12.7.2017 10:07

Bann við akstri hópbifreiða tekur gildi í miðborginni

Nýju reglurnar um bann við umferð stórra ferðamannabifreiða um götur á ofangreindu svæði bitna einkum á ferðamönnum í Reykjavík og kunna að breyta viðhorfi þeirra við val á gististað í borginni.

Frá og með laugardegi 15. júlí eiga hópbifreiðar með ferðamenn að aka um valdar götur umhverfis Þingholtin og Skólavörðuholtið.  Ekið verður upp Eiríksgötu og niður Njarðargötu að hringtorgi við Sóleyjargötu. Frá Skúlagötu verður ekið upp Ingólfsstræti og austur Hverfisgötu. Þá verður ekið austur Túngötu og Vonarstræti. Akstursreglurnar gilda fyrir hópbifreiðar án stærðartakmarkana. Einnig verður sérútbúnum bifreiðum, t.d. til fjallaferða, óheimilt að aka innan bannsvæðis.

Reglurnar eru settar til að stemma stigu við ferðum ofangreindra bifreiða á svæðum þar sem er þéttriðið net hótela og gistiheimila. Vegna ferðamanna hafa verið skipulögð safnstæði á 12 stöðum í borginni. Kannaður verður grundvöllur þess að koma fyrir biðskýlum á völdum stöðum þegar reynsla er komin á notkun safnstæðanna að sögn borgaryfirvalda.

Erfitt er að segja fyrir um hvaða safnstöð flestir ferðamenn sækja. Hugsanlega verður það við Hallgrímskirkju andspænis barnaheimilinu Grænuborg sem stendur við Eiríksgötu. Umferðin verður mikil því um er að ræða alls konar faratæki vegna allra ferða til og frá flugvelli, vegna dagsferða, hestaferða, hvalaskoðunar, fjallaferða o.s.frv.

Við höfum fylgst með því undanfarið hvernig markvisst var unnið að því að leyna borgarbúa og nágranna þeirra mengunaráhrifum frá bilun í skolphreinsikerfi borgarinnar. Það var ekki nema fyrir mikinn þrýsting að tókst að knýja fram upplýsingar um eðli mengunarslyssins og þá fyrst hófust skipulegar mælingar og skipuleg miðlun upplýsinga.

Nýju reglurnar um bann við umferð stórra ferðamannabifreiða um götur á ofangreindu svæði bitna einkum á ferðamönnum í Reykjavík og kunna að breyta viðhorfi þeirra við val á gististað í borginni. Hitt skiptir þó ekki síður máli að miðla almennt til borgarbúa hvaða áhrif nýju reglurnar hafa. Hver verða áhrif safnstöðvanna og þess sem gerist í kringum þær? Væntanlega hafa borgaryfirvöld gert ráðstafanir til miðlunar upplýsinga um það.

Í kringum Hallgrímskirkju er oft þröng á þingi. Straumur ferðamanna þangað er mikill. Athafnir í kirkjunni eru jafnan fjölsóttar og eru þess eðlis að þær krefjast kyrrðar til að kirkjugestir njóti stundarinnar. Barnaheimilið Grænuborg kallar á umferð vegna barnanna sem þar eru. Spurning er hvað hefur verið tekið með í reikninginn þegar ákveðið var að hafa safnstöð á þessum stað við kirkjuna.

Eins og málum er hátta sker reynslan ein úr um hvernig til tekst með þessa nýbreytni vegna ferðamanna í Reykjavík.  Þegar allt var komið í óefni vegna mengunarslyssins gengu forráðamenn borgarinnar fram og sögðust bara ekkert hafa vitað um vandræðin. Vonandi fá þeir og borgarbúar að vita um framkvæmd akstursbannsins áður en allt er komið í óefni.