14.7.2021 9:28

Bæta verður lög um land

Skýrsla stýrihópsins tekur á mikilvægu úrlausnarefni þar sem mikið verk er enn óunnið til að lög, reglur og stjórnsýsla falli að nútímanum og breyttum aðstæðum og viðhorfum til lands og þeirra gæða sem í því felast.

Undir lok maí 2021 sendi stýrihópur á vegum forsætisráðuneytisins frá sér skýrslu um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði hópinn 10. júní 2020 og var honum ætlað að starfa tímabundið. Markmiðið var að starf hópsins stuðlaði að því að nýtingu lands og réttinda sem því tengdust yrði hagað í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi að teknu tilliti til mikilvægis lands frá efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu sjónarmiði. Þannig yrði meðal annars stuðlað að fjölbreyttum og samkeppnishæfum landbúnaði, náttúruvernd, viðhaldi og þróun byggðar og um leið þjóðhagslega gagnlegri og sjálfbærri landnýtingu.

Áður en stýrihópurinn var settur á laggirnar með þátttöku fjölda manns úr ráðuneytum og stofnunum hafði forsætisráðherra beitt sér fyrir gerð frumvarps sem samþykkt var á alþingi sumarið 2020 og snerist um breytingar á ýmsum lögum sem snertu eignarráð og nýtingu fasteigna (aðila utan EES-svæðisins, landeigendaskrá, ráðstöfun landeigna, aukið gagnsæi o.fl.).

Skýrsla stýrihópsins tekur á mikilvægu úrlausnarefni þar sem mikið verk er enn óunnið til að lög, reglur og stjórnsýsla falli að nútímanum og breyttum aðstæðum og viðhorfum til lands og þeirra gæða sem í því felast.

Þegar textinn er lesinn vekur oft undrun að svo virðist sem skort hafi nákvæmni, alúð og virðingu fyrir eignarrétti á landi og fullnægjandi skráningu hans. Þá er engu líkara en skipulagsyfirvöld forðist að taka af skarið um margvísleg álitamál og því verði til „grá svæði“ þar sem aðeins á að sætta sig við skýrar línur.

IMG_3594Í skýrslunni kemur fram að við breytingu á jarðalögunum árið 2004 hafi EES-reglur verið rangtúlkaðar af þeim sem gerðu breytingartillögurnar. Þeir hafi talið skylt að hafa hér rýmri heimildir fyrir EES-aðila til landakaupa á Íslandi en gilda í sumum EES-landanna. Þetta ber er að skoða í ljósi þess sem segir á bls. 28 í skýrslunni þar sem stendur:

„Alþjóðleg reynsla hefur sýnt að rík ástæða er til að gjalda varhug við mikilli samþjöppun eignarhalds á landi. Land er enda undirstaða fullveldis ríkja og telst það til grundvallargæða hvers samfélags. Íslenskt land er sérstaklega verðmætt enda geymir það víðast hvar gnægð af þjóðfélagslega mikilvægum náttúruauðlindum undir og á yfirborði jarðar, þar á meðal jarðhita-, vatns og veiðiréttindum. Eru þá ótalin þau miklu samfélagslegu og menningarlegu verðmæti sem felast í náttúru landsins og náttúru- og menningarminjum ýmiss konar. Viðhlítandi aðgangur að landi er einnig forsenda uppbyggingar og nýliðunar í landbúnaði og nauðsynlegur þáttur í viðhaldi og þróun byggðar.“

Það er ánægjulegt að skýrsla um nauðsyn þess að huga að eignarhaldi og nýtingu lands skuli birt nokkrum mánuðum fyrir þingkosningar. Kjósendur ættu að spyrja frambjóðendur um afstöðu þeirra til álitamála sem nefnd eru í skýrslunni og ekki verða leidd til lykta nema með atbeina alþingis. Umræður um hálendisþjóðgarð á nýafstöðnu þingi sýna aðeins hve viðkvæmt og vandasamt er að taka ákvarðanir um land en hjá þeim verður ekki komist.