti Breta endanlega frá sambandinu sé flóknari en ætlað var.
Þegar farið er yfir lýsingar á samskiptum Breta og ESB um þessar mundir er nauðsynlegt að hafa í huga að andstæðingar úrsagnarinnar mála skrattann á vegginn og magna allar frásagnir um brexit-vandræði. Þeir sem mæltu með úrsögn svara gjarnan gagnrýnum fréttum með því að skella skuldinni á smámunasemi og hefndarhug ESB-manna. Vandræðin séu í raun besta sönnunin fyrir nauðsyn þess að losna úr þessum félagsskap eftirlits og ofstjórnar.
Á fyrstu fimm árum EES-aðildar bjuggu íslenskir fiskútflytjendur við eftirlitsreglur ESB sem þrengdu mjög markaðsaðgang þeirra í Evrópu. Það var ekki fyrr en árið 1999 sem frjálst flæði íslensks fisks kom til sögunnar með aðlögun og lögfestingu evrópskra heilbrigðisreglna hér. Þær hafa breyst í áranna rás og gagnkvæmni orðið til að þær ná ekki aðeins til fisks heldur einnig annarra dýraafurða.
Breskir fiskútflytjendur urðu fyrir „áfalli“ í byrjun 2021 og síðan einnig útflytjendur breskra annarra dýraafurða þegar þeir áttuðu sig á því að litið var á framleiðsluna sem vöru frá þriðja landi og þess vegna yrði hún að lúta „opinberum kröfum“ ESB. Þetta kom mörgum í Bretlandi í opna skjöldu og lentu þeir í vanda vegna skorts á eigin undirbúningi.
Fiskveiðihluti breska ESB-samningsins er mjög viðkvæmur og ekki öll kurl komin til grafar um inntak hans og framkvæmd. Eitt er þó skýrt að nú ákveður ESB ekki lengur hámarksafla innan breskrar lögsögu heldur Bretar sjálfir.
Í dag (22. janúar) er sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem félagið Oceana hefur gert á fiskstofnum við Bretland. Þar kemur fram að ofveiði er á sex af 10 vinsælustu fisktegundum á breskum markaði og sumar tegundir sem Bretum eru sérstaklega kærar eru að hruni komnar. Leggja sérfræðingar til að Bretar hætti að borða þorsk, síld og lýsu af eigin miðum þar til tekst að endurreisa þessa stofna.
Aðeins þrjár tegundir af 10 sem skipta miklu fyrir breskan fiskiðnað eru sjálfbærar þrátt fyrir veiði: makríll í Norðaustur-Atlantshafi, ýsa í Norðursjó og leturhumar fyrir vestan Skotland.
Það er Bretum því ekki aðeins „áfall“ að erfitt sé að fullnægja heilbrigðiskröfum ESB við sölu á fiski heldur einnig að aflahámarkið sem ákveðið hefur verið í Brussel til þessa hefur leitt til eyðileggingar á stofnum nær allra vinsælustu fisktegunda á breskum markaði.
Vilji Bretar endurreisa fiskstofna undir eigin stjórn verða þeir því að skera niður veiðar frá því sem leyft var undir Brussel-aflahámarkinu.
Þeir sem mæla með aðild Íslands að ESB forðast allar umræður um sjávarútvegsstefnu sambandsins og þá kvöð að ákvörðun um heildarafla á Íslandsmiðum flyttist til Brussel, í hendur sérfræðinganna sem veittu heimild til ofveiði við strendur Bretlands og drápu næstum fiskstofna þar.