15.11.2019 10:25

Bláeygur Guðni og EES

Þeir sem telja að EES-samningurinn þrengi að rétti stjórnvalda og ekkert sé unnt að gera án þess að fá leyfi frá Brussel eru skaðvaldar í umræðum um þetta mál.

Þegar Guðni Ágústsson var landbúnaðarráðherra bar hann pólitíska ábyrgð á jarðeignum ríkissjóðs. Hann segir í grein í Morgunblaðinu fimmtudaginn 14. nóvember:

„Sá er þetta ritar var landbúnaðarráðherra um langa hríð á miklum uppgangstímum í sveitunum. Þá var svo komið að tvær hindranir í jarðakaupum voru ekki taldar standast lengur; annars vegar forkaupsréttur sveitarfélaga, hann var talinn stangast á við stjórnarskrá og mannréttindi. Hitt var krafa um að eigandi jarðar yrði að byggja jörð sína sjálfur eða hafa leiguliða. Hvort tveggja var fellt út úr löggjöfinni. Það er full ástæða til að harma bæði eigið gáleysi á þessum tíma og alltof lausbeislaða löggjöf um búsetu og jarðalög sem Alþingi setti þá. En fáir virtust þá hafa áhyggjur af erlendri eða innlendri auðsöfnun í jarðakaupum, sem segir að bæði greinarhöfundur, þingmenn og ráðherrar þess tíma voru bláeygir.“

Í ljósi þessara orða er athyglisverðara en ella að meginkjarninn í þessari grein Guðna skuli snúa að EES-aðildinni og andstöðu við hana. Lætur Guðni eins og vegna aðildarinnar að EES sé eignarhaldið á Íslandi að tapast í hendur útlendinga. Hvers vegna minnist hann ekki á EES þegar hann játar á sig sem ráðherra að hafa verið bláeygur þegar hann slakaði á kröfum til þeirra sem hér geta eignast jarðir? Uppgjöf Guðna var ekki vegna EES.

Landbunadur-aEES-samningurinn setur þá meginkröfu að eitt skuli yfir alla ganga á sameiginlega markaðnum. EES-samningurinn hefur ekki „snúist í marga hringi“ eins og Guðni fullyrðir. Samningurinn er óbreyttur frá því að alþingi samþykkti hann 12. janúar 1993. Með vísan til hans og á grundvelli viðauka við samninginn hafa verið sett lög til að framfylgja ákvæðum samningsins, 16% af íslenskri löggjöf frá 1992 eiga beinar rætur í samningnum. Unnt er að sjá lista yfir þau í skýrslu um EES-samstarfið frá 1. október 2019. Guðni berst við gamlan draug og segir:

„Við fáum löggjöf og reglugerðir sendar í pósti frá Brussel í þúsundavís og allt rennur þetta í gegnum Alþingi eins og lækjarspræna, stimplað og afgreitt án þess að Alþingi hafi nokkur áhrif á efni reglnanna sem það innleiðir.“

Guðni harmar að hér sé ekki óðalslöggjöf eins og í Noregi. Skortur á henni leiðir meðal annars til þess að við arfsal fara bújarðir hér í eyði umfram það sem ella yrði að mati margra. Að óðalsrétturinn var afnuminn hér á ekkert skylt við EES-aðildina.

Þeir sem telja að EES-samningurinn þrengi að rétti stjórnvalda og ekkert sé unnt að gera án þess að fá leyfi frá Brussel eru skaðvaldar í umræðum um þetta mál eins og mörg önnur. Hér skortir fyrst og síðast skýra opinbera stefni og að henni sé framfylgt. Það er til dæmis ekki vegna reglna frá Brussel að íslenskur bóndi getur ekki selt ævistarfið til sonar síns án þess að borga 37 til 46% skatt af sölunni.