Bankasýslan í brennidepli
Faglegir stjórnarhættir mega sín einskis þegar pólitíska blóðlyktin fyllir vit þeirra sem er í raun alveg sama um góða stjórnsýslu en hafa ekki áhuga á öðru en ala á ófriði og upplausn.
Nefndir eða stjórnir sem aldrei standa almenningi skil gjörða sinna taka ákvarðanir sem ráðherrum er skylt að hlíta. Þeir sitja uppi með ábyrgðina hvort sem þeim líkar niðurstaðan eða ekki. Við höfum mörg dæmi um harðar deilur hundsi ráðherrar svokallaðar faglegar niðurstöður slíkra stjórna.
Eftir bankahrunið beitti Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG og fjármálaráðherra, sér fyrir nýrri löggjöf um faglega yfirstjórn bankamála innan stjórnsýslunnar. Bankasýsla ríkisins, ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn tók til starfa í janúar 2010. Hún fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, í samræmi við lög, góða stjórnsýslu- og viðskiptahætti og eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma eins og segir á vefsíðu hennar. Bankasýslunni er ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings.
Fjármálaráðherra hefur farið að tillögum bankasýslunnar
við sölu á Íslandsbanka og þó gengið lengra en hún vildi með því að birta nöfn
kaupenda í útboðinu 22. mars 2022. Frumkvæði ráðherrans að birta
kaupendalistann „gerði allt vitlaust í íslensku samfélagi“ að mati ritstjóra Kjarnans
sem veltir sér 9. apríl upp úr nöfnunum 209 sem þar er að finna.
Bankasýsla ríkisins varaði fjármálaráðherra mjög sterklega við birtingu listans. Í minnisblaði LOGOS lögmannsþjónustu, dags. 28. mars sl., til stofnunarinnar segir meðal annars að vegna lagaákvæða um þagnarskyldu sé óvarlegt að nafngreina kaupendur í útboðinu án skriflegs samþykkis viðkomandi.
Afstaða Íslandsbanka til birtingar var að fá þyrfti samþykki viðskiptavina bankans.
Niðurstaða könnunar bankasýslunnar var að opinber birting listans yrði á skjön við viðteknar venjur á alþjóðlegum mörkuðum. Eindregið var mælt gegn slíkri birtingu. Frávik frá markaðsframkvæmd að þessu leyti kynni að hafa neikvæð áhrif á sölumeðferð í tengslum við eftirstæðan hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka.
Í ljósi alls ofangreinds taldi Bankasýsla ríkisins sér ekki heimilt að birta opinberlega þær upplýsingar sem ráðherra óskaði eftir. .
Þótt ráðherrann hafi öðru leyti en þessu farið að því sem bankasýslan telur löglegt sætir hann nú persónulegum árásum og í raun svívirðingum, einkum vegna nafnanna sem birtust á listanum. Faglegir stjórnarhættir mega sín einskis þegar pólitíska blóðlyktin fyllir vit þeirra sem er í raun alveg sama um góða stjórnsýslu en hafa ekki áhuga á öðru en ala á ófriði og upplausn.
Andstæðingar ráðherrans grafa undan faglegu leikreglunum. Einkennilegt er að hagfræðingar sem skreyta sig með skrifum fyrir rannsóknarnefnd alþingis á bankahruninu saki bankasýsluna um lögbrot. Hún segir að við sölumeðferðina hafi ákvæðum laga verið fylgt í hvívetna. Stofnunin „vísar á bug hvers kyns sjónarmiðum um annað“.
Rannsóknarnefnd alþingis krafðist á sínum tíma lögvarins réttar til að standa utan deilna vegna niðurstöðu sinnar. Kemur því úr hörðustu átt að störfum fyrir nefndina sé flaggað þegar flutt er marklaus lögfræðileg gagnrýni.