5.4.2017 15:52

Bók um hrunið og endurreisnina til umræðu á ÍNN

Íslenska þjóðarbúið stóð því frammi fyrir vanda sem var að mati bókarhöfunda af sömu stærðargráðu og stríðsskuldir Þjóðverja árið 1920. Að lokum skipti sköpum fyrir Íslendinga að íslenska ríkið þurfti ekki að borga þetta allt þrátt fyrir verulegan alþjóðlegan þrýsting í þá veru.
Í kvöld klukkan 20.00 verður frumsýnt samtal mitt á ÍNN við Hersi Sigurgeirsson, dósent við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ræði ég við hann um bók hans og dr. Ásgeirs Jónssonar, dósent við hagfræðideild HÍ, sem gefin var út fyrir skömmu og heitir The Icelandic Financial Crisis.9781137394545

Í bókinni er fjallað um hrunið 2008 og afleiðingar þess án þess og er athyglinni beint að alþjóðlegri þróun – aðlögun íslensks fjármálakerfis að frelsinu sem fékkst 1. janúar 1994 með gildistöku EES-samningsins. Þá hurfu höft eftir 63 ár án þess að það vekti sérstaka athygli, nú hverfa höft sem gilt hafa frá 28. nóvember 2008 til 12. mars 2017 – hvað höfum við lært?

Við gleymum fljótt tölum en á bls. 146 eru nefndar tölur sem hefðu lent á íslenska hagkerfinu ef allt hefði farið vesta veg:

Samtals nam snjóhengjan 4,3 milljörðum evra, Icesave-kröfurnar 3,9 milljörðum evra, opinberar skuldbindingar gátu numið allt að 8,2 milljörðum evra. Þar að auki þurfti ríkið að leggja til 2,6 milljarða evra til að endurfjármagnba bankana – þarna er um að ræða samtals tæpa 11 milljarða evra eða 110% af vergri landsframleiðslu.

Þetta mátti rekja beint til hrunsins. Þar að auki varð ríkið að standa í skilum vegna eldri skuldbindinga, taka varð lán til að fjármagna halla á fjárlögum og einnig varð að koma til móts við þá erlendu aðila sem áttu kröfur í slitabú gömlu bankanna, þarna var um verulega fjármuni að ræða 40 til 60% af vergri landsframleiðslu.

Íslenska þjóðarbúið stóð því frammi fyrir vanda sem var að mati bókarhöfunda af sömu stærðargráðu og stríðsskuldir Þjóðverja árið 1920. Að lokum skipti sköpum fyrir Íslendinga að íslenska ríkið þurfti ekki að borga þetta allt þrátt fyrir verulegan alþjóðlegan þrýsting í þá veru.

Þegar dæmið er gert upp á bls. 313 kemur í ljós að ríkissjóður hefur hagnast um rúmlega 1,9 milljarð evra á hruninu og eftirleik þess. Stærsti hluti kostnaðarins féll á árunum 2008 til 2012, hagnaðurinn kom hins vegar einkum frá á árunum 2013 til 2015 og raunar mest 2015/2016. Sé litið á verga landsframleiðslu nemur hagnaður ríkissjóðs 2,6% sem hlutfall af henni.

Eigendur bankanna og kröfuhafar báru skellinn. Skuldunum var ekki velt yfir á almenning.