30.4.2021 10:11

Bætur Ólínu í algjörum sérflokki

Sérstaka athygli vekur hve bætur til Ólínu Þorvarðardóttur eru langhæstar en þær fékk hún vegna þess að Þingvallanefnd vildi hana ekki sem þjóðgarðsvörð.

Laugardaginn 24. apríl 2021 var sagt frá því á visir.is að vefsíðan hefði fengið í hendur upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu um uppgjör bóta til þeirra sem sótt hafa kröfur á hendur ríkinu frá árinu 2011 vegna þess að brotið hafi verið á rétti þeirra við ráðningu í störf hjá ríkinu. Alls eru nöfn 15 manna á listanum sem nær til nóvember 2020 og þar af er málum þriggja einstaklinga þá ólokið. Síðan er máli eins þeirra lokið með dómi.

Af þeim 12 málum sem lokið var í nóvember 2020 var ríkið sýknað af kröfum þriggja. Tveimur af 12 málum lauk með dómi, samkomulag náðist í sjö málum.

Sérstaka athygli vekur hve bætur til Ólínu Þorvarðardóttur eru langhæstar en þær fékk hún vegna þess að Þingvallanefnd vildi hana ekki sem þjóðgarðsvörð. Samdi Ólína við ríkislögmann og fékk 19.216.468 kr. í sinn hlut.

Eftir að skjalið var tekið saman féll dómur í máli sem Jón Höskuldsson höfðaði á hendur ríkinu vegna þess að fram hjá honum var gengið við skipun dómara í landsrétt og dæmdi hæstiréttur honum 8,5 m.kr. í skaðabætur.

Þriðju hæstu bæturnar á undanförnum 10 árum runnu til Helgu Jónsdóttur sem fékk ekki starf í fjármála- og efnahagsráðuneytinu en hún samdi um 4.815.762 kr. bætur.

Háar bætur til Ólínu Þorvarðardóttur 10. desember 2019 vöktu undrun og jafnvel hneykslun á sínum tíma. Af listanum sem nú hefur verið birtur má sjá að hæð bótanna er á skjön við allt annað, meira en helmingi hærri en bæturnar sem hæstiréttur dæmdi Jóni Höskuldssyni. Listanum sem nú liggur fyrir fylgir enginn rökstuðningur fyrir ákvörðunum í hverju tilviki fyrir sig.


Ólína var á sínum tíma skipuð skólameistari við Menntaskólann á Ísafirði en ákvað að hverfa frá því starfi þegar fimm ára skipunartími hennar var að renna sitt skeið. Í fréttatilkynningu 25. febrúar 2006 sagði Ólína að ákvörðun sín væri tekin „með velferð skólans í huga, í þeirri von að takast megi að leysa þennan mikilvæga vinnustað úr þeim heljargreipum ófriðar sem honum hefur verið haldið í undanfarin misseri“.

Imagepeningar3Af frétt á visir.is 24. apríl 2021 má ráða að óskað hafi verið eftir upplýsingum um þessar bótagreiðslur ríkisins vegna bókar eftir Ólínu Þorvarðardóttur sem hún hafi skrifað um „atvinnurekendavald“ og „klíkustjórnmál“ og baráttu „hennar sjálfrar sem leiddi til samkomulags hennar og ríkisins um tuttugu milljóna króna bótagreiðslu“. Hún sætti sig við niðurstöðuna en „líti engu að síður svo á að þeir sem tóku þessa ákvörðun haf[i] í rauninni ekki sætt neinni ábyrgð fyrir hana, heldur [séu] það íslenskir skattgreiðendur sem stand[i] straum af þessum tuttugu milljónum sem að urðu niðurstaðan en ekki Þingvallanefnd“.

Í bókinni segir Ólína frá því að fleiri hafi ekki viljað ráða hana til starfa en Þingvallanefnd þótt ekki komi fram að hún krefjist skaðabóta af þeim. Raunasaga Ólínu vakti nokkra athygli haustið 2020 og var talið að þar kæmi fram hve illa væri farið með einstaklinga sem ekki fengju þau embætti sem t.d. kærunefnd jafnréttismála teldi þá hæfasta til að gegna. Ólína sat um tíma á þingi fyrir Samfylkinguna og njóta sjónarmið hennar stuðnings meðal skoðanasystkina hennar.