17.10.2020 10:43

Barist um fylgi Lýðræðisvaktarinnar

Lýðræðisvaktin fékk 2,46461546601762% atkvæða í kosningum til þings 27. apríl 2013. Það er því eftir miklu að slægjast hjá Pírötum og Samfylkingu með því að endurflytja tillögur stjórnlagaráðsins.

Þingmenn Pírata og Samfylkingar auk tveggja fyrrverandi þingmanna VG, 15 þingmenn af 63, hafa lagt frumvarp til stjórnskipunarlaga fyrir alþingi, það er „nýju stjórnarskrána“. Efnt er til listrænna gjörninga og veggjakrots til að árétta mikilvægi þess að spurningunni tilvist þessa plaggs sé svarað.

Áhugamenn um svarið geta kynnt sér stöðu málsins á vef alþingis þar sem framvinda þess er rakin þar til alþingi hafnaði tillögunum formlega í fyrsta sinn vorið 2013. Athygli vekur að við greinargerð frumvarpsins nú hefur ekki verið bætt fyrri falleinkunn Feneyjanefndarinnar, sérfræðinganefndar Evrópuráðsins um stjórnarskrármálefni. Í síðari falleinkunn nefndarinnar er þess sérstaklega óskað að almenningi sé gerð grein fyrir því hvers vegna alþingi hafnaði tillögunum vorið 2013.

LindexFyrsti flutningsmaður frumvarpsins að þessu sinni er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sem gegnt hefur formennsku í laganefnd þings Evrópuráðsins og ætti henni því að vera sérstaklega annt um að vakin sé athygli á afstöðu sérfræðinga ráðsins til mála sem hún flytur á alþingi. Segir í greinagerð frumvarpsins að henni hafi verið breytt frá því að málið var upphaflega flutt á þingi. Ekki er skýrt hvers vegna þagað er um hluta sögu málsins.

Í upphafi greinargerðar flutningsmanna frumvarpsins nú segir:

„Frumvarp þetta til stjórnarskipunarlaga var áður lagt fram á 141. [2012-2013], 149. [2018-2019] og 150. löggjafarþingi (279. mál) [2019-2020] en náði ekki fram að ganga. Það er nú endurflutt óbreytt. Greinargerð er lítillega aukin.“

Undanfarin tvö þing hafa Píratar og Samfylking skipst á að hafa forystu un að leggja þetta frumvarp fram, Píratar á 149. þingi, Samfylking á 150. þingi og Píratar að þessu sinni.

Af framsöguræðu Loga Einarssonar, formanns Samfylkingar, á 150. þingi má ráða að flutningur frumvarpsins hefur fyrst og fremst það gildi að ganga í augun á þeim sem standa utan þings og hrópa: Hvar er nýja stjórnarskráin? Logi veit að á þingi verður ekki meirihluti fyrir þessum tillögum hvorki nú né í fyrirsjáanlegri framtíð. Flokksformaðurinn er ekki annað en leiksoppur í blekkingarleik eins og svo margir aðrir sem tala sama máli og hann.

Logi hélt því fram í ræðu sinni í fyrra að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hefðu stöðvað framgang málsins 2013 með málþófi. Honum var bent á að rætt hefði verið um málið í 40 klst. sem teldist ekki málþóf enda voru það Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Steingrímsson, forystumenn þriggja vinstri flokka, sem fluttu útfarartillöguna um frumvarpið eftir að Feneyjanefndin bættist í hóp þeirra sérfræðinga sem telja tillögurnar ekki hæfa stjórnarskrá og þess vegna sé best að jarða frumvarpið.

Þegar stjórnlagaráðsmenn sáu vorið 2013 hver yrðu örlög tillagna sinna ákváðu þeir að stofna stjórnmálaflokk, Lýðræðisvaktina, til að tryggja þinglegan framgang málsins. Lýðræðisvaktin fékk 2,46461546601762% atkvæða í kosningum til þings 27. apríl 2013. Það er því eftir miklu að slægjast hjá Pírötum og Samfylkingu með því að endurflytja tillögur stjórnlagaráðsins.