Bankaskýrsla birt
Af umsögnum fjölmiðla, meðal annars þeirra sem höfðu stærst gagnrýnisorð um söluna eftir 22. mars, má ráða að um matskennda úttekt sé að ræða, velt sé vöngum.
Vegna þess að einhver þingmaður sem fékk senda úttektarskýrslu ríkisendurskoðunar um sölu Íslandsbanka 22. mars lak efni hennar til fréttastofu ríkisútvarpsins og ef til vill fleiri fjölmiðlamanna sunnudaginn 13. nóvember má segja að allt hafi farið í handaskolum við birtingu skýrslunnar.
Ríkisendurskoðun tilkynnti að morgni mánudags 14. nóvember að skýrslan væri komin á vefsíðu stofnunarinnar fyrr en ætlað hefði verið. Þessi skýring er gefin:
„Áður stóð til að skýrslan yrði gerð opinber eftir fund Ríkisendurskoðunar með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis síðar í dag [kl. 16.00]. Ákvörðun um að flýta birtingu hennar var tekin eftir að ítarleg umfjöllun fjölmiðla um efni hennar hófst í gær.“
Með bréfi dagsettu 7. apríl 2022 óskaði fjármála- og efnahagsráðuneyti eftir því við ríkisendurskoðunar að embættið gerði stjórnsýsluúttekt á því hvort sala ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka 22. mars 2022 hefði samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.
Upphaflega var talað um að skýrslan lægi fyrir í júní. Eftir að sumarhlé var gert á störfum alþingis án þess að skýrslan hefði séð dagsins ljós lá fyrir að þing kynni að verða kallað sérstaklega saman til að ræða skýrsluna. Til þess kom ekki. Þá var því velt upp hvort skýrslan yrði birt fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins 4. til 6. nóvember og kynni að hafa áhrif á formannskjörið þar.
Nú liggur fyrir að skýrslan birtist ekki fyrr en 14. nóvember 2022.
Í inngangi hennar segir ríkisendurskoðun að úttektin taki til þess hvernig staðið var að sölu umrædds eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka út frá lögum, skilgreindum markmiðum með sölunni og sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti. Ekki sé tekin afstaða til þess „hvort réttmætt hafi verið að selja hluti ríkisins í bankanum á umræddum tímapunkti eða til þeirra aðila sem fengu kauptilboð sín samþykkt“. RSK leggur ekki mat á „hvort rétt hafi verið að notast við aðrar söluaðferðir en tilboðsfyrirkomulag“ og ekki heldur „hvort vinnubrögð umsjónaraðila söluferlisins, söluráðgjafa eða söluaðila hafi verið í samræmi við gildandi lög og reglur“, það sæti eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Hér verður ekki fjallað efni úttektarskýrslunnar enda er hún 71 bls. og þarf lengri tíma en nú hefur gefist til að lesa hana. Af umsögnum fjölmiðla, meðal annars þeirra sem höfðu stærst gagnrýnisorð um söluna eftir 22. mars, má ráða að um matskennda úttekt sé að ræða, velt sé vöngum um hvort ekki hefði mátt gera eitthvað betur auk þess sem bankasýslan, sem nú hefur verið afskrifuð, hafi haft bolmagn til að sinna þessari sölu eða notið nægilega góðrar ráðgjafar.
Í inngangi skýrslunnar er engin skýring gefin á því hvers vegna vinna við hana var svona tímafrek. Ef til vill hafa rannsakendur verið að leita að ástæðunum fyrir stóryrðunum sem féllu á alþingi um söluna 22. mars? Hvort einhvers staðar leyndist eitthvað sem gæfi tilefni til upphrópana og afsagnarkrafna.
Það ætti að gera aðra úttekt á öllu því sem stjórnarandstæðingar á alþingi, fréttastofu ríkisútvarpsins, Kjarnanum og annars staðar hafa sagt um þetta mál.