13.7.2017 11:56

Blómleg Félagsstofnun stúdenta í hálfa öld

Félagsstofnun stúdenta býr við sterka fjárhagsstöðu og nýtur ekki fjárhagsstuðnings frá ríki eða borg. Þar starfa 170 manns og veltan er tæplega þrír milljarðar á ári.

Í Morgunblaðinu í dag, ViðskiptaMogganum, er viðtal við Guðrúnu Björnsdóttur sem hefur verið framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta í 18 ár af 49 ára sögu stofnunarinnar. Í Árbók Háskóla Íslands fyrir árið 1967 segir meðal annars:

„Undanfarin ár hafa farið fram miklar umræður um endurskipulagningu á stjórn á félagsstofnunum stúdenta, og hefir Stúdentaráð haft forystu í því máli. Háskólinn bauð haustið 1966 forstjóra Félagsstofnunar stúdenta við Oslóar-háskóla, cand. philol. Kristian Ottesen, og forstjóra háskólaforlagsins í Osló, cand. jur. Tönnes Andenæs, að koma hingað til lands til viðræðna um málið. Var m. a. stofnað til sérstaks fundar með þeim og stúdentaráði o. fl. stúdentum. Voru þessar viðræður hinar gagnlegustu. Var síðan samið frumvarp til laga um félagsstofnun stúdenta við Háskóla Islands, sem á að taka að sér allsherjarstjórn á fyrirtækjum stúdenta og hafa forystu um eflingu þeirra.“

Ég var varaformaður stúdentaráðs 1966 til 67 og formaður 1967 til 68 og kom því að þessari stefnumótun og vinnu á vegum ráðsins í góðri og náinni samvinnu við dr. Ármann Snævarr háskólarektor sem var vinur norsku forystumannanna sem komu hingað 1966 og lét sér annt um hag stúdenta.

14. febrúar 1968 var viðtal við mig í Morgunblaðinu sem formann stúdentaráðs og var ég spurður hvers vegna hefði dregist svo lengi sem raun bar vitni að reisa félagsheimili fyrir stúdenta. Ég sagði það fyrst og fremst vegna fjárskorts þar sem enginn aðili hefði talið sér bera að leggja fram nægilegt fé. Málið hefði farið á milli stúdentaráðs, háskólaráðs og stjórnarvalda, án þess að endanlegar ákvarðanir hefðu verið teknar. Stúdentar væru orðnir langþreyttir á sífelldu málavafstri án nokkurrar niðurstöðu. Einmitt af þessari ástæðu hefði stúdentaráð sótt mjög fast að frumvarp sem stúdentaráð og hskólaráð sömdu um Félagsstofnun stúdenta næði fram að ganga á alþingi. Stofnuninni væri ætlað að samhæfa krafta stúdenta, háskólaráðs og menntamálaráðuneytis til þess að sinna hagsmunamálum stúdenta. Fyrirmyndin væri Studentsamskipnaden við háskólann í Ósló, sem væri voldugt fyrirtæki og annaðist rekstur og uppbyggingu stúdentabyggðarinnar á Sogni auk þess að reka margvísleg fyrirtæki m. a. einhverja stærstu bókaútgáfu á Norðurlöndum, Universitetsforlaget undir stjórn Íslandsvinarins Tönnes Andenæs.

Dr. Gylfi Þ. Gíslason var menntamálaráðherra og í mars 1968 lagði hann fram frumvarp á alþingi um Félagsstofunun stúdenta sem varð að lögum 20. apríl 1968. Fyrsti fundur stjórnar stofnunarinnar var haldinn 26. júní 1968. Á fundinum kaus stjórnin sér formann Þorvald Búason mag. scient. sem var fulltrúi stúdentaráðs í stjórninni auk Guðmundar Þorgeirssonar stud. med og mín. Stefán Hilmarsson, bankastjóri var skipaður af menntamálaráðuneytinu, Guðlaugur Þorvaldsson prófessor af háskólaráði.

Myndin birtist á síðu Félagsstofnunar stúdenta.

Í ViðskiptaMogganum í dag segir að ég hafi sem formaður stúdentaráðs beitt mér fyrir minngargjöfum um foreldra mína og systurson til hjónagarða Félagsstofnunar stúdenta í upphafi áttunda áratugarins. Þetta er rétt nema að ég var ekki formaður stúdentaráðs á þessum tíma heldur stjórnarmaður félagsstofnunar og formaður stjórnar 1972 til 1974.

Í samtalinu við Guðrúnu Björnsdóttur kemur fram að Félagsstofnun stúdenta býr við sterka fjárhagsstöðu og nýtur ekki fjárhagsstuðnings frá ríki eða borg. Þar starfa 170 manns og veltan er tæplega þrír milljarðar á ári. Félagið rekur nú 1.200 leiguíbúðir og 200 leikskólarými. Bóksala stúdenta er öflugt fyrirtæki á vegum stofnunarinnar og hún stendur fyrir umfangsmikilli alhliða þjónustu við stúdenta. „Við erum sér heimur. Starfsemin þarf bara að standa undir sér,“ segir Guðrún og staðfestir þannig að markmiðin sem sett voru fyrir hálfri öld hafa náðst.

Lögin um Félagsstofnun stúdenta eru fáeinar skýrar greinar. Framkvæmd þeirra hefur aldrei vafist fyrir neinum. Þegar litið er til þess árangurs sem náðst hefur í krafti þeirra er umhugsunarefni hve miklum tíma hefur undanfarin 50 ár verið varið til opinberra afskipta af öðrum þáttum húsnæðismála og hverju sú laga- og fjármálaflækja öll hefur skilað.