1.9.2017 10:07

Björt framtíð og forstöðumennirnir

Of mikil lausung verður í stjórnarháttum búi forstöðumenn stofnana við mismunandi starfsöryggi eftir því hvort Björt framtíð ræður í ráðuneyti þeirra eða ekki.

Vegna þess sem sagði hér á síðunni í gær um ákvörðun Bjartar Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, um að auglýsa allar stöður forstöðumanna stofnana á vegum ráðuneytis síns þegar fimm ára skipunartíma lýkur snýr Morgunblaðið í dag sér til Trausta Fannars Valssonar, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, og spyr hann álits á málinu. Hann vísar í 23. grein laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þar segir:

„Embættismenn skulu skipaðir tímabundið, til fimm ára í senn, nema annað sé tekið fram í lögum.

Ef maður hefur verið skipaður í embætti skv. 1. mgr. skal honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa um fimm ár, nema hann óski eftir að láta af störfum með þeim hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr.“

Af þessu sést að Björt verður að muna að tilkynna forstöðumanni með meira en sex mánaða fyrirvara að staða hans verði auglýst. Tilkynni ráðherrann þetta ekki framlengist ráðningartíminn sjálfkrafa um fimm ár. Björt ætti að kynna sér uppnámið sem það kann að valda að senda slíka tilkynningu frá sér. Ég kynntist því á ráðherraferli mínum og hafði þó skýrar efnisástæður fyrir tilkynningu minni.

Trausti Fannar segir:

„Það hversu mikið vald þetta veitir ráðherranum, hvort hann má velja að auglýsa – bara til að fá nýtt blóð, bara til að hrista upp í hlutunum – eða hvort hann getur einvörðungu beitt þessari heimild vegna þess að hann telji nauðsynlegt af einhverjum ástæðum sem varða embættismanninn og frammistöðu hans, úr þessu hefur ekki að öllu leyti verið leyst í íslenskum rétti.“

Hann segir ekki „allskostar heppilegt“ að sú leið sér farin sem nú hefur verið kynnt að það ráðist af geðþótta ráðherra hverju sinni hvort sjálfkrafa sé gripið til þess að tilkynna forstöðumanni að staða hans verði auglýst að loknum fimm ára skipunartíma.

Mér finnst þarna of varlega til orða tekið um alvarlegt viðfangsefni sem snertir mikilvæga stjórn- og starfshætti á vegum ríkisins. Augljóst er að fimbulfambið sem einkenndi stjórnarhætti Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra og óheppilegar breytingar sem gerðar voru á stjórnarráðslögunum undir hennar forystu að ráðgjöf manna sem höfðu enga reynslu af störfum innan stjórnarráðsins hefur leitt margt ill af sér.

Of mikil lausung verður í stjórnarháttum búi forstöðumenn stofnana við mismunandi starfsöryggi eftir því hvort Björt framtíð ræður í ráðuneyti þeirra eða ekki. Ætlar Óttarr Proppé að láta reglu Bjartar Ólafsdóttur og flokks síns gilda í heilbrigðisráðuneytinu?