Borgarlína í stað flugvallar og Sundabrautar - eftir 20 ár?
Við þessar aðstæður er auðvitað skynsamlegast að beina athyglinni að borgarlínunni. Með því er lagður grunnur að umræðum næstu tveggja áratuga um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar til þess er litið að fyrir tæpum tveimur áratugum eða svo snerust umræður um framtíðarmál Reykjavíkurborgar einkum um hvenær flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni og hvar ætti að leggja Sundabraut þegar framkvæmdir við hana hæfust þarf ekki að koma á óvart að nú snúist umræður um borgarlínu fyrir um 100 milljarða og hvar eigi að hafa endastöð fyrir lest frá Keflavíkurflugvelli en lagning teina fyrir hana kostar aðra 100 milljarða.
Rétt er að gleyma því ekki að ekkert hefur gerst varðandi Reykjavíkurflugvöll á þessum árum annað en að beitt hefur verið salami-aðferð til að þrengja að honum með þá von andstæðinga hans að leiðarljósi að hann verði úrskurðaður hættusvæði fyrir flugvélar. Stjórnsýsluflækjan vegna vallarins er orðin svo mikil að þráðurinn í umræðunum er ekki einu sinni ljós á milli opinberu aðilanna Isavia og Samgöngustofu sem heyra þó undir sama ráðuneytið.
Ekkert hefur heldur gerst varðandi Sundabraut annað en að ákveðið hefur verið að íbúðabyggð rísi þar sem hagkvæmast var talið að leggja brautina á sínum tíma. Þá hefur samgönguráðherra sagt að ekki verði unnt að ráðast í vegaframkvæmdir til að greiða fyrir umferð til og frá höfuðbrogarsvæðinu án sérstakrar gjaldtöku. Engin samstaða er þó um það mál.
Við þessar aðstæður er auðvitað skynsamlegast að beina athyglinni að borgarlínunni. Með því er lagður grunnur að umræðum næstu tveggja áratuga um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim umræðum er einnig unnt að stunda innrætinguna sem reist er á kenningu Hjálmars Sveinssonar um að ekki sé til neins að leggja nýja vegi þeir fyllist bara af bílum.
Hjálmar stendur að nýstárlegri tilraun til að sanna kenningu sína með því að þrengja umferð vestur í bæ um Miklubrautina á sama tíma og Lækjargata er lokuð auk þess sem boðuð hefur verið lokun Geirsgötu.