5.11.2023 10:44

Báknið gegn kræklingum

Kræklingarækt er unnt að stunda á svæðum sem af opinberri hálfu eru skilgreind sem „brothættar byggðir“ og gert er átak í þágu byggðafestu. 

Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og bóndi á bænum Gautavík í Berufirði, skrifar grein um báknið í nýjasta tölublað Bændablaðsins (2. nóv.). Greinin ber fyrirsögnina: Þegar sett eru lög um starfsemi sem í raun fela í sér bann.

Lögin sem eru þarna til umræðu eru frá árinu 2011 og eru um skeldýrarækt. Þegar sagt var frá þessum lögum í Vísi 1. maí 2012 sagði Vilmundur Jósefsson, þáv. formaður SA, að kræklingarækt fælist „bara í því að leggja kaðla í sjó og bíða eftir að kræklingur festi sig þar á og vaxi síðan upp í tiltekna stærð. En til að komast af stað og fá þetta tilraunaleyfi (að hámarki til sex ára) þá þarf að leita leyfis hjá samtals tíu aðilum. Þetta er algjörlega út í hött, ef ég á að orða þetta bara beint.“

Oddný Anna segir að í dag rækti enginn krækling (bláskel) til sölu á markaði. Þeir sem störfuðu innan greinarinnar þegar lögin tóku gildi eða sóttu um leyfi eftir það, hafi allir lagst í dvala eða hætt alveg. Hún segir.

„Ástæðan er meðal annars blýhúðunin svokallaða sem þýðir að embættismenn hér á landi „nýta ferðina“ og þrengja þau skilyrði sem eru í regluverkinu sem verið er að innleiða.“

„Blýhúðuninni“ hafi verið beitt af „slíku offorsi“ vegna skeldýraræktar hér að „rekstrargrundvöllur greinarinnar brast fullkomlega“. Nú sé eini skelfiskurinn á markaði hér veiddur í fjörðum landsins (villtur, ekki ræktaður) og fyrst og fremst seldur til veitingastaða. Áður en lögin drápu kræklingaræktina hér voru margir með stórhuga áform um hana enda er heimsmarkaður næsta takmarkalaus fyrir þessa vinsælu matvöru.

Kraeklingu-soinn-kraeklinKræklingar - bláskel.

Oddný Anna segir að báknið hafi ekki minnkað á þessu sviði frá 2011: Frumkvöðull þarf að standa straum af kostnaði við eftirlit og leyfi en um starfsleyfi þarf að sækja til Matvælastofnunar (MAST) og Umhverfisstofnunar, sé ræktun yfir 200 tonn, með umsögnum frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Orkustofnun, Siglingastofnun, Umhverfisstofnun og viðkomandi sveitarstjórn.

Kræklingarækt er unnt að stunda á svæðum sem af opinberri hálfu eru skilgreind sem „brothættar byggðir“ og þar sem gerðar eru sérstakar ráðstafanir til að treysta forsendur byggðafestu eins og til dæmis í Króksfirði í Reykhólahreppi eða í Steingrímsfirði við Hólmavík á Ströndum en í Strandabyggð fækkar fólki mest megi marka opinberar tölur.

Sárin eftir hönd báknsins, les: regluverksins, má sjá víða á landsbyggðinni þegar grannt er skoðað. Oft virðist hver opinbera höndin vinna gegn annarri.

Hér kallar Oddný Anna það „blýhúðun“ sem einnig er nefnt „gullhúðun“, það er græðgi báknsins sem nýtir sér hvert tækifæri sem gefst til að festa sig í sessi. Það er í sjálfu sér ekki markmið að fækka opinberum stofnunum heldur minnka verkefni þeirra svo að svigrúm einstaklinga aukist, grisja regluverkið svo að nýir sprotar geti lifað. Var það tilgangur ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2011 að drepa kræklingarækt í landinu?