5.11.2019 10:34

Borgarklúður við Bústaðaveg

Framvinda þessa máls er í samræmi við aðrar fréttir af lélegum undirbúningi af hálfu Reykjavíkurborgar og tillitsleysi gagnvart borgarbúum við töku ákvarðana sem snerta hagsmuni þeirra.

Á dögunum mynduðust miklar bílaraðir á Bústaðavegi þar sem ekið er til austurs og síðan suðurs inn á Kringlumýrarbraut. Ástæðuna var að finna í þessari tilkynningu sem birtist á vefsíðu vegagerðarinnar 30. ágúst 2019:

„Framkvæmdir eru hafnar við breytingar - og breikkun fráreinar til austurs við hlið syðri akreina á Bústaðavegi, þ.e. milli Suðurhlíðar og Kringlumýrarbrautar. Á þessum kafla verður annarri akrein fyrir umferð til austurs um Bústaðaveg lokað tímabundið, á meðan á framkvæmdinni stendur. Einnig verður unnið við umferðarljós og breytingar á akreinum akstursrampa Bústaðavegar, til suðurs að Kringlumýrarbraut (Hafnarfjarðarvegi (40)).

Framkvæmdir munu standa yfir á þessu svæði nú í haust og eru verklok áætluð 15. nóvember 2019. Vegfarendur eru beðnir að sýna aðgát og virða umferðarmerkingar við akstur um vinnusvæðið“

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kom saman 22. október 2019 og kvað upp þennan úrskurð:

„Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 22. ágúst 2019 að veita framkvæmdaleyfi til gerðar „fráreinar í akstursstefnu til austurs og breikkun rampa til suðurs á Kringlumýrarbraut ásamt breytingu á akstursleið inn á rampann frá norðurakbraut Bústaðavegar og setja ný umferðarljós á rampann“.“

Eigendur Birkihlíðar 42, 44 og 48, það er húseigendur í nágrenni framkvæmdanna kærðu hvernig staðið var að ákvörðun skipulagsfullttrúa borgarinnar þegar hann veitti leyfi til þessara framkvæmda.

Kærendur bentu á að með framkvæmdinni flyttist umferð á Bústaðavegi nær íbúðahverfinu með neikvæðum áhrifum á hljóðvist, loftgæði og önnur lífsgæði íbúa í hverfinu. Ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir þennan hluta Bústaðavegar.

Ekki fór fram grenndarkynning á fyrirhugaðri framkvæmd fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins líkt og áskilið er í skipulagslögum. Kærendum var ekki kunnugt um að til stæði að breikka götuna og íbúarnir áttuðu sig ekki á því fyrr en 7. september 2019 hvers eðlis framkvæmdin væri.

IMG_9949Myndin sýnir hvernig hljóðmönin á milli Bústaðavegar og Birkihlíðar var skert áður en framkvæmdir voru stöðvarar vegna mistaka við töku ákvarðana skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar.

Á ljósmyndinnu má sjá um hvaða jarðrask er að ræða en eins og greina má er gengið mun nær húsunum í Birkihlíð en áður var.

Framvinda þessa máls er í samræmi við aðrar fréttir af lélegum undirbúningi af hálfu Reykjavíkurborgar og tillitsleysi gagnvart borgarbúum við töku ákvarðana sem snerta hagsmuni þeirra.

Fréttir af framkvæmdum á Hverfisgötu og ráðaleysi borgaryfirvalda vegna þeirra eru af sama meiði. Þar hafa eigendur fyrirtækja verið dregnir á asnaeyrum vegna óvissu um gang framkvæmdanna. Á einu stigi málsins var sagt að þær hefðu tafist vegna gamalla lagna í götunni. Hafi verið ráðist í að brjóta um Hverfisgötuna án þess að gera sér grein fyrir að þar væru gamlar lagnir sýnir það ótrúlegan skort á forsjálni.

Það er alvarleg brotalöm í stjórnkerfi borgarinnar. Hún birtist í smáu sem stóru. Enginn veit nú hvenær eða hvernig framkvæmdunum við Bústaðaveg lýkur. Það verður ekki fyrir 15. nóvember 2019 eins og boðað var 30. ágúst 2019.